29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í D-deild Alþingistíðinda. (4940)

173. mál, virkjun Jökulsár á Fjöllum

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hv. þm. Bragi Sigurjónsson spurði að því, hvort mér hefði ekki dottið í hug að hverfa frá Sigölduvirkjun í bili, en taka Dettifossvirkjun á undan. Það hefur mér nú ekki dottið í hug einmitt af þeim ástæðum, sem ég var að ræða um áðan, að það er eftir að rannsaka virkjunaraðstæður við Dettifoss og talið er af sérfræðingum, að þær rannsóknir muni taka a.m.k. tvö ár. Það liggur í hlutarins eðli, að það er mjög tímafrekt að rannsaka fyrirbæri eins og hreyfingar á jarðskorpunni. Þar er um að ræða samanburðarmælingar á löngu tímabili, og ég hygg, að það sé alveg raunsætt að gera ekki ráð fyrir því, að þessum rannsóknum verði lokið á skemmri tíma en tveimur árum. Hins vegar verðum við að ráðast í stórvirkjun fyrr.

Ég vil minna á það, að ákvörðunin um Sigölduvirkjun var tekin í raun og veru á síðasta þingi. Þá bar hæstv. fyrr. ríkisstj. fram frv. um heimild Alþ. til þess að ráðast í virkjanir á Tungnaá við Sigöldu og Hrauneyjafoss. Og þessi heimild var samþ. einróma hér á þingi, einnig af hv. þm. Braga Sigurjónssyni. Það var enginn ágreiningur um það hér á þinginu, að það ætti að ráðast í aðra hvora þessa stórvirkjun næst. Það lá í hlutarins eðli, þegar beðið var um þessa heimild. Það víssu það allir, að þá var Alþ. raunar að ákveða, að ráðizt skyldi þarna í virkjun, og ástæðan fyrir því, að þessi röð varð fyrir valinu, var auðvitað sú, að rannsóknir voru mun lengra á veg komnar og þeim raunar að mestu lokið í Tungnaá, en ekki við Dettifoss.

Hv. þm. minntist á það, að ákveðið hefði verið að ráðast í Sigölduvirkjun án þess að hafa öruggan markað nema húshitunarmarkað. En nú er það svo, að þessi húshitunarmarkaður er ekki neitt smáræði. Samkv. niðurstöðum sérfræðinga Landsvirkjunar var reiknað með því, að húshitunarmarkaðurinn á Landsvirkjunarsvæðinu einu, eins og það er núna, gæti orðið 320 gwst. á ári í byrjun næsta áratugs, en það er um það bil þriðjungur af orkunni frá Sigölduvirkjun. Hins vegar er það rétt hjá hv. þm., að þessi markaður er miklu meiri fyrir norðan, og t.d. á Akureyri eru um 60% húsa hituð upp með raforku. Og þetta er ástæðan fyrir því, að ríkisstj. telur það mjög tímabært, að ráðizt verði alveg á næstunni í samtengingu orkuveitusvæða. Þá mundi markaðurinn fyrir norðan nýtast hinni miklu virkjun við Sigöldu, og víð þurfum á því að halda, þegar við ráðumst í stórvirkjun af þessu tagi, að sameina krafta okkar og raða stórframkvæmdum, og einmitt þess vegna held ég, að það sé ekki raunsætt að ímynda sér, að við getum á sama tíma bæði ráðizt í Sigölduvirkjun og einnig aðra mjög stóra virkjun á Norðurlandi. Ég held, að aðstæður séu ekki til þess. Við höfum hvorki fjármagn né getu til þess að ráðast í slíka hluti nema það verði þá mjög ör þróun að því er varðar orkufrekan iðnað. Verði hún, þá getur orðið miklu meiri hraði á þessum framkvæmdum.