14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í D-deild Alþingistíðinda. (4951)

116. mál, lóðaskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Fsp. sú, sem hér um ræðir, til hæstv. félmrh. er frá Axel Jónssyni, 1. varaþm. Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi, en hann sat hér á þinginu í haust. Hún er um það, hvenær vænta megi reglugerðar um lóðaskrár. Það virðist vera allmikill misbrestur á skráningu landa og lóða í mörgum þéttbýlisstöðum á landinu. Þetta er vafallítið mismunandi frá einu sveitarfélaginu til annars, en aðeins í tveim sveitarfélögum á landinu eru lagaákvæði um þetta efni, þ.e. lög nr. 35 frá 2. nóv. 1914 varðandi Reykjavík og lög nr. 16 frá 9. febr. 1951 varðandi Akureyri.

Þegar verið var að vinna að fasteignamatinu nýja, sem tók gildi um s.l. áramót, olli ósamræmi í stærð og gerð lóða við það, sem þinglýst var, víða verulegum vanda fyrir þá, sem að því unnu. Þetta olli svo miklum erfiðleikum, að mörg sveitarfélög hafa nú byrjað undirbúningsvinnu að því að færa skráningu til betri vegar á þeim grundvelli, sem fékkst við fasteignamatið. Nauðsynlegt er að samræma þau vinnubrögð og eðlilegast, að sveitarstjórnum á skipulagsskyldum stöðum verði gert að gera lóðaskrár, en fyrst þarf að gera rammareglugerð, sem kveði skýrt á um framkvæmdina. Í skipulagslögum nr. 19 frá 21. maí 1964 segir svo í 31. gr.:

„Óheimilt er á skipulagsbundnum stöðum að skipta löndum og lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórna komi til.“ Og í 32. gr. segir svo: „Rn. getur ákveðið, að sveitarstjórn á skipulagsskyldum stað láti á kostnað sveitarsjóðs gera lóðaskrár, þar sem tilgreind skulu öll lönd og lóðir innan sveitarfélagsins eða tiltekins hluta þess. Í reglugerð skal kveða nánar á um gerð lóðaskrár.“

Og nú er spurt: „Hvenær má vænta rammareglugerðar fyrir landið allt?“