29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í D-deild Alþingistíðinda. (4930)

164. mál, nefndaskipanir og ráðning nýrra starfsmanna

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Viðvíkjandi þeirri fsp., sem hér var borin fram varðandi störf bremsunefndar, þá er það svo, að lögum samkv. á hún að samþykkja nýjar starfsmannaráðningar. Ég hygg og ég vona, að það hafi ekki verið farið fram hjá henni í þessum efnum.

Um hitt atriðið, sem hann minntist á, um lausráðningar á starfsmönnum, þá er það sjálfsagt rétt, að það á sér stað einhver misnotkun, verð ég að segja, í því sambandi, og kannske hefur það verið stundum af því, að það hefur ekki gengið eins greiðlega í gegnum bremsunefnd og sumir vildu vera láta, að gripið hefur verið til þess. Það er að mínu viti óvenja, sem þarf að hverfa frá og breyta og taka upp bætt vinnubrögð að því leyti til. Þessi bremsunefnd mun áfram starfa.

Viðvíkjandi annarri fsp., sem kom hér fram, eða ábendingu um það, að rétt væri að gefa þm. kost á að fá þessa skýrslu skriflega, þá er sjálfsagt að taka það til athugunar.

Hvort sem ég var nú lengur eða skemur að lesa þetta svar, þá liggur nú staðreyndin fyrir um það í þessum plöggum, hversu margir hafi verið skipaðir í nefndir í tíð núverandi ríkisstj., og það hygg ég að megi þó segja þessari ríkisstj. til lofs, að hún hefur alveg reiður á þessu, hverjar nefndir hún hefur skipað. En það gekk stundum treglega að fá hjá fyrr. ríkisstj. upplýsingar um það, hverjar nefndir væru starfandi á hennar snærum.

Eins og þarna kom fram, hafa ýmsar nefndir verið lagðar niður og auk þess, eins og líka kom fram, þá eru margar af þessum nefndum, sem þarna voru taldar upp og skipaðar hafa verið í tíð stjórnarinnar, þegar hættar störfum af þeirri einföldu ástæðu, að þær eru búnar að skila verkefni sínu af sér. (Gripið fram í.) Fer nú samkv. ákvörðun Alþ. náttúrlega. Þetta vildi ég nú aðeins taka fram. En það má vel vera, að það sé til athugunar að gefa ársfjórðungslega skýrslu um þetta. Ég hygg, að skýrsla hafi verið gefin út á s.l. ári um það, hverjar nefndir væru til, og ég vænti þess a.m.k., að þessu verði haldið áfram, það verði gefnar út árlega slíkar skýrslur, hvort sem ástæða þykir til að gefa þær ársfjórðungslega eða ekki.