17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í D-deild Alþingistíðinda. (4911)

916. mál, Tækniskóli Íslands

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þar sem ég er annar fyrirspyrjanda í þessu máli, þá vildi ég leggja hér örfá orð í belg. Ég vil þá þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin við fsp. okkar. Mér sýnist, að þau séu afdráttarlaus og svar ríkisstj. liggi alveg ljóst fyrir í þessu efni, að það verði ekki um það að ræða, að Tækniskóli Íslands rísi á Akureyri. Ég vil í þessu sambandi minna á það, sem stendur í því kveri, sem hefur hlotið nafnið Ólafskver. Þar stendur þessi setning: „Stefnt verði að því, að ríkisstofnunum verði valinn staður úti um land meira en nú er gert.“

Ég vil taka mjög undir orð síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. Norðurl. e., þar sem hann sagði í raun og veru, að þessi orð, og sama er að segja um fleiri, hafi miklu minni merkingu en við margir viljum lita á, að þau eigi að hafa. Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvaða ríkisstofnunum telur hún, að hægt sé að velja stað úti um land, ef ekki er hægt að velja Tækniskóla Íslands stað á Akureyri? Á Akureyri eru öll skilyrði fyrir tækniskóla. Þar er mikill iðnaður, og ég hef rætt þetta mál við sérfróða menn. Þeir telja, að þar séu sérlega góð skilyrði til þess að mennta svokallaða „pródúksjóns“-tæknifræðinga eða framleiðslutæknifræðinga, sem okkur vantar ekki hvað sízt í okkar atvinnulíf, og á Akureyri séu öll skilyrði til þess að koma upp fullkomnum tækniskóla. Það hefur verið bent á og er bent á hér af hæstv. ráðh., að auðveldara væri að afla kennslukrafta í Reykjavík. Þetta svarar því ekki, hvort hægt sé að afla kennslukrafta til Tækniskóla Íslands á Akureyri. Við vitum öll, að það er auðveldara að koma upp ríkisstofnunum í Reykjavík, enda hefur reynslan orðið sú, að þar hafa þær risið. En hvort hægt er að koma upp slíkum stofnunum annars staðar; það er aftur allt önnur saga, og ég vil endurtaka spurningu mína til hæstv. ríkisstj.: Hvaða ríkisstofnunum telur hún, að sé hægt að velja stað úti á landi, ef ekki er hægt að velja Tækniskóla Íslands stað á Akureyri?