15.12.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

1. mál, fjárlög 1972

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þáltill. verða ekki framkvæmdar nema Alþ. veiti fé til framkvæmda þeirra, og það verður ekki gert nema á fjárlögum.

Það mál. sem hér um ræðir, er ekki nýtilkomið, þótt það sé nýtt í þingsölum. Það hefur verið flutt af rithöfundasamtökunum og rætt allmikið og er án efa einfalt í framkvæmd. Ég tel því, að það sé athyglisvert, að þrír háttv. þm. skuli flytja þáltill. um svo merkilegt mál, en þegar þeim gefst tækifæri til að tryggja framkvæmd tillögunnar nokkrum dögum seinna, standa þeir upp hver á fætur öðrum og telja, að það sé ekki tímabært að framkvæma þetta ágæta og góða mál. Þetta er sérstætt.

Mér er mikil ánægja að leika hlutverk fyrir rithöfunda eða aðra, ef ég er maður til þess. Það kann að vera, að ég hafi gert mig sekan um ritstuld, það skal ég játa, en ég vil færa það fram mér til málsbóta, að þessi ritstuldur er í því falinn, að rithöfundarnir fái launin, en ekki ég. Ég tel því skýringar þessara þriggja flm. vera harla léttvægar og vona, að þeir skoði hug sinn og sleppi ekki næsta tækifæri til að gera þetta mál að veruleika. Ég segi já.