14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í D-deild Alþingistíðinda. (4962)

922. mál, endurskoðun hafnalaga

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka samgrh. þetta svar, sem er mjög ánægjulegt, og ég veit, að allir, sem fást við þessi mál í landinu, munu fagna því, að þessi endurskoðun er nú orðin að veruleika og ný hafnalög sjá dagsins ljós.

Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, segja frá því hér, að á aðalfundi hafnasambandsins s.l. haust lagði fundurinn áherzlu á eftirfarandi, sem ég óska eftir, að hv. þm., sem fjalla um hið nýja lagafrv., hafi í huga, þegar þetta mál kemur fyrir þingið.

Það er fyrst, að greiðsluhlutfall ríkissjóðs til hafnarmannvirkja verði almennt ekki lægra en 75% af byggingarkostnaði. Nánar verði skilgreint en nú er, hvaða mannvirki séu styrkhæf, og leiðrétt verði ákvæði núverandi 7. gr. hafnalaga um styrkhafakostnað. Og í þriðja lagi, að lögin verði betur en nú er sniðin til þess að taka til allra hafna landsins, einnig landshafna, og kannað verði sérstaklega, hvort unnt sé að breyta stöðu landshafna með því, að þær verði afhentar viðkomandi byggðarlögum til rekstrar með viðunandi kjörum, þar sem ekki getur talizt eðlilegt, að ríkið sé með hafnir í byggingu og rekstri í samkeppni við aðrar hafnir sveitarfélaga. Starfssvið Hafnamálastofnunar ríkisins verði skilgreint nánar í lögunum en nú er. Lögð verði megináherzla á hæfni stofnunarinnar til að gera öruggar undirbúningsathuganir og áætlanir og verði því kannað, hvort ekki sé rétt að skipta stofnuninni í áætlanadeild og hagdeild, en framkvæmdaþáttur stofnunarinnar miðist fyrst og fremst við að tryggja, að í landinu séu til sérhæfð tæki til hafnargerðar, sem leigð verði hafnarsjóðum eða verktökum. Sambandið leggur til, að stofnuninni verði sett stjórn, skipuð fulltrúum ríkis og sveitarfélaga. Hafnabótasjóður verði efldur, svo að hann verði fær um að gegna hlutverki sínu.

Herra forseti. Ég hef lokið athugasemdum mínum, en ég vænti þess, að þetta mál fái öruggan framgang hér á Alþingi.