11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í D-deild Alþingistíðinda. (5000)

924. mál, tekjustofnar sýslufélaga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég minnist þess ekki, að þessi fsp. hafi borizt til mín, og hef þannig ekki látið fara fram neina könnun á því, hvernig þetta standi. Mér er hins vegar fullkunnugt um það, að tekjustofnar sýslufélaga eru mjög naumir og hlutverk þeirra margvíslegt, og svo hefur verið um langa hríð. Er nú mjög á dagskrá, hvernig eigi að skipa þeim verkefnum, sem undir sýslufélögin hafa til þessa fallið og falla enn með tilkomu hinna svokölluðu landshlutasamtaka. Nú gæti það vitanlega gert stórt strik í reikninginn um það, hvert yrði verkefni sýslufélaganna í framtíðinni, ef hin samtökin, landshlutasamtökin, sem nú eru þegar stofnuð í öllum landsfjórðungum, tækju að verulegu leyti við hlutverki sýslufélaganna. Þessi mál eru nú í deiglu og endurskoðun sveitarstjórnarlaga fram undan, og hygg ég, að svarið við því, hvernig verði hagað útvegun tekjustofna fyrir sýslufélögin, hljóti að fara mjög eftir því, hvert verður þeirra endanlega verksvið, þegar sveitarstjórnarlög hafa verið endurskoðuð.