22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í D-deild Alþingistíðinda. (4977)

920. mál, ráðstöfun minningarsjóðs

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svar hans. Eins og ég bjóst nú reyndar við, kemur það í ljós, að hér er í raun og veru um fremur lága upphæð að ræða nú orðið, þar sem minningarsjóður þessi er, en ef höfuðstóll sjóðsins, 100 þús. kr., hefði hækkað t.d. í hlutfalli við kaupgjald í landinu á þeim 60 árum nálega, sem liðin eru, þá hefði hann að sjálfsögðu átt að nema nú tugum millj. Þetta er eitt dæmi enn um það, hvernig verðbólgan fer með verðmæti af þessu tagi. Hæstv. ráðh. sagði, að erfiðleikar væru á því að nota fé sjóðsins vegna ákvæðis í skipulagsskránni, og er það að sjálfsögðu svo. En hann vakti athygli á því, að það heyrði undir dómsmrn. að breyta skipulagsskrá, ef um það væri að ræða eða gangast fyrir breytingum á henni. Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að umr. um þessa fsp. verði frestað, þangað til hæstv. dómsmrh. er hér viðstaddur og getur rætt málið fyrir sitt leyti.