29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í D-deild Alþingistíðinda. (4925)

164. mál, nefndaskipanir og ráðning nýrra starfsmanna

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj., hversu starfsliði stjórnarráðsins hafi fjölgað mikið síðan hún tók til starfa og hversu margar nefndir hún hefur skipað á þessu tímabili. Ég skal í örfáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna ég hef borið þessa fsp. fram.

Það hefur vakið mjög mikla athygli meðal þjóðarinnar, að hæstv. núv. ríkisstj., sem áður fyrr, meðan stuðningsflokkar hennar voru í stjórnarandstöðu, hvatti mjög til sparnaðar í opinberum rekstri, virðist hafa fjölgað starfsliði sínu í upphafi meira en nokkur önnur stjórn, sem ég minnist. Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt ný lög um stjórnarráðið, sem heimiluðu ráðherrum að ráða sér aðstoðarmenn, sem skyldu vera persónulegir ráðgjafar þeirra og fylgja þeim úr embætti, þegar ráðherrar létu af embætti. Enginn ráðh. í fyrrv. ríkisstj. notaði sér þessa lagaheimild. En núv. ráðh., þrír a.m.k., notuðu sér slíka heimild þegar. Það er m.a.s. sagt um einn hæstv. ráðh., að hann hafi ætlað að ráða sér tvo ráðherraritara, einn í hvort af sínum tveim rn., en hafi þá verið bent á, að lögin gerðu aðeins ráð fyrir einum persónulegum ráðunaut eða ráðherraritara til hvers ráðh. En auk þessa munu ráðh. hafa ráðið sér ýmsa lausráðna aðstoðarmenn, sem gegna störfum, sem í raun og veru jafngilda ráðherraritarastörfum. Þá starfa og svo margar nefndir á vegum hæstv. ríkisstj., að það er fróðlegt fyrir hið háa Alþingi og þjóðina að fá um það vitneskju.

Ég skal taka fram, að ég hefði í sjálfu sér ekkert við þessar auknu mannaráðningar eða auknu starfsmannafjölgun að athuga, jafnvel ekki heldur við allar nefndaskipanir að athuga, ef störf hæstv. ríkisstj. hefðu gengið sérstaklega hratt og vel á því misseri, sem hún hefur setið að störfum. En öllum hv. þingheimi er kunnugt um, að svo hefur ekki verið. Fjárlagaafgreiðsla hefur aldrei, a.m.k. í seinni tíma sögu þingsins, gengið jafnseint og illa og í þetta skipti, og rek ég þá sögu ekki frekar. Frv. um Framkvæmdastofnun, sem er eitt helzta frv., sem afgreitt hefur verið á Alþ., var mjög lengi á döfinni, gekk seint að afgreiða það og var að síðustu afgreitt í miklum flýti. Það hafði ekki verið vel og rækilega undirbúið. Og í þriðja lagi skattafrv. tvö, sem sýnd voru í des. s.l. Enn vita fjhn. þingsins ekki, hverjar eru endanlegar till. ríkisstj. í þessu máli. M.ö.o.: þessi frv. hafa verið svo vanundirbúin þrátt fyrir allan starfsmannafjöldann, að það tekur ríkisstj. marga mánuði að átta sig á því, hver er hin endanlega stefna, eftir að frv. hafa verið lögð fram. Þetta sýnist mér vera ærin ástæða til þess að fá yfirlit um það, hversu marga aðstoðarmenn hæstv. ríkisstj. hefur og hvernig í ósköpunum á því stendur, að afköst hennar eru ekki meiri en raun ber vitni um.