17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í D-deild Alþingistíðinda. (4918)

919. mál, útflutningur á framleiðsluvörum gróðurhúsa

Fyrirspyrjandi (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég till. til þál. um rannsókn á möguleikum á útflutningi á framleiðsluvörum gróðurhúsa. Alþ. féllst á till. mína og samþykkti hinn 5. apríl s.l. svofellda ályktun:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka það rækilega, hvort möguleikar séu á útflutningi á framleiðsluvörum gróðurhúsa og þá sérstaklega blómum. Rannsókn þessari skal hraðað svo, að niðurstöður hennar geti legið fyrir næsta reglulegu Alþingi.“

Í framhaldi af þessari ályktun hef ég leyft mér að beina til hæstv. landbrh. fsp. á þskj. 313 í tveim tölul. Fsp. þessa ber ég fram vegna þess, að ekki er kunnugt, að rannsókn sú, sem ályktunin gerir ráð fyrir, sé nokkuð komin á veg, en að mínum dómi er málið stórt og brýn nauðsyn að taka það til meðferðar nú þegar. Og þess vegna spyr ég:

1. Hvað hefur ríkisstj. gert til þess að koma á rannsókn á möguleikum á útflutningi á framleiðsluvörum gróðurhúsa?

2. Er þess að vænta, að niðurstöður rannsóknar geti legið fyrir því Alþ., sem nú situr, eins og ályktunin gerir ráð fyrir?