17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í D-deild Alþingistíðinda. (4913)

916. mál, Tækniskóli Íslands

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal lofa því að fjalla eingöngu um það efni, sem fsp. fjallar um. Ég vil með hliðsjón af því, að a.m.k. einn ef ekki tveir stjórnarliðar hafa nú lýst yfir andstöðu sinni við það frv., og þá stefnu, sem með því er mörkuð, sem fyrir Ed. liggur um Tækniskóla Íslands, lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við frv. og þau rök, sem hæstv. menntmrh. færði fyrir því hér áðan. Það ber vissulega að dreifa menntaskólum, hverrar tegundar sem þeir eru, um landið. Hins vegar er staðreynd, að Tækniskólinn var staðsettur hér, og það ber að efla þann skóla og gera hann þess megnugan að gegna hlutverki sínu, sem hann er að ýmsu leyti vanbúinn til í dag, áður en farið er að færa út kvíarnar í þessu efni. Ég vil þess vegna hlaupa í skarðið fyrir a.m.k. annan þeirra stjórnarliða, sem lýsti því yfir áðan, að hann væri andvígur frv., þannig að ríkisstj. þarf í þeim efnum ekkert að óttast um framgang málsins.