17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í D-deild Alþingistíðinda. (4914)

916. mál, Tækniskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að lengja þessar umr. úr hófi fram, en vil þó aðeins gera nokkrar aths. við það, sem komið hefur fram í ræðum hv. þm. Ég vil taka það mjög skýrt fram vegna þeirra ummæla, sem hér hafa fallið eða þess, sem mér hefur fundizt liggja í orðum sumra manna, að það er síður en svo af meinbægni við Akureyri eða Norðurland, að ég hef gefið þau svör við fram kominni fsp., sem hér voru greind áðan. Um það er að ræða, að þegar ákveðið var að stofna Tækniskóla Íslands, þá tókumst við á hendur mjög umfangsmikið og erfitt verkefni, og ég held, að allir, sem fylgzt hafa með störfum þeirrar stofnunar hér í Reykjavík, geri sér ljóst, að stundum hefur ekki gert betur en skólinn hreint og beint tórði vegna ýmissa byrjunarörðugleika. Ég fullyrði ekki, að allir þeir örðugleikar hafi verið óhjákvæmilegir, að enginn þeirra stafi af því, hvernig að málinu hefur verið staðið á einhverju stigi. En hitt er staðreynd, að skólinn hefur í rauninni barizt í bökkum og gerir enn. Og þó hljóta allir að viðurkenna, að hagstæðustu skilyrðin til að koma upp þessari margþættu stofnun, sem fyrirfinnast á landinu, eru hér í Reykjavík. Og það er enginn vafi, að erfiðleikarnir hefðu orðið enn meiri á Akureyri af ástæðum, sem a.m.k. annar hv. fyrirspyrjenda hefur skýrt frá, að hann gerir sér ljósar.

Það, sem fyrir liggur, er það, að ef ákveðið væri nú að söðla um og taka þennan hálfmótaða skóla héðan frá Reykjavík og flytja hann til Akureyrar, þá gæti orðið um verulega brotalöm á þessu skólastarfi að ræða. Hitt viðurkenna allir, að á einstökum sviðum a.m.k., og þar nefndi hv. 5. þm. Norðurl. e. einkum svokallaða „pródúksjóns“-tæknifræðinga, séu skilyrði á Akureyri fyrir hendi. Þess vegna tel ég það rétta stefnu að framkvæma það, sem heimilað er í núgildandi lögum og heimilað verður, ef fyrirliggjandi frv. verður að lögum, að vinna að stofnun sjálfstæðs tækniskóla á Akureyri, og það yrði næsta skrefið, úr því að undirbúningsdeild er komin á laggirnar, að vinna þar að raungreinadeild. Ég held, að allir séu sammála um, að það sé vel framkvæmanlegt verk, þegar fé fæst til.