11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í D-deild Alþingistíðinda. (4999)

924. mál, tekjustofnar sýslufélaga

Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 398 hef ég leyft mér að flytja fsp. þess efnis, hvað liði framkvæmd þál. frá 5. maí 1965 um endurskoðun á gildandi reglum um tekjustofna sýslufélaga. Þáltill. var flutt af alþm. Jóni Árnasyni, Ásgeiri Bjarnasyni, Sigurði Ágústssyni og Halldóri E. Sigurðssyni. Hún var samþykkt óbreytt.

Svo sem kunnugt er, hafa sýslufélögin sinnt margvíslegum verkefnum frá fornu fari. Meginákvæði um það efni er að finna í IV. kafla sveitarstjórnarlaga frá 1961. Þar er hlutverk sýslufélaga talið m.a. að annast eftirlit með öllum fjárreiðum allra hreppa innan sýslufélagsins, endurskoðun og úrskurð um ársreikninga þeirra svo og allra fyrirtækja, sem rekin eru á vegum hreppanna, umsjón með því, að hreppsnefndir starfi yfirleitt í sveitarstjórnarmálum samkv. gildandi lögum og reglugerðum, setningu reglugerða um notkun afrétta, fjallskil, fjárheimtur, smalanir heimalanda o.fl., umsjón og stjórn vegamála samkv. vegalögum og samþykktum um sýsluvegasjóði, afskipti af forðagæzlu, hundahaldi og eyðingu vargdýra, setningu byggingarsamþykkta fyrir sýsluna, álitsgerðir um ýmis mál. er varða hreppa og héruð svo og stjórn allra sveitarstjórnarmála, sem varða sýsluna í heild, og tillögur um hvaðeina, sem verða má sýslunni til gagns, og önnur þau störf, er lög og reglugerðir mæla fyrir um. Sannleikurinn er og sá, að sýslufélögin mörg hver hafa á liðnum árum beitt sér fyrir hinum fjölþættustu verkefnum á sviði mennta-, heilbrigðis- og atvinnumála, svo að dæmi séu nefnd. Þau hafa átt hlut að byggingu og rekstri bókasafna, skóla, bókaútgáfu, félags- og elliheimila, sjúkrahúsa og stutt að góðri og öruggri læknisþjónustu og heilsugæzlu með öllum ráðum. Þá hafa sýslunefndir unnið að margþættum hagsmunamálum héraðanna, sem efst eru á baugi hverju sinni og of langt yrði upp að telja, en ég minni t.d. á rafvæðingu byggðanna. Starf og framtak sýslunefnda er þó að sjálfsögðu nokkuð misjafnt eftir aðstæðum í hverju héraði fyrir sig.

Í 101. gr. sveitarstjórnarlaga segir um tekjuöflun sýslusjóða, að samin skuli árleg áætlun um tekjur og gjöld. Því, sem á vantar, að tekjur sýslusjóðs hrökkvi fyrir útgjöldum hans, skal jafnað niður á hreppana eftir víssum reglum, eins og segir í lögunum. Þó að svona sé tekið til orða, má heita, að sýslusjóðsgjaldið, sem hrepparnir standa undir og greiða, sé hinn eini tekjustofn sýslusjóða. Undanfarið hefur mikið verið rætt um tekjustofna ríkis og sveitarfélaga, en hvað um sýslufélögin? Hefur hagur þeirra nokkuð verið skoðaður í ljósi umræddrar þál.?