17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í D-deild Alþingistíðinda. (4919)

919. mál, útflutningur á framleiðsluvörum gróðurhúsa

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 313 er fsp. frá hv. 6. þm. Sunnl. í sambandi við þál., sem afgreidd var frá Alþ. 5. apríl s.l. Ályktun Alþ. var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka það rækilega, hvort möguleikar séu á útflutningi á framleiðsluvörum gróðurhúsa og þá sérstaklega blómum. Rannsókn þessari skal hraðað svo, að niðurstöður hennar geti legið fyrir næsta reglulegu Alþingi.“

Svar landbrn. við þessari fsp. er svo hljóðandi: Landbrn. leitaði álits Sölufélags garðyrkjumanna um málið og síðan Sambands garðyrkjubænda. Samband garðyrkjubænda tók málið fyrir á stjórnarfundi þann 25. nóv. s.l., og segir svo m.a. í ályktun fundarins:

„Málið var tekið fyrir á stjórnarfundi sambandsins, sem haldinn var í Reykjavík þann 25. nóv. s.l., og var stjórnin sammála um, að umrædd rannsókn þyrfti á fyrsta stigi að beinast að könnun og gagnasöfnun frá þeim löndum, þar sem markaðshorfur fyrir útflutningsafurðir væru taldar líklegar. Enn fremur telur stjórnin, að gera þurfi samanburðarathuganir á stöðu hér og í þeim löndum, þar sem útflutningsframleiðslan á sér stað. Niðurstöður þessara rannsókna ættu að leiða í ljós hugsanlega getu íslenzkrar ylræktar á sviði útflutnings.“

Síðan lagði sambandið til, að skipuð yrði nefnd til að vinna að málinu. Eftir að rn. hafði borizt þessi ályktun Sambands garðyrkjubænda, skipaði það hinn 6. jan. s.l. fjóra menn í nefnd til þess að vinna að málinu. Í nefndina voru skipaðir Þorvaldur Þorsteinsson forstjóri Sölufélags garðyrkjumanna, Óli Valur Hansson garðyrkjuráðunautur Búnaðarfélags Íslands, Sveinn Indriðason stórkaupmaður, Reykjavík og Axel Magnússon ráðunautur, Hveragerði. Nefndin vinnur nú að könnun málsins, en þar sem hér er um umfangsmikið mál að ræða, sem þarfnast gaumgæfilegrar athugunar, er óvíst, að niðurstöður nefndarinnar liggi fyrir það tímanlega, að unnt verði að leggja niðurstöður nefndarinnar fyrir Alþ. það, sem nú situr. En ef mögulegt reynist, þá verður það gert.