20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

1. mál, fjárlög 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. S.l. laugardagskvöld tilkynnti hv. 7. þm. Reykv. mér það, að hann hefði ekki hugsað sér við þessa umr. að þreyta á ný eldhúsumr., sem hafði verið gert við 2. umr. við fjárlagafrv. Um þetta hafði ég auðvitað ekkert að segja, því að það var hans mál, en ekki mitt. Hins vegar hafa þeir hv. Alþfl.-menn nú sýnt mér sem fjmrh. eindæma tillöguflutning, sem ég hef a.m.k. ekki þekkt í þingsögunni fyrr. Ég kann að sjálfsögðu að meta þetta að verðleikum, en tek það eins og það fyrra, að það er þeirra mál, en ekki mitt.

Að tillöguflutningi þessum mun ég víkja síðar í ræðu minni. Ég kemst ekki hjá því að fara hér að einhverju leyti út í umr. meira en ég hefði kannske ætlað mér í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, en mun þó reyna að stytta mál mitt svo sem auðið er.

Í fyrsta lagi langar mig í sambandi við tekjuáætlun fjárlaga eða hækkun fjárlaga að fara nokkrum orðum um það, hver er ástæðan til þess, að fjárlög hækka svo sem nú er. Í fyrsta lagi vil ég minna á það, að fjárlög hækka nú um 910 millj. kr. vegna samninga um launakjör opinberra starfsmanna, sem voru gerðir 19. des. í fyrra. Ef vísitöluuppbætur eru teknar með og aðrir þeir liðir, sem óhjákvæmilegir eru í ríkisrekstrinum, eru launahækkanirnar 963 millj. kr. Ég spyr hv. alþm.: Hverjir eru það, sem vilja, að þessum lið verði breytt á fjárlögum eða hann felldur niður? Í öðru lagi koma framlög til almannatrygginga samkv. lagaafgreiðslu frá síðasta þingi, 573 millj. kr. Ég spyr enn: Hvaða hv. alþm. telja fært, að þetta verði lækkað á útgjaldaliðum fjárlaga? Í þriðja lagi koma markaðir tekjustofnar. Það eru þær tekjur, sem ganga bæði inn og út í dæminu, þeim er ætlað ákveðið hlutverk, m.a. eru tekjur Vegasjóðs þannig. Með lagabreytingu, sem gerð var hér eftir að fjárlagaafgreiðsla fór fram á siðasta ári, hækka þessir tekjustofnar vegna veganna um nær 280 millj. kr. og aðrir tekjustofnar þessir hækka einnig nokkuð. Samtals eru þetta um rúmar 600 millj. kr. Þegar þetta er saman tekið, er hækkun fjárlaga um 2 156 millj. kr. Sá liður, sem ég kem næst að, eru samþykktir þær, sem flestar er búið að gera og tillögur eru nú um í 3. umr. fjárlaga, um fé til verklegra framkvæmda og félagsmála. Hér er um að ræða fjárhæð, sem er 780 millj. kr. Enginn hefur lagt til að lækka þessa liði og enginn hefur dregið í efa þörf á því, að þeir væru hækkaðir svo sem raun ber vitni um. Allar tillögur hafa af eðlilegum ástæðum gengið í þá átt að hækka þetta meira. T.d. var hv. 7. þm. Reykv. svo röskur, að hann kom með till. hér við 2. umr. fjárlaga um að hækka þessar upphæðir um rúmar 200 millj., og það brá svo við, að flest voru það málaflokkar, sem hann hafði sjálfur haft sem ráðh. í 15 ár. Ef allir þm. í stjórnarandstöðu hefðu verið svo röskir, hefðu fjárlögin hækkað um tæpa 6 milljarða, — geri aðrir betur. Svo kemur hækkun vegna breytinga á tryggingalögunum og vegna þess, að til framkvæmda kemur það ákvæði laganna, að tryggingabætur skuli hækka, ef kaup hækki í landinu. Hér er um að ræða fjárhæð, sem er um 530 millj. kr. Enginn hv. alþm. hefur lagt til, að úr þessu verði dregið. Sumt af þessu var lögbundið, svo að hjá því varð ekki komizt, annað var ákvörðun núv. ríkisstj., sem allir fylgdu fast eftir, að gerð yrði. En til þess að svo megi verða, þarf að greiða fjárhæðina.

Þá kemur næst atriði, sem segja má, að megi deila um, en það hefur ekki verið gert hér á Alþ. Það er flutningur frá sveitarfélögunum til ríkisins. Það er flutningur á framlagi til almannatrygginga, til sjúkratrygginga og til löggæzlukostnaðar. Hér er um að ræða fjárhæð, sem er um 1 296 millj. kr. Það má deila um það, hvort út í þetta átti að fara nú. Þetta hefur hins vegar ekki sætt gagnrýni að því leyti, að hér hefur verið tekið undir kröfu frá sveitarfélöguaum, sem þau hafa lengi borið fram, og talið var eðlilegt, að ríkisvaldið, sem hefði framkvæmt þessa ákvörðun um hækkun útgjalda vegna trygginganna, sæi líka um þessi útgjöld. Og því er ekki að neita, að hækkanirnar á síðari árum hafa orðið sveitarfélögunum þungar í skauti. Ég minnist þess í umr. frá í vor, þegar frv. fyrrv. ríkisstj. var til meðferðar hér á hv. Alþ., að það kom fram frá sveitarfélögunum, að þeim fannst nóg að gert. Ég dreg í efa og meira en það, að sú breyting, sem nú hefur verið gerð á tryggingalöggjöfinni, hefði raunverulega verið framkvæmanleg, nema þessi breyting væri hliðstæð, því að það vita þeir vel, sem bezt þekkja, að greiðslur sveitarfélaganna til Tryggingastofnunar ríkisins eru farnar að reynast þeim verulega erfiðar, og það er einn liður í þessari ákvörðun.

Þegar þessu er sleppt, koma 250 millj. kr., sem er liður, sem er veittur fjmrn. til þess að mæta væntanlegum hækkunum í sambandi við vísitöluhækkanir og annað ófyrirséð. Ekki finnst mér hægt að deila á fjármálastjórnina fyrir að leggja þessa fjárhæð til hliðar til þess að hafa þannig möguleika til að mæta því ófyrirséða í þessum efnum. Ef eitthvað væri þar að, væri það frekar, að fjárhæðin hefði þurft að vera hærri heldur en lægri. Þá erum við komin að því, að 53 millj. kr. er till. til hækkunar á útflutningsuppbótum frá því, sem var á síðasta ári. Hér er farið nákvæmlega eftir því, sem framleiðsluráðið hefur gefið upp um horfur í því efni. Nú hefur það komið fram og m.a. hjá hv. 1. þm. Reykv. í samtali við mig í útvarpinu, að hér mundi vera of lítið áætlað. Ég hef ekki fyrir mér annað í því en það, sem framleiðsluráðið hefur gefið upp, og ég kann ekki skil á aðila, sem getur betur áttáð sig á þörfinni en þeir. Þegar þessu er sleppt, sem ég hef nú talið, eru eftir 71 millj. kr. í þessu dæmi öllu saman, sem skiptast á liði, sem eru smáliðir og ég hef ekki lagt vinnu í að útskýra.

Ég spyr enn á ný: Hvað á að lækka af þessum útgjöldum? Ég veit, að það getur verið stefnuatriði, hvort tilfærslan átti að verða á milli sveitarfélaga og ríkisins, en það lækkar ekki gjöldin á þegnunum í landinu, því að eins og ég kem að síðar, er ekki snúið á sveitarfélögin í þeim viðskiptum. Hér er um að ræða upphæð upp á 5 136 millj. kr. Þá segir stjórnarandstaðan: Er nú ekki of langt gengið, mikil er nú hækkun fjárlaganna. Jú, rétt er það. Mikil er hækkun fjárlaganna. En við skulum nú athuga það betur en enn þá er orðið, þó að ég hafi gert nokkra grein fyrir því, hver er ástæðan fyrir þessari hækkun, og hv. þm. geta metið, eins og ég áður sagði, hverju átti að sleppa og hvað átti að taka. En ef ég renni nú huganum til baka og lít til fjárlaganna fyrir þessa hækkun, ef hún er tekin svona brotalaust, eins og ég hef nú gert, er hún veruleg, — hún er 44.3% frá fjárlögunum í fyrra, ef þau eru tekin bókstaflega. Þess vegna langar mig til að víkja til fjárlaganna 1971. Ég vil minna á það, að það fjárlagafrv. var til umr. hér á hv. Alþ., þó að nú þyki öll vinnubrögð óeðlileg, 20. og 21. des., 19. des. gerði ríkisstj. samning um kaup og kjör við opinbera starfsmenn. Þá þótti þáv. ríkisstj. ekki ástæða til, að Alþ. frestaði fjárlögum vegna þeirra kjarasamninga. Þá voru skildar eftir 270 millj. kr. til þess að mæta þeim. Í allri túlkun í núv. stjórnarandstöðuflokkum er þessi tala talin tekjuafgangur og ekki með í fjárlagadæminu frá í fyrra. Það verð ég að segja, að þá finnst mér langt gengið, þegar hv. þm., sem stóðu að gerð þess samnings, telja hann nú ekki með í afgreiðslu á fjármálum ríkisins árið 1971. Ef við víkjum að þessu og berum fyrir okkur samanhurð á fjárlögum frá 1970 til 1971, hækka þau á útgjaldahliðina um 34.6%, en þá er launaliðurinn ekki tekinn með. Ef tekjuhliðin er tekin, þá eru það 37.4%, en ef betur er að gáð, breytist myndin. Ef tekin er inn í þetta dæmi 430 millj. kr. hækkun á laununum, sem samið var um tveim dögum áður en fjárlög voru afgreidd, eiga fjárlögin að hækka útgjaldamegin um 430 millj., eins og ég áður sagði. Ef tekin er inn í myndina hækkunin, sem gerð var hér á síðustu dögum þingsins til Vegasjóðs, 235 millj., sem við allir hv. alþm. yfirleitt stóðum að, en nú er ekki talið til útgjalda á fjárlögum, — það er nú eitthvað annað, 235 millj., það tilheyrir ekki útgjöldum 1971, af því að það var passað að setja það ekki þá inn á fjárlög, — ef við tökum niðurgreiðslurnar, sem þá vantaði til um 130 millj. kr., og ef við tökum ákvörðunina, sem var tekin nokkrum dögum eftir að fjárlögin voru afgreidd, sem eru daggjöldin á ríkisspítölunum og ríkisstj. víssi að sjálfsögðu af, að skorti á 170 millj. kr., þá hækka fjárlögin 1971 og það allverulega, hækka frá 1970 um 4 259 millj. kr. eða um 50.9%. Ef menn vilja hagræða fjárlögunum, eins og gert var í fyrra, þá er hægt að gera samanburð, eins og núv. stjórnarandstæðingar leyfa sér að gera, og telja þessar yfir 4 þús. millj. kr. aðeins þenslu hjá núv. ríkisstj. Þá er hægt að koma hlutunum fyrir eins og nú er gert. En ef menn vilja hafa það, sem réttara reynist, á að gera dæmið svona upp, og þá hækkuðu fjárlögin frá 1970 til 1971 um 50.9%. Þetta vil ég biðja hv. alþm. að leggja á minnið og gera sér grein fyrir, hvað er hér verið um að ræða. Það er ekki nóg að gera dæmið upp á þann veg að skilja bara nógu mikið eftir fyrir utan fjárlagaafgreiðslu og telja svo árið eftir, að þetta sé hækkun á næstu fjárlögum. Og það, sem ég veit, að hv. stjórnarandstæðingar óskuðu helzt eftir, var einmitt það, að þau vinnubrögð yrðu nú viðhöfð, að reynt yrði að draga úr hækkunum núna með vanáætlunum, sem kæmu svo fram á næstu árum. Það var þeim að sjálfsögðu mest í hag. En þessar staðreyndir, sem ég hef hér lagt fram, verða ekki hraktar, því þær eru staðreyndir og staðreyndir einar.

Þegar þetta er haft í huga, breytist dæmið allverulega frá því, sem nú er. Ef fjárlögin fyrir 1970 hefðu verið raunhæf og teknar inn í það fjárlagadæmi þær samþykktir, sem gerðar voru hliðstæðar og útgjöldin varðaði eða litlu seinna, væri hækkunin nú á fjárlögunum í fjárlagafrv. um 4 170 millj. kr. eða 33.3%. Ef hins vegar út úr þessu dæmi væri sleppt því, sem fært er frá sveitarfélögunum, — en það er ákvörðun núv. ríkisstj., að það skuli tekið með, og þess vegna á að sjálfsögðu að taka það með, — hækkuðu fjárlögin frá raunhæfum fjárlögum, ef þau hefðu verið, um 22.8%. Þetta er samanburður, sem er raunhæfur í þessu sambandi, og hann á að nota, þegar samanburður er gerður. Það er ekki raunhæfur samanburður að telja til útgjaldahækkunar á núv. fjárlögum þá stóru útgjaldaliði, sem voru við fjárlagaafgreiðslu lagðir til hliðar þangað til síðar, til þess að þeir hækkuðu ekki fjárlögin og samanburðinn þá.

Þá skal ég nú ekki orðlengja fleira um útgjöldin og sný mér þá að tekjumálunum. Hv. stjórnarandstæðingar hafa að sjálfsögðu rætt nokkuð um þá hlið málsins, og við því er að sjálfsögðu ekkert að segja. Mér finnst í raun og veru, að þeir hafi nokkru meiri rétt til þess að ræða um hana, ef sá samanburður er rétt gerður, en útgjaldahliðina, vegna þeirra eigin útgjalda, sem eiga að vera með í því dæmi. Ef tekinn er sá mismunur á tekju- og eignarskatti, sem kemur út úr því dæmi, þegar persónusköttunum hefur verið sleppt, fær ríkissjóður 979 millj. kr. meiri tekjur út úr tekju- og eignarsköttum á árinu 1972 en hann hefði fengið eftir gamla kerfinu. Þá er ég búinn að draga frá þá lækkun, sem verður vegna persónuskattanna, sem felldir eru niður af fjárlagafrv. nú við tekjubreytinguna. Nú er við þetta það að athuga, að það, sem gerist hér, er það, að útgjöldin, sem tekin voru frá sveitarfélögunum, tæpar 1 300 millj. kr., gera það að verkum, að skattar sveitarfélaga í heild lækka. Þess vegna kemur það ekki út sem hrein hækkun á þessum tekjustofni, eins og hv. alþm. hafa viljað vera láta, þar sem lækkun kemur á öðrum tekjustofni hliðstæðum.

Óbeinir skattar eða aðflutningsgjöld hækka um 384 millj. kr. frá því, sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Hér er um nokkra hækkun að ræða, en ef gerður er samanburður á sköttunum nú og í fyrra, kemur í ljós, að það munar ekki nema nokkrum hundruðum millj. kr., að tekjur af þessum sköttum séu í nóvemberlok orðnar eins og hér er gert ráð fyrir.

Þriðja atriðið, sem hækkar, er söluskatturinn. Er þar um veigamestu breytinguna að ræða. Þar er um að ræða, að skatturinn í heild hækkar af þrem ástæðum um 885 millj. kr. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að breyta um innheimtu á skattinum og innheimta hann mánaðarlega seinni hluta ársins. Þessi ráðstöfun mun gefa um 370 millj. kr. Um þessa ráðstöfun má að sjálfsögðu deila. En ástæðan er m.a. sú, að nauðsyn ber til að fylgja því fast eftir að þessum skatti sé skilað og þetta er ein af þeim ráðstöfunum, sem gerð verður í því skyni. Í öðru lagi verður nú lagður söluskattur á Póst og síma, og er gert ráð fyrir því, að sá skattur muni gefa um 90 millj. kr. Lagabreyting verður gerð í sambandi við þetta til þess að innheimta þennan skatt. Ekki er gert ráð fyrir því, að þetta þurfi að ganga út í verðlagið a.m.k. fyrst um sinn. Í þriðja lagi er svo um að ræða um 425 millj. kr., en sú er talin, að aukning á söluskatti geti orðið að óbreyttum ástæðum frá því, sem frv. gerði ráð fyrir.

Fjórði liður í tekjuáætluninni, sem ég geri hér grein fyrir, eru tekjur af Afengis- og tóbaksverzlun ríkisins, sem er gert ráð fyrir að verði um 240 millj. kr. hærri en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Hér er fyrst og fremst um að ræða þá verðhækkun, sem gerð var í haust, sem mundi gefa nær 200 millj. kr., og umsetningaraukningu frá því, sem þá var ráðgert, um 40 millj. kr.

Gert er ráð fyrir því, að launaskatturinn verði óbreyttur, en hann muni gefa um 100 millj. kr. meira á næsta ári en reiknað var með í fjárlagadæminu, og er að sjálfsögðu í þessu sem öðru stuðzt við þá reynslu, sem fengin er síðan fjárlagafrv. var gert.

Þá er um að ræða ýmsa smáskatta, sem eru samtals 39 millj. kr., og þegar þetta hefur þannig verið gert upp, er þessi tekjuhækkun 2 627 millj. kr., sem þarf til þess að mæta þeim útgjaldahækkunum, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.

Eins og ég áður sagði, er hér um að ræða tæpar 900 millj. kr., sem er byggt á reynslu síðari hluta ársins og áhrifum af aukinni veltu á næsta ári. Til frekari skýringar á því, hvernig þessi tekjuspá er byggð upp, vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér úr grg. Efnahagsstofnunarinnar þar um. Þar segir svo:

Gert er ráð fyrir, að verðmæti útflutningsframleiðslunnar aukist um 8%, þar af sjávarvöruframleiðslu um 5.5%. Þjónustuútflutningur er talinn muni aukast um 6.3% og útflutningsverðmæti í heild um rúml. 10%. Áætluð er aðeins 1.5% aukning fjármunamyndunar í heild, en 10%, ef frá er talinn innflutningur skipa og flugvéla. Um 12% aukning einkaneyzlu er áætluð. Gert er ráð fyrir, að almennur vöruinnflutningur aukist að verðmæti um 20%, og hefur þá verið gert ráð fyrir erlendri verðhækkun um 3–4%. Þessar spár um þróun eftirspurnar fela í sér um 11% aukningu almennrar innlendrar verðmætaráðstöfunar og 6–7% aukningu þjóðarframleiðslu og um 6,6 aukningu þjóðartekna.

Að sjálfsögðu má um það deila, hversu haldgóð þessi spá kann að reynast, en það skal tekið fram, að hún er þó byggð á þeirri varkárni að reyna að meta sem minnst þau áhrif, sem síðustu kjarasamningar mundu hafa á innflutningsverzlunina. Þar er ekki metið, að áhrifin af þeim geti orðið nema milli 40 og 50% af því, sem gera mætti ráð fyrir, að hún mundi að öðrum kosti verða. Ástæðan til þess, að svo er að farið, er auðvitað sú, að í þessu sambandi verður að gæta að gjaldeyrisstöðunni og hvað hún þolir í sambandi við þá kaupgetu, sem í landinu er. Það verður auðvitað að vera hlutverk hæstv. ríkisstj. að meta þau áhrif og þær ráðstafanir, sem þarf að gera vegna þeirrar kaupgetu, sem væri til staðar hjá landsmönnum, og eftirsókn í innflutning. Að sjálfsögðu mun ríkisstj. hafa fulla varúð á og gera tiltækar ráðstafanir, til þess að gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar verði ekki stefnt í hættu. Ég vil líka undirstrika það, sem áður hefur verið fram tekið, að ef ríkisstj. álitur, að um ofmat sé að ræða í sambandi við tekjustofna ríkisins, mun hún að sjálfsögðu gera sínar ráðstafanir til þess að tryggja hallalausan ríkisbúskap.

Um þennan þátt ætla ég svo ekki að ræða frekar, en sný mér þá að þættinum um vísitölu og niðurgreiðslur. Margt er í heiminum skrýtið. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram, var það eitt aðalárásarefnið á fjmrh., hversu gegndarlausar væru orðnar upphæðir í niðurgreiðslur. Slíkt framferði væri óafsakanlegt og í rauninni óframkvæmanlegt. Við 1. umr. fjárlaga lét ég það koma fram, sem einnig er getið í grg. fjárlagafrv., að ríkisstj. hefði ekki þá ákveðið, hvort þær niðurgreiðslur, sem gert væri ráð fyrir í frv„ yrðu látnar gilda á næsta ári. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að ef farið hefði verið að eins og fyrrv. ríkisstj. gerði, að áætla aðeins til 1. sept., eins og gert var í fjárlögunum 1971 — ég sleppti því nú áðan, að það var aðeins gert ráð fyrir því, að þær viðbótarniðurgreiðslur, sem ákveðnar voru í nóv. 1970, fjárhæð til þess að mæta þeim nægði ekki nema til 1. sept., og eitt af því, sem stjórnarandstöðuhlöðin hafa blásið út sem veizlufagnað núv. ríkisstj., er einmitt það, að hafa veitt fé til þess að halda þessum niðurgreiðslum áfram fram að áramótum. Og svo er nú komið hér og nú á að fresta fjárlagaafgreiðslunni, af því að ríkisstj. ætlar að leyfa sér að virða lækkun vísitölu með því að draga úr niðurgreiðslum. Hvernig má slíkt gerast? Það er búið að básúna, hvílíkt ráðleysi það hafi verið hjá ríkisstj. að verja fé úr ríkissjóði til þess að greiða niður vísitöluna frá 1. sept. til áramóta, en ef á að breyta þar nokkru um, þá er það bara stuldur. Ja, margt er nú skrýtið í veröldinni. En þetta er nú með því skrýtnasta. En má ég nú minna hv. fyrrv. stjórnarsinna á það, að 1967 var ekki verið að velta því fyrir sér, hvort það ætti að fella niður niðurgreiðslur eða ekki, þá var það bara gert. Má ég minna hv. fyrrv. stjórnarsinna á það, að 1970 voru lögð til hliðar 3.3 vísitölustig alveg hótalaust og ekkert talað um, að menn væru að stela eða fremja einhvern glæp. Hvað hefur gerzt? Nú er þetta hara orðinn glæpur. Hvernig eiga menn að fá samhengi í svona málflutning? Ég vil segja það um niðurgreiðslurnar, að það er mín skoðun, og ég hef látið hana áður koma fram, að auðvitað verður að nota niðurgreiðslur að vissu marki. Hér er um að ræða hinar mestu nauðsynjar fólksins og þetta er ekki, eins og sumir vilja halda fram, framlag til bændastéttarinnar. Það hef ég aldrei viljað viðurkenna. Þetta er ráðstöfun í efnahagsmálum, og þessi ráðstöfun getur verið fullkomlega réttmæt, en hún er það að vissu marki, en ekki lengur. Og þegar hún fer að hafa veruleg áhrif, að gera kerfið sjálft afskræmt, og farið er að stilla allt upp á vísitölu, þá er hættan á ferð. T.d. er það svo, að svo langt var gengið í niðurgreiðslum á sumum landbúnaðarvörum, að framleiðendurnir, bændurnir sjálfir keyptu þá vöru dýrara en aðrir menn. Þegar svo er komið málum, þá fyrst er að mínu mati komið yfir eðlileg takmörk. Að greiða niður kostnaðinn frá framleiðendum til neytenda getur verið skynsamleg ráðstöfun, þegar það er orðið meira, þá fer það að verða hæpið. Og þegar farið er að greiða kartöflur, eins og gert var, niður með þeim hætti, að það borgar sig að fara í búðina, kaupa kartöflupokann, fara í næstu búð og leggja hann inn og hafa upp úr þessu verulega fjármuni, þá erum við komin yfir öll eðlileg takmörk, og þannig má ekki haga sér í sambandi við niðurgreiðsluna. En það, sem er nauðsynlegt í sambandi við niðurgreiðslu, er eins og annað í sambandi við efnahagsráðstafanir, það er að forðast stökkin. Þess vegna ákvað hæstv. ríkisstj. á sínum fyrstu dögum að sleppa ekki verðbólgunni lausri og taka á sig veizlukostnaðinn af því að greiða niður fram að áramótum. Þá var það talinn veizlukostnaður ásamt því að láta gamla fólkið og öryrkjana fá sínar lögákveðnu bætur frá 1. ágúst í staðinn fyrir 1. janúar. Þetta var talin stórveizla, sem ríkisstj. hafði boðið til. Það var rétt, veizlugestirnir voru ekki af þeirri gerð, sem ríkisstj. bjóða yfirleitt. En nú vilja allir Lilju kveðið hafa, og allir samþykkja hækkun tryggingabóta, en nú eru það bara niðurgreiðslurnar. Ég ætla ekki að fara að endurtaka stóryrðin, sem hafa verið notuð í þessu sambandi. Ég vil hins vegar segja, að það að fella niður niðurgreiðslur eða lækka niðurgreiðslur af landbúnaðarafurðum um 25%, eins og gert er ráð fyrir, mun lækka útgjöldin um 340–350 millj. Það lækkar hins vegar vísitöluna um 1.85 eða 1.90 stig. Það er miklu meira, sem kemur út úr sköttunum, afnámi persónuskattanna, heldur en þetta, það eru tæp 4 stig. En má ég minna á annað. Má ég minna á það, að hæstv. fyrrv. ríkisstj., með hv. 7. þm. Reykv. innanborðs, tók upp þann sið að taka fjölskyldubæturnar inn í vísitöluna. Þær þýða núna 4.25 stig. Ég spyr: Hvað hafa þeir, sem ekki hafa börn á framfæri? Hvernig kemur þetta út fyrir þá? Þetta er um 800 millj. kr. Hvar er nú afstaðan til gamla fólksins? Það nýtur ekki fjölskyldubóta. Hvað er nú um þá, sem eiga krakkana í framhaldsskólum, hagnast þeir af þessu? Nei, en vísitalan var hagnýtt, henni var hagrætt með þessu. Ef það er nú orðinn glæpur að lækka vísitölu vegna þess að það kostar nokkuð, samkvæmt eðli málsins, þá má þó að a.m.k. segja um þetta, eins og sagt var um þm., sem var að fylgja fast eftir sínum málum og bað svo sína félaga að muna það„ að hann hefði ekki frekur verið. Þá sagði annar: Nei, þú varst ekki frekur, en þú varst ýtinn. Þá er nú a.m.k. hægt að segja í þessu tilfelli, að þarna hafi hlutunum verið hagrætt. Þess vegna held ég, að hv. núverandi stjórnarandstæðingar eigi ekki að fara út í þessar umr. Hér er ekki verið að gera neitt nema það, að vísitalan lækkar af eðlilegum ástæðum, af því að fólk losnar við að greiða þau gjöld, sem það áður greiddi. Ég hef aldrei heyrt það talið goðgá, ef verðlag lækkaði, sem er háð vísitölu, að það væri neitt óeðlilegt við það, þó að vísitalan lækkaði þá líka. Þetta er alveg nýtt fyrir mér, og ég átta mig ekki á þessu og satt að segja held ég, að hv. 7. þm. Reykv., þó að skarpur sé, hafi nú kannske farið með nokkuð miklum hraða, þegar hann ætlaði að gera þetta að svo stóru máli, að það ætti að fresta fjárlagaafgreiðslu vegna þess. Er ekki hér of langt gengið, og hvað erum við þá í raun og veru að hafa horn í síðu verðhólgunnar, ef ekki má gera neinar ráðstafanir til þess að draga úr henni, og það er setið löngum stundum, stundum vikum og jafnvel nætur sem daga við að semja um kaup og kjör, m.a. vegna þess að atvinnuvegirnir þola ekki þessa kjarabreytingu, en nú þykir það bara slæmt, ef á að gera einhverjar ráðstafanir, sem gætu lækkað vísitölu, sem auðvitað verða svo aðrar til þess að mæta aftur.

Ég skal nú ekki þreyta hv. alþm. með því að tala um vísítöluna góðu og níðurgreiðslurnar lengur, en það verð ég að segja, því að ég get samt ekki annað en haft gaman af því, þegar niðurgreiðslurnar eru orðnar það óskabarn hér á hv. Alþ., að mönnum finnst hara ástæða til að fresta fjárlagaafgreiðslu, svo að hægt sé að koma að meiri fjárhæð til niðurgreiðslna, að einhvern tíma hefði þetta þótt frétt, sem jafnvel væri sjónvarpstæk.

Þá kem ég að skattakerfinu, sem hefur verið nokkuð til umræðu hér á hv. Alþ. og á þó eftir að verða það meira að sjálfsögðu, því að þau frv., sem að því lúta, eru ekki enn þá búin að fá afgreiðslu hér á hv. Alþ., svo að það á mikið eftir um þau að segja. En út af fyrirspurn þeirri, sem hv. 11. landsk. þm. bar hér fram á laugardaginn og nauðsyn bar til að koma þá að, er það að segja, að ég fól mínum ráðuneytisstjóra að rannsaka hana, því ég náði þá ekki í ríkisskattstjóra og fannst það líka eðlilegt að athuga það mál nokkru nánar út af þessum forsendum, sem hafðar eru fyrir reikningsdæminu: Nú hefur verið hér á hv. Alþ. úthýtt þeim útreikningum, sem gerðir hafa verið, og þeim forsendum, sem leggja þurfti þeim til grundvallar. Það, sem hins vegar sá ráðuneytisstjóri í fjmrn. segir, að sig skorti í raun og veru, sé að fá forsendurnar fyrir útreikningi hjá hv. 11. þm. landsk. þm. Samkv. frásögn ráðuneytisstjórans vil ég, með leyfi hæstv. forseta, skýra þetta. Þar segir svo:

„Sú forsenda, sem Morgunblaðið í raun og veru gefur sér í þessum samanburði, er, að hæfileg skattvísitala 1972 sé ekki 106.5 heldur 123. Slíkri meðferð skattvísitölu hefur enginn fjmrh. treyst sér til að vita af undanfarin ár. Breyting á persónufrádrætti hjóna svarar þó til skattvísitölu 117 og sömuleiðis breyting á sérstökum frádrætti einstæðrar móður. Barnafrádráttur svarar til vísitölu 111“ Ég verð að segja það, að ég átta mig ekki á þessum forsendum hjá hv. 11. landsk. þm., hins vegar liggur nú okkar dæmi alveg fyrir, svo að það getur hver séð, hvernig með skal farið, og ætti ekki að þurfa að vera neinn vafi á því, hvernig dæmið er reiknað. Enn fremur segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Útreikningur Morgunblaðsins og Ólafs G. Einarssonar miðast að sögn við 6% afslátt frá útsvarsstiga. Þetta á við um Reykjavík, en ekki um nágrannasveitarfélögin, sem ekki veita slíkan afslátt, og þaðan af síður um staði eins og Siglufjörð, sem leggur 20% ofan á stigann.“

Ég verð að segja það eins og er, að mig skorti forsendurnar fyrir þessum útreikningum, en þær koma auðvitað í ljós við athugun á þessu máli. Ég hef hins vegar leitað álits Efnahagsstofnunarinnar á því, hvaða hreyfing mundi koma í sambandi við þessi tvö skattakerfi, og þá kemur það á daginn, sem ég hélt hér fram um daginn, að hér er ekki um stórar fjárhæðir að ræða, en samkv. þeirri uppsetningu, sem Efnahagsstofnunin hefur gert á heildarsköttunum, þ.e. tekju- og eignarskatti, tekju- og eignarútsvari, persónusköttunum og sjúkrasamlagi og öllu slíku og svo félagasköttunum, þá kemur það út úr dæminu, að í fyrra tilvikinu, ef gamla kerfið er notað, þá kemur samtals út hjá ríki og sveitarfélögum 5 milljarðar 788.8 millj. kr. Í seinna tilvikinu þegar komnir eru inn í þetta afslættir og þess háttar, þá er dæmið 5 711 millj. kr. Ef nýja kerfið er notað, þá er í fyrra tilfellinu um 5 900 millj. kr. að ræða eða 120 millj. tæplega frá því, sem var í fyrra tilfellinu, en 5 813 í síðara tilfelli, ef settir eru inn þeir afslættir, sem hugsanlega gætu verið. En það, sem skiptir mestu máli í þessu, er það, að þetta er byggt á skattalögunum, sem lagt var á eftir s.l. vor. Ef hins vegar væri lagt á eftir skattalögunum, sem afgreidd voru núna á þingi 1971, þá breyttist dæmið, því þá kæmi það út, að skattar hjá fyrirtækjum gætu lækkað um nokkur hundruð millj. kr. og það er í raun og veru þetta, sem er verið að upphefja með þessari breytingu. Það er tekið fram í áliti Efnahagsstofnunarinnar, að ekki sé um umtalsverða breytingu að ræða í heild, þegar þetta er fráskilið, en hins vegar nokkra breytingu innan kerfisins sjálfs og það sýna þau dæmi, sem útreikningarnir sýna, sem hér hafa verið lagðir fram. En það, sem um er að ræða í þessu sambandi, er það, að ef dæmið viðskipti ríkissjóðs og sveitarfélaganna er gert upp, þá hefur ríkissjóður tap af uppgjörinu, því að tekjurnar, sem ríkissjóður hefur, eru tæpur milljarður, en gjöldin um 1 300 millj. kr. En nú vil ég minna á annað. Í umr., sem hafa farið fram, og í frásögnum Morgunblaðsins, hvað er að? Það, sem er að, er það, að forsvarsmenn sveitarfélaganna, eins og hv. þm. Geir Hallgrímsson, borgarstjóri í Reykjavík, og hv. 11. landsk. þm., telja, að sveitarfélögin skorti meiri tekjur. Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta lægri skatta? Þegar viðskiptin eru þannig, að ríkið hefur minni tekjur en gjöld af breytingunni, þá get ég nú ekki reiknað dæmið á annan veg en að þetta mundi þýða hærri skatta. Ég hef hins vegar lítið svo á, að í sveitarfélagi eins og Garðahreppi mundi þessi breyting reynast hagstæð, og ég hef sagt það hér áður og get endurtekið það, að það er ekki réttmætt að hafa ekki fasteignir sem nokkurn verulegan tekjustofn. Og það hélt ég, að 11. landsk. þm., sveitarstjórinn í Garðahreppi, væri mér sammála um. Þess vegna á ég nú erfitt með að leggja það saman, að þetta eigi að þýða aukna skattbyrði, þegar dæmið sýnist svona af hlutlausum dómurum, þegar svo forsvarsmenn bæjarfélaganna og sveitarfélaganna telja sig vanhaldna, af því að þeir fái ekki nóg. Það er svo annað mál, hvort það mat er rétt. Það er ég ekki búinn að sjá, að svo verði, en ég minni á það og það kom fram í ræðu hv. 11. landsk. þm. hér um daginn, að hann taldi eins og rétt er, að sveitarfélögin hefðu óskað eftir þessum breytingum, og ég álít, að það hefði verið réttmætt að gera þessa breytingu, vegna þess að með þessu fá sveitarfélögin fastari tekjustofna og þeir tekjustofnar, sem marka stefnu í efnahagsmálum, eiga að vera hjá ríkisvaldinu, eins og hér er lagt til. En taka hv. þm. eftir einu, — hvað hefur skort á í þessar umr. og hvað skorti á í umr. Morgunblaðsins? Þar eru sett dæmi um, að ráðherra muni fá þetta, en verkamaðurinn fá hitt, en dæminu frá í fyrravor er gleymt. Hér á hv. Alþ. voru umræður um það, hvort það væri réttmætt að láta þá, sem eiga veruleg hlutabréf, fá skatthlunnindi. Það er ekki rætt nú um skattfríðindin, og meira að segja sagði hv. 1. þm. Reykv. hér í ræðu um daginn, að það hefði sennilega verið gengið of langt í þessu í fyrra, en það, sem er að gerast, er það, að persónuskattar eru felldir niður, og það er gert á kostnað hlutabréfaeigendanna, en þeir hv. stjórnarandstæðingar í Sjálfstfl. eru ekki að skýra gjaldþegnunum frá því, það hentar ekki. Það er reynt að búa til dæmi um verkamanninn með 4–5–600 þúsund, sem hafi þetta og hitt, og svo ráðh., sem hafi þetta og fari nú svona vel út úr því. Nú held ég, að það sé vonandi, að ráðh. fái vel sinn skerf, og er það sannarlega gleðilegt.

Ég vék aðeins að vinnubrögðum við fjárlagaafgreiðslu hér áðan og skal nú ekki fara að þreyta hv. alþm. með því, en hef hér hjá mér töflu um það. Í fyrra fór 3. umr. fjárlaga fram 20. des. og við afgreiddum þau þann 21. Árin 1961 og 1968 fór þetta eins fram. Árið 1964 var 3. umr. þann 21. des. og afgreiðslan 22., svo að ýmislegt hefur nú gerzt í þessu, sem ekki er ástæða til að fara að rifja upp, og ég er heldur ekki að kvarta undan, þó á sé deilt, því að það höfum við vafalaust gert líka meðan við vorum í stjórnarandstöðu. Hitt er jafn nauðsynlegt og það erum við allir sammála um, að það ber nauðsyn til að breyta vinnubrögðum við fjárlagaafgreiðslu, og ég leyfi mér að óska eftir því við hæstv. forseta þingsins, að þeir beiti sér fyrir því í vetur, þó ekki verði gerð önnur breyting á þingsköpum en sú, að undirnefnd fjvn. verði gerð samkvæmt þingsköpum og heimild sé til að kalla fjvn. þá, sem starfaði næst á þinginu á undan, til starfa áður en þing kemur saman, því það vitum við, sem lengi erum búnir að vinna að þessum málum, að það kemur æ betur í ljós, eftir því sem málaflokkarnir verða umfangsmeiri, hversu það er nauðsynlegt að vera búinn að undirbúa í upphafi þings þessa stóru málaflokka, eins og skóla, hafnir, flugvelli o.fl. o.fl., sem kostar þrotlausa vinnu og stórátök milli þingmanna innbyrðis, vegna þess að þeir eru þar að bítast um hagsmuni sinna kjördæma. Og því er ekki að neita heldur, að ýmis mistök hafa átt sér stað og geta átt sér stað í fjárlagaafgreiðslunni, sem engum hefði dottið í hug að láta henda, nema af því að skorti þar upplýsingar, sem þarf að hafa.

Herra forseti. Ég skal nú fara að stytta mál mitt, en ég minni á það, að þegar ríkisstj. kom til valda í júnímánuði í sumar, þá lýsti hún því yfir, að hún mundi virða kjarasamningana, og það gerði hún þegar í upphafi með því að breyta því; sem á skorti. Hún lýsti því einnig yfir, að tryggingabætur skyldu hækkaðar, koma til framkvæmda þau lög, sem þá voru í gildi, og sett yrði lágmarkstrygging um laun gamals fólks og öryrkja. Þetta er nú að verða að raunveruleika. Hún lýsti því yfir, að hún mundi fella niður persónuskatta, fjárlagaafgreiðslan er við það miðuð. Hún lýsti því yfir, að hún mundi lækka skatta á láglaunuðum með tilfærslu innan skattakerfisins. Skattafrv. ríkisstj. stefnir að þessu. Hún lýsti því yfir, að hún mundi stefna að því að gera skattakerfið einfaldara og sömuleiðis verkaskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga. Að þessu er einnig verið að vinna, hluta af því er verið að koma í framkvæmd, annað híður framhaldsvinnu þeirra mála. Hún lýsti því yfir, að hún mundi hækka fjárframlög til verklegra framkvæmda og félagsmála. Hún hefur gert það svo verulega, að um hrein straumhvörf er að ræða. Hún lýsti því yfir, að hún mundi reyna að tryggja vinnufrið í landinu, og þar hefur hún náð ómetanlegum árangri. Hún lýsti því yfir, að hún mundi marka stefnu í atvinnuuppbyggingu með samstarfi við atvinnurekendur. Nú hefur verið afgreidd löggjöf, sem miðar í þessa átt. Og fleira hefur verið gert af hálfu ríkisstj. í þessu skyni. Hún lýsti því yfir, að hún mundi endurskoða allt tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Mikið hefur verið unnið að því, en áfram verður haldið. Hún lýsti því yfir, að hún mundi reyna að gera afgreiðslu fjárlaga sem raunhæfasta. AS því hefur nú verið unnið. Og hún lýsti því yfir, að hún mundi gera fjárlög greiðsluhallalaus, afgreiða þau greiðsluhallalaus, og það verður einnig gert. Hún lýsti því yfir, að hún mundi vinna ötullega að landhelgismálinu. Að því máli hefur mikið verið unnið og mikið hefur áunnizt.

Að sjálfsögðu er deilt um stefnur í stjórnmálum. Við því er ekkert að segja. Ekkert skiptir eins miklu í stjórnmálunum eins og það, að borið sé traust til stjórnmálamanna um það, að þeir efni fyrirheit sín. Það má deila um stefnu ríkisstjórnarinnar, þessarar sem annarra, en það verður ekki með rökum um það deilt, að hún hefur unnið ötullega að því að standa við fyrirheit sín og koma þeim í framkvæmd, og hún hefur náð undraverðum árangri.