29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í D-deild Alþingistíðinda. (4929)

164. mál, nefndaskipanir og ráðning nýrra starfsmanna

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hér hefur verið á dagskrá athyglisverð fsp. og áhugaverðar upplýsingar gefnar um nefndaskipanir og starfsmannaráðningar. Eins og sjá má af þeim tíma, sem fór í það af hálfu hæstv. forsrh. að svara fsp., sem ég hygg hafa verið nálægt þrem stundarfjórðungum, má segja, að hæstv. núv. ríkisstj. hafi verið allathafnasöm á þessu sviði á rúmlega sjö mánaða valdaferli sínum. Ég skal þó ekki út af fyrir sig gagnrýna það á þessu stigi málsins. Það getur verið eðlilegt, að ný ríkisstj. þurfi fremur en þær, sem eidri eru í hettunni, að skipa nýjar nefndir til þess að skoða mál að nýju. En ég tel þó æskilegt, af því að hér var um mjög langan lestur að ræða og þar að auki heyrðist ekki vel til hæstv. ráðh., að hæstv. ráðh. léti þm. þetta svar í té skriflega, og ég beini því til hæstv. forsrh. enn fremur, að hann stuðli að því af hálfu ríkisstj., að slík skýrsla sé gefin misserislega hér í þinginu eða alla vega árlega.

Ég minnist þess, að ekki fyrir alllöngu síðan, á tímabili fyrrv. ríkisstj., þá gerði stjórnarandstaðan nokkra hríð að henni fyrir nefndaskipanir og nefndafjölda. Með þessu áframhaldi hygg ég, að fyrrv. ríkisstj. komist ekki í hálfkvisti við þá núverandi.