21.03.1972
Sameinað þing: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í D-deild Alþingistíðinda. (4972)

925. mál, orlofsmerki

Fyrirspyrjandi (Bjarnfríður Leósdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin, og það sannar mér, eins og ég hafði grun um, að öll framkvæmd á þessum orlofsmerkjum hefur verið til vandræða og að launþegar hafa ekki fengið út úr þessu það, sem þeim hefur borið, af ýmsum ástæðum, eins og hann tók til. Ég hef lagt hér fram þáltill. um handbók fyrir launþega. Ég tel, að þetta einmitt sanni okkur það líka, hversu mikil og brýn nauðsyn það er, að fólk viti og kunni að nota sér þann rétt, sem það á í þjóðfélaginu.