11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í D-deild Alþingistíðinda. (5005)

215. mál, heilbrigðislöggjöf

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Það er alllangt síðan fsp. sú, sem hér um ræðir, var borin fram. Henni var beint til hæstv. heilbr.- og trmrh., og þannig vill nú til, að nú, þegar hún kom á dagskrá, þá var mér fengið frv. í hendur, nákvæmlega um leið og ég gekk í stólinn. Það þykir mér mjög vænt um, en ástæðan til þess, að hún var borin fram, er sú, að fyrrv. heilbr.- og trmrh. skipaði nefnd til þess að endurskoða ýmsa þætti heilbrigðislöggjafarinnar. Nefndin skilaði ítarlegri grg. og tillögum fyrir ári síðan. Þær hafa nú verið til endurskoðunar og athugunar hjá mörgum aðilum, og árangurinn er nú frv. það til laga, sem ég var að fá í hendurnar.

Það er mín skoðun, að þessi óvissa, sem hefur ríkt um framtíðarskipulag heilbrigðismálanna, hafi valdið svolitlum örðugleikum í framkvæmd ýmissa þátta þeirra nú upp á siðkastið, og m.a. er mér kunnugt um, að víða um land ríkir mikil eftirvænting og má segja, að örlög vissra byggðarlaga geti mótazt mjög af þeirri ákvörðun, sem nú verður tekin um framtíð heilbrigðisþjónustunnar á þessum svæðum. Í því uppkasti, sem nefndin lagði fram fyrir ári síðan, varð allgagnger breyting á skipun heilbrigðisþjónustunnar. Héraðslæknisembættum var fækkað niður í sjö, og þar af skyldi einn héraðslæknir sjá um meiri hluta allra landsmanna, þ.e. héraðslæknirinn í Reykjavík, en nú er eftir að sjá, hvað þetta frv. til I. hefur að geyma.

Það er ekki sízt fólkið úti á landi, sem bíður eftir þessu, eins og ég sagði, til þess að fá að vita, hvernig heilbrigðisþjónustu þess verður hagað í framtíðinni. Við vitum öll um það, að til stendur að byggja heilsugæzlustöðvar víða um landið, en víssir staðir og þá ekki sízt sum sjávarpláss norðan- og vestanlands munu verða jafnvel verr sett en áður, og vona ég, að nú hafi verið bætt um í því efni og endurskoðun þessi hafi borið árangur í þessu tilliti.

Þá eru það ýmis atriði heilbrigðisþjónustunnar, sem eru nú ofarlega í huga og eru í raun og veru mjög illa stödd. Þar má m.a. geta um málefni áfengis- og geðsjúklinga. Það er áreiðanlega mörgum orðin forvitni að heyra frá hæstv. ríkisstj„ hvað hún hyggst gera til að leysa vanda þessara stóru hópa, sem hér er um að ræða. Varðandi áfengissjúklingana er kannske um tvíþættan vanda að ræða. Það er í fyrsta lagi að ráða við vanda þeirra, sem eru fjársjúkir af drykkju og þurfa skyndihjálp. Það hefur lengi verið nauðsyn að koma á fót hér á landi einhvers konar upptökuheimili. Það var reynt einu sinni. Það gekk sæmilega vel meðan það starfaði. Síðan var það lagt niður. Ég lít svo á, að það hafi verið til hins verra að gera það. En upptökuheimili, þar sem fram getur farið bæði rannsókn og fyrsta hjálp við drykkjusjúka og ekki sízt við þá, sem eru ekki orðnir „krónískir“ alkóhólistar, heldur tiltölulega stutt komnir á þeirri leið, slíkt heimili álít ég höfuðnauðsyn að við fáum sem fyrst hér á landi, og við getum þá á vegum þess heimilis líka athugað um hagi þess fólks, sem er að verða „krónískir“ alkóhólistar, getum athugað félagslegar ástæður þess og fengið sérfræðilega hjálp því til handa.

Það hefur heyrzt, að til stæði að reisa 20 rúma sjúkradeild fyrir „króníska“ alkóhólista. Slíkt er sannarlega úrbót. En þegar maður lítur til þess, hve þær stofnanir, sem nú eru í gangi, eru fjarri því marki að geta fullnægt sínum verkefnum, þá hef ég grun um, að þetta muni ekki fullnægja allri þörfinni.

Eitt af því, sem er mjög erfitt hjá okkur í dag og sem háir heilbrigðisþjónustunni verulega, eru vandkvæðin með að ráðstafa langlegu- og hjúkrunarsjúklingum. Oft hefur nú ástandið verið slæmt í þessum efnum. Þó held ég, að það sé jafnvel verra nú en nokkru sinni fyrr. Orsökin virðist fyrst og fremst vera skortur á rúmum fyrir þessa sjúklinga. Þeir liggja á öllum mögulegum hjúkrunar- og sjúkrahúsum í landinu og stundum á dýrari stofnunum en nokkur þörf er á og hafa þess vegna bein áhrif á möguleika þessara stofnana til þess að sinna sínum raunverulegu verkefnum, sem eru rannsóknir og lækning á skyndiveikindum. En sjúkradeildir elliheimila og annarra stofnana, sem vista langlegusjúklinga, eiga nú erfiðara en oftast áður, og þess vegna vonast ég til, að við fáum að heyra eitthvað um eða sjá í þessu frv., það var vonazt til þess, að aðstoð ríkisins mundi aukast við sveitarfélög, er vildu koma hjúkrunarheimilum á fót, og ég vonast til, að svo verði.