14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í D-deild Alþingistíðinda. (4957)

193. mál, staðsetning vegagerðartækja

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka samgrh. svörin við þessum fsp. Það er litlu við það að bæta, en þó vil ég undirstrika eitt atriði, sem ég held, að sé nauðsyn, að hv. alþm. geri sér grein fyrir, og það er einmitt í sambandi við vegakerfi okkar í landinu. Mín skoðun er sú, að við verðum að búa við það þjóðvegakerfi, sem við nú höfum, í alllangan tíma fram í framtíðina, þrátt fyrir viðleitni til að gera hér hraðbrautir og endurbyggja vegakerfið. Þess vegna lít ég svo á, að það sé brýn nauðsyn, að viðhald þjóðveganna verði aukið frá því, sem verið hefur til þessa. Það, sem vekur athygli mína í sambandi við skoðun á þessu máli, er einmitt það, sem ég tel ábótavant í sambandi við vegamál okkar í heild, þ.e. kaup á stórvirkum vegagerðartækjum. Ég kynnti mér þetta lítillega hjá Vegagerð ríkisins. Þannig er ástatt í þessum málum, að það er aðeins um tvær stórvirkar vegagerðarvélar að ræða hér í sambandi við mölun á ofaníburði eða blöndun á ofaníburði. Þessar stórvirku vélar eða samstæður eru staðsettar hér einmitt á suðvesturhorninu. Og ég vil bæta því við, að einmitt þessar vélar eða staðsetning þeirra hér á suðvesturhorninu hefur gert mögulega varanlega gatnagerð hér á þessu svæði í sambandi við t.d. olíumölina. Ég mundi telja það vera spor í framfaraátt, ef Vegagerðinni væri heimilað að kaupa þó ekki væri nema tvær slíkar vélasamstæður til að staðsetja á þeim landshlutum, þar sem engar slíkar vélar eru nú til. Þessar vélasamstæður munu kosta um 14–15 millj. kr. hver, og það er örugglega fjárfesting, sem borgar sig í vegagerð, því að með tilkomu þeirra batna vegirnir svo mikið, að það er bein framkvæmd að vissu marki til varanlegrar vegagerðar. Og ég beini því einmitt í tilefni af þessari fsp. til hæstv. samgrh., að það verði athugað að fara að óskum Vegagerðarinnar í sambandi við þetta mál og þessi tæki verði keypt. Það er ekki sparnaður að gera þetta ekki að veruleika.

Ég ætla svo ekki að fara út í frekari umr. um þessi mál hjá okkur, en ég undirstrika, að ég fagna því, að veghefill verður staðsettur á þessu svæði, og ég vænti þess, að það liði ekki langur tími, þangað til slík stórvirk vélasamstæða, sem ég minntist hér á, verði einmitt til staðar á Vesturlandi til að bæta úr brýnni þörf.