11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í D-deild Alþingistíðinda. (5001)

924. mál, tekjustofnar sýslufélaga

Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin, þó að þau væru satt að segja ekki ýkja uppbyggjandi, en ég treysti honum eigi að síður til þess að láta skoða þessa þál., og rannsaka þetta mál, ekki sízt þar sem mér er kunnugt um, að hann á sjálfur sæti í sýslunefnd — a.m.k. síðast þegar ég vissi. (Félmrh.: Það var rætt um það á sýslufundinum í dag.) Það er einmitt það. En af því að þessi þál. virðist koma svo ókunnuglega fyrir sjónir, þá ætla ég að leyfa mér að lesa hana upp. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta svo fljótt sem auðið er hefjast handa um endurskoðun á gildandi reglum um tekjustofna sýslufélaga í því skyni að setja skýrari ákvæði um tekjustofna sýslufélaga og sjá þeim fyrir nægilegum tekjum til þess að mæta lögboðnum og öðrum óhjákvæmilegum útgjöldum.“

Það er rétt, að hæstv. ráðh. vék að landshlutasamtökum sveitarfélaga, og mér er það fullljóst, að það er miklu meira í tízku nú á tímum að tala um þessi landshlutasamtök en sýslurnar. Eigi að síður álít ég, að það eigi að gefa þessu máli fullan gaum, ekki sízt þar sem því hefur verið lýst á Alþ. nú nýverið, að haldið verði áfram að skoða málefni sveitarfélaga um tekjustofna og annað. Og hæstv. ráðh. gat þess sérstaklega, að þessi mál væru öll í deiglunni. En eins og ég vék að áðan, má fyllilega leiða af orðalagi 101. gr. sveitarstjórnarlaga, að hugmyndin hafi verið að afla sýslufélögum nýrra megintekjustofna, þegar þau lög voru sett. Ég sýndi einnig fram á og rakti hið mikla og margþætta hlutverk, sem sýslufélögum er ætlað að rækja enn í dag. Það er augljóst mál, að mikið fé þarf til að standa straum af þeim verkefnum öllum. Ég tel því fulla nauðsyn á því, að þessi mál séu vandlega skoðuð og sýslufélögin efld með fullnægjandi og öruggum tekjustofnum til að leysa lögboðin og mikilvæg viðfangsefni vel af hendi framvegis. Umfram allt: Gleymið ekki sýslunum, þó að munað sé vel eftir landshlutasamtökum sveitarfélaganna.