11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í D-deild Alþingistíðinda. (4989)

921. mál, efling landhelgisgæslu

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans við fsp. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði varðandi svör hans, en mig langar til að bæta við aðeins örfáum orðum. En ég skal lofa forseta því, að ég skal ekki fara fram yfir 5 mínútna takmörkunina.

Það hefur lengi verið um það talað, að auka þyrfti landhelgisgæzlu úti fyrir Vestfjörðum á hávertíðinni, og ekki eingöngu það, heldur þyrfti að standa þannig að málum, að aðstoð við bátaflotann gæti þar einnig komið til greina. Ég vil í þessu sambandi benda á, að ég tel það brýna nauðsyn, að Landhelgisgæzlan hafi staðsetta á Vestfjörðum þyrilvængju í þessu tilefni. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mergð togara er að veiðum úti fyrir Vestfjörðum á vertíðinni og þeir hafa sýnt æ meiri aðgangshörku varðandi bátaflotann á undanförnum árum, og ég efast ekki um það, að með útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 50 sjómílur, þá muni þeir enn hvessa klærnar að þessu leyti. Einnig má benda á það, að þyrilvængja, sem staðsett væri á Vestfjörðum til landhelgisgæzlu og til aðstoðar við bátaflotann, gæti einnig komið að notum vegna hins mikla vandamáls, sem í þeim landsfjórðungi er nú komið upp, þ.e. læknaskorturinn. Öll þessi þrjú atriði tel ég að mætti leysa með því, að Landhelgisgæzlan hefði staðsetta t.d. á Ísafirði þyrilvængju til þess að sinna öllum þessum þrem flokkum þessa verkefnis. (Gripið fram í.) Já, því ekki það? Ég vænti þess, að þessi hv. þm. styðji það, ef fram kemur, að hún verði staðsett þar.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þessi mál, en ég tel, að þessa þrjá þætti þessa máls sé hægt að leysa á þennan hátt, landhelgisgæzluna, aðstoð við bátaflotann og einnig þennan þátt í sambandi við heilsugæzlumálin, og ég vil því beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. dómsmrh. og reyndar ríkisstj. í heild, að hún íhugi þessi mál allverulega. Ég er viss um það, að í þessum þremur málaflokkum má bæta stórkostlega úr, ef Landhelgisgæzlan og heilsugæzluyfirvöld taka höndum saman, og ég vænti þess, að þau beri gæfu til þess að taka þannig á þessu máli, að það verði leitt til farsælla lykta.