29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í D-deild Alþingistíðinda. (4937)

173. mál, virkjun Jökulsár á Fjöllum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fagna því, að þetta mál hefur komið hér til umr., þótt takmarkaður tími sé til að ræða það hér. Þetta er mikið stórmál fyrir Norðlendinga og raunar fyrir þjóðina í heild. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin við þeirri fsp., sem hér hefur komið fram, og undirstrika það, að í ræðu hans kom skýrt fram, að það er í rauninni engin stefnubreyting frá hálfu núv. ríkisstj. varðandi rannsóknir á Jökulsá á Fjöllum frá því, sem var frá hálfu fyrrv. ríkisstj. Þetta kom fram í ræðu hans, því að hann gerði grein fyrir því, hvaða rannsóknir hefðu farið þarna fram. Nú á síðustu árum hafa komið fram víssir örðugleikar á þessum rannsóknum vegna jarðhræringa, sem hann gat sérstaklega um, og því hafa þessar rannsóknir kannske dregizt meira en menn hefðu viljað vona.

Ég vil til staðfestingar því, að fyrrv. ríkisstj. hafi verið alvara í þessum efnum, benda á skýrslur, sem hafa komið fram um þetta mál. Sérstaklega vil ég benda á skýrslu Orkustofnunar frá ágúst 1969 um forrannsóknir á vatnsorku Íslands, en þar er gerð áætlun um rannsóknir á Jökulsá á Fjöllum, sem átti að vera lokið 1974. Þess vegna er ekki hér um að ræða neina breytta stefnu í rannsókn á Jökulsá á Fjöllum. Það vil ég leggja mjög ríka áherzlu á. En það er annað atriði, sem hefur jafnan verið örðugt í sambandi við það að gera sér grein fyrir því, hvort hægt væri að virkja Jökulsá á Fjöllum og nýta þær góðu aðstæður, sem þar eru fyrir hendi, og það er einfaldlega orkumarkaðurinn. Hér er um að ræða virkjun, sem er stór, 160 mw., jafnvel stærri en Sigölduvirkjun. Það er yfirlýst stefna ríkisstj. að virkja næst í Sigöldu, sem þýðir það, að hún mun geta framleitt þá orku, sem við þurfum á næstu árum, ef ekki kemur til sérstakur orkufrekur stóriðnaður. Þessi virkjun, Sigölduvirkjun, mun geta framleitt þá orku, sem við Íslendingar þurfum á að halda, ja, sennilega nokkuð langt fram á næsta áratug. Og þá er spurningin: Hvernig á að koma þessu heim og saman við það, að stefnt sé að virkjun Jökulsár á Fjöllum öðruvísi en að um orkufrekan stóriðnað sé að ræða, annaðhvort á Norðurlandi eða einhvers staðar annars staðar og orkan þá flutt þangað?

Mér er engin launung á því, að ég hef litið svo á, að það væri hagkvæmast fyrir þjóðarheildina og alla aðila að stefna að því, að orkufrekur stóriðnaður risi á Norðurlandi og þá yrðu orkuveitusvæði landsins tengd saman og Dettifoss virkjaður. Ég held, að þetta væri langhagkvæmasta tilhögun fyrir alla aðila. Ég fer ekki að ræða hér um stóriðjumálin í heild. Þau eru allt of viðamikil, en ég held, að þetta sé eini raunhæfi möguleikinn á því, að Dettifoss verði virkjaður á næstunni, og því leyfi ég mér að spyrja ráðh.: Er unnið skipulega að því að koma á fót orkufrekum iðnaði á Norðurlandi? Mér er persónulega kunnugt um, að það hefur verið kannað á einu ákveðnu sviði, og það er ekki það, sem ég á við, heldur: Er skipulega unnið að því á öllum sviðum að finna einhvern iðnað, sem gæti risið á Norðurlandi og notaði verulega orku?