29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í D-deild Alþingistíðinda. (4934)

173. mál, virkjun Jökulsár á Fjöllum

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. „Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör, að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör.“

Þannig kvað Einar Benediktsson við Dettifoss á fyrsta tug þessarar aldar. Þá og lengi síðan álitu glöggir menn án rannsóknar, að Jökulsá á Fjöllum væri líklegust til stórvirkjunar af öllum fallvötnum hér á landi, þegar þar að kæmi. Vatnasvæði þessarar jökulelfu er stærra en nokkurrar annarrar hér á landi og vatnsmagnið mikið. Norðan í hálendisbrúninni eru fimm fossar og fallhæðin samtals um 300 metrar.

Vatnsmælingar í Jökulsá hófust þegar á öðrum tug aldarinnar eða fyrr. En á áratugnum 1950–1960 var fyrir atbeina þáv. raforkumálaráðh. framkvæmd byrjunarrannsókn á virkjunarskilyrðum við Jökulsá, einkum jarðfræðileg rannsókn. Árið 1961 var að frumkvæði þm. úr Norðurl. e. samþykkt á Alþ. þáltill. þess efnis, að gera skyldi fullnaðaráætlun um virkjun Jökulsár á Fjöllum með það fyrir augum m.a., að framleidd yrði orka til iðnaðar. Eftir það var rannsókn haldið áfram á virkjunarsvæðinu og verkfræðifirmanu Harza Company International í New York síðan falið að gera áætlun um virkjunarframkvæmdir. Skýrsla Harza um virkjunarframkvæmdir lá fyrir í ársbyrjun 1963, ef ég man rétt, svo og útdráttur úr áætluninni. Gert var ráð fyrir tveimur virkjunum í Jökulsá við efri fossana og við neðri fossana, og ræði ég hér aðeins þá, sem kennd er við Dettifoss. Um hana sagði Harza í skýrslu sinni, að hún væri hagkvæmust virkjun á Norðurlandi og virkjunarskilyrði álitleg, m.a. í sambandi við orkufrekan iðnað. Talið var hagkvæmt að virkja saman þrjá hæstu fossana, þ. á m. Dettifoss, 100 þús. kw. með þrem vatnsvélum eða 130 þús. kw. með fjórum vatnsvélum. Reiknað var út orkuverð pr. orkueiningu við stöðvarvegg og vestur í Eyjafjörð og þeir útreikningar notaðir til samanburðar við Búrfellsvirkjun í Þjórsá og orkuflutning þaðan til Reykjavíkur. Kom þá eins og kunnugt er til greina að framkvæma Dettifossvirkjun og reisa álverksmiðju á Norðurlandi. Sumarið 1962 boðuðu 20 alþm. af Norður- og Austurlandi til fundar á Akureyri um Dettifossvirkjun, þar sem mikill áhugi fyrir málinu var þá kominn fram norðanlands og austan.

Í seinni tíð hefur það komið fram hjá hlutaðeigandi yfirvöldum raforkumála, að áætlun sú, sem gerð var um Dettifossvirkjun fyrir 9–10 árum, hafi ekki verið fullnaðaráætlun. Hins vegar hefur það komið fram opinberlega hjá fróðum mönnum á þessu ári, sem ekki kemur á óvart, að virkjunarskilyrði við Dettifoss séu mjög hagkvæm. Ég hef m.a. heyrt, að þau séu talin hagkvæmari en víð Sigöldu. Ég þykist verða þess greinilega var, að Dettifossvirkjun sé nú aftur komin á dagskrá, og mér sýnist hún líkleg frambúðarlausn vandamála, sem að öðrum kosti verða torleyst. Því hef ég leyft mér að spyrja:

Hefur ríkisstj. ákveðið að láta gera fullnaðaráætlun um virkjun Jökulsár á Fjöllum við Dettifoss, og sé svo, hvenær er þá líklegt, að þeirri fullnaðaráætlun verði lokið?