12.04.1972
Efri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í D-deild Alþingistíðinda. (5027)

128. mál, smíði strandferðaskipsins Heklu

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þeirri fsp., sem nú er á dagskrá, var beint til mín snemma á þessu þingi af hv. varaþm. Tómasi Karlssyni. En þar sem hann hefur ekki átt sæti aftur í d., hefur fsp. ekki komið á dagskrá fyrr en nú fyrir nokkrum dögum. Þá var ég hins vegar ekki við látinn til þess að svara henni. Sú regla mun gilda um fsp., sem bornar eru fram í d., að þeim sé ekki svarað næsta þriðjudag eftir að þær eru bornar fram, eins og í Sþ., heldur þegar ráðh. tilkynnir, að hann sé til með svarið. Þetta var mér ekki ljóst. En ég hafði það svar, sem hér verður gefið, til reiðu fyrir löngu síðan. Þetta á væntanlega ekki að koma að sök.

Þessi fsp. Tómasar Karlssonar er í fjórum liðum. Þar sem ég var ekki nálægur þegar byggingarnefndin starfaði, þá eru upplýsingar þær, sem hér verða gefnar, gefnar af ráðuneytisstjóra samgrn., Brynjólfi Ingólfssyni, og Ólafi St. Valdimarssyni.

Fyrsta spurningin var á þessa leið:

„Hvaða röksemdir eða ástæður lágu til þess, að byggingarnefndin vék frá upphaflegum smíðaáformum um Heklu og keypti aðra og óhagkvæmari gerð skipsskrúfu, sem hafði í för með sér, að breyta þurfti byggingu skipsins og veikja styrktarbönd að aftan, auk þess sem setja varð stórt kasthjól á vélarás?“

Svar við þessari spurningu er á þessa leið: Smiðalýsingu strandferðaskipanna gerði hollenzka fyrirtækið Nescos á vegum Skipaútgerðar ríkisins. í smíðalýsingunni voru sérstaklega nefndar tvær gerðir af skiptiskrúfum, hollenzk og sænsk. Akveðið var endanlega að kaupa Lips-skrúfur, og var hér því ekki um neitt frávik frá upphaflegum smiðaáformum að ræða. Lips var valin vegna þess, að verð þeirrar skrúfu var verulega lægra. Lips er heimsþekkt skipaskrúfuverksmiðja og hafði verið Skipaútgerð ríkisins að góðu kunn um áratugi m.a. í sambandi við tveggja skrúfu farþegaskipin Esju og Heklu, sem smíðuð voru bæði í Álaborg. Engir sérstakir gallar hafa heldur komið fram á skrúfum nýju strandferðaskipanna. Endanlegir útreikningar framleiðenda aðalvéla, sem voru Deutz-vélar, og skipaskrúfuframleiðenda, Lips, leiddu til stækkunar á svinghjóli aðalvélar frá því, sem Deutz virðist í upphafi hafa hugsað sér. En ekkert liggur fyrir um það, að jafnstórt svinghjól hefði ekki þurft í sambandi við hvaða skiptiskrúfu sem keypt hefði verið. Slippstöðin gerði eða lét gera allar vinnuteikningar fyrir umrætt skip í samræmi við þessa útreikninga og þar með af frágangi öllum kringum umrædd svinghjól. Hér var því ekki um neina breytingu að ræða á fyrirframgerðri áætlun um smíði skipanna og því engin styrktarbönd veikt frá upphaflegum áformum. Slippstöðin framkvæmdi verulega endurbót á frágangi kringum umrætt svinghjól aðalvélarinnar í Heklu á s.l. hausti til þess að draga úr óeðlilegum hristingi skipsins, en auðvitað hefði verið auðveldara og kostnaðarminna að ganga vel frá þessu í upphafi, auk þess sem það var æskilegra fyrir skipasmíðastöðina og útgerð skipsins, en allt þetta verk var viðurkennt af flokkunarfélaginu Lloyd's register of shipping. — Þetta er svarið við fyrstu spurningunni.

Þá er önnur spurningin: „Hvers vegna var sú ákvörðun tekin að kaupa ljósavélar skipsins frá þremur framleiðendum í stað þess að kaupa þær í einu lagi?“

Svarið er á þessa leið: Byggingarnefnd strandferðaskipa hafði samþykkt, að Slippstöðin h.f. keypti þrjár Paxman-dísilvélar af ákveðinni gerð með English Electric rafölum fyrir hvort þeirra skipa, sem smíðað skyldi fyrir Skipaútgerðina, en tilboð um þetta lá fyrir frá umboðsmönnum Paxman-verksmiðjunnar hér, S. Stefánsson & Co. Slippstöðin vildi samt ekki samþykkja nefnt tilboð og kvaðst geta lagt nákvæmlega sömu Paxman-vélar til með þýzkum rafölum frá A. van Cakie í Frankfurt með hagstæðari kjörum. Af hálfu Slippstöðvarinnar var samið við Scandinavian Engineering í Kaupmannahöfn um milligöngu í þessu sambandi. Byggingarnefndin taldi sig ekki hafa ástæðu til að álíta, að rafalar frá vel þekktri þýzkri verksmiðju væru nokkru lakari að orku o.s.frv, en sams konar rafalar frá brezkri verksmiðju, og tenging, undirbygging og frágangur átti að vera viðráðanlegt verkfræðilegt viðfangsefni, sem byggingarnefndin hlaut að treysta, að Slippstöðin sæi um og ábyrgðist, að yrði í góðu lagi.

Varðandi það, að Slippstöðin gæti keypt umræddar vélasamstæður á hagstæðara verði en boðið hafði verið af umboðsmönnum Paxman hérlendis, gat það sprottið af því, að Paxman byði vélar sínar á lægra verði til Þýzkalands en Íslands eða van Cakie byði rafala sína á hagstæðara verði en English Electric. Byggmgarnefnd strandferðaskipa taldi ekki rétt að hindra, að Slippstöðin h.f. keypti nefndar vélasamstæður á þann hátt, sem hún taldi hagstæðast, enda kom lægra verð kaupanda þá að góðu. Það er þannig á misskilningi byggt, að Slippstöðin hafi keypt ljósavélasamstæðurnar af þremur aðilum, en Scandinavian Engineering kaupir hlutana frá dísilvélaframleiðanda og rafalaframleiðanda, setur vélasamstæðuna upp og selur síðan sem eina heild.

Þá er þriðja spurning á þessa leið eða þriðji liður fsp. á þessa leið: „Hvers vegna var ekki gengið tryggilega frá samningum um fullar bætur vegna galla við kaup á ljósavélum skipsins, þótt seljendur væru þrír?“

Svarið er svo hljóðandi: Eins og áður greinir, keypti Slippstöðin ljósavélasamstæðurnar af einum aðila, Scandinavian Engineering. Sá byggingarnefndin alls ekki ástæðu til annars en treysta því, að Slippstöðin sæi um, að tæknileg atriði í sambandi við kaupin væru í fullu lagi. Byggingarnefndin veit ekki heldur til þess, að aðrir skilmálar hafi gilt í sambandi við þessi kaup en viðteknar viðskiptavenjur ákveða.

Svo er það að lokum fjórða spurningin: „Hvernig er háttað ábyrgð slíkra byggingarnefnda, og ber Slippstöðinni h.f. á Akureyri að taka á sig tjón og aukakostnað, sem af ákvörðunum byggingarnefndar hefur leitt? Hvernig hefur þeim kostnaði, sem hlotizt hefur af göllum, er fram hafa komið á Heklu, verið skipt?“

Svarið er á þessa leið: Byggingarnefndinni var falið að sjá um, að smíði strandferðaskipanna væri í samræmi við smíðasamning, sem ríkisstj. gerði við Slippstöðina h.f. um smíði skipanna og undirritaður var 9. marz 1968 af ráðherrunum Eggert G. Þorsteinssyni og Magnúsi Jónssyni. Í örfáum tilvikum voru frávik frá þessum samningi ákveðin, eftir að smíði hófst, svo sem um aukna ísstyrkingu og breytt fyrirkomulag við lestarop. Var jafnan leitað samþykkis ráðh. til slíkra breytinga. Aukakostnaður, sem slíkar breytingar höfðu í för með sér, var að sjálfsögðu greiddur af kaupendum skipanna.

Varðandi skiptingu kostnaðar, sem hlotlzt hefur af göllum, er fram hafa komið á Heklu, skal það tekið fram, að samkv. smíðasamningi hefur Slippstöðin h.f. borið meginhluta af beinum kostnaði, en ábyrgðartími Slippstöðvarinnar af smíði skipanna er samkv. smiðasamningnum sex mánuðir frá afhendingu þeirra.

Þessa skýrslu um málið hafa þeir gefið Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri og Ólafur St. Valdimarsson fyrir hönd byggingarnefndar strandferðaskipa, og kann ég ekki þessa sögu lengri.