14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í D-deild Alþingistíðinda. (4966)

923. mál, frumvörp um skólakerfi og grunnskóla

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar við fsp. hv. 7. þm. Reykv. á þskj. 369 er svo hljóðandi:

Frv. um grunnskóla og um skólakerfi komu fram eftir að liða tók á síðasta Alþ., en urðu ekki útrædd. Þegar tekin var afstaða til þess af hálfu núv. ríkisstj., hver af þeim stjfrv., sem ekki hlutu afgreiðslu á því þingi og fyrri ríkisstj. hafði borið fram, skyldu endurflutt á þessu þingi, varð það úr, að þessi tvö frv. um skólamál yrðu ekki höfð í þeim hópi. Frv. eru svo tengd, að einsætt má telja, að þau þurfi að fylgjast að í meðförum Alþ. Af þeim er það grunnskólafrv., sem eðlilegt er, að ráði ferðinni, svo að eftir að ákveðið var að endurflytja það ekki að svo stöddu, þótti einsætt að láta frv. um skólakerfi bíða líka. Ljóst var af umr. á hv. Alþ. og undirtektum meðal almennings, að grunnskólafrv. vakti mikla athygli og þykir hið merkasta mál, en jafnframt kom glöggt í ljós, að þótt ýmis atriði í því þættu mikil framfaraspor í skólamálum, ef framkvæmd yrðu, voru skoðanir einnig mjög skiptar um tiltekin ákvæði.

Skömmu eftir að frv. kom fram tóku að berast frá ýmsum aðilum athugasemdir við það og álitsgerðir. Hélt svo áfram í allt sumar og fram á vetur, allt fram á síðustu mánuði. Því var sú ákvörðun tekin að hraða ekki málinu, en leitast við að hafa þann undirbúning að endurupptöku þess, að sem bezt mætti tryggja, að tekið yrði eðlilegt tillit til mismunandi sjónarmiða og aðstæðna, sem meta verður vandlega, þegar fitjað er upp á nýjum grundvelli að skyldunámskerfi um land allt.

Óvænlegt þótti, að tími ynnist til að vinna þetta verk sem skyldi, ef taka ætti málið upp það snemma á þessu þingi, að líkur væru á afgreiðslu þess, því að víst má telja, að eindreginn þingvilji sé fyrir að rasa ekki að neinu í þessu efni, heldur athuga vandlega frv. um svo afdrifaríkt mál.

Af þessum ástæðum varð niðurstaðan sú, að grunnskólafrv. yrði tekið til rækilegrar athugunar, þegar fyrir lægju yfirveguð sjónarmið þeirra aðila, sem telja má, að mest hafi til málsins að leggja.

Nú er að því komið, að skipaðir verða alveg á næstunni menn til að athuga frv. á ný í ljósi þeirra undirtekta, sem þar hefur hlotið, bæði hér á hv. Alþ. og meðal almennings. Verður þessum mönnum falið að haga svo störfum sínum, að hið endurskoðaða frv. komi fyrir hv. Alþ. þegar í þingbyrjun í haust. Það er eindregið álit þeirra, sem að þessu máli standa, að svo verði affarasælast á því haldið.