18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í D-deild Alþingistíðinda. (5032)

929. mál, sandgræðsla á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera fsp. til hæstv. landbrh. um sandgræðslu á Vestfjörðum. Spurt er um:

1. Hvað hefur framlag til sandgræðslu á Vestfjörðum numið hárri fjárhæð síðan lög nr. 17 1965 um landgræðslu voru sett?

2. Hvernig hefur fjárhæð þessi skipzt milli sandgræðslusvæða?

3. Verða sérstakar ráðstafanir gerðar til sandgræðslu á Sauðlauksdalssöndum í Rauðasandshreppi til að koma í veg fyrir eyðileggingu flugvallar, þjóðvegar og tveggja bújarða, sem eru nú í yfirvofandi hættu vegna sandfoks?

Tilefni þessara fsp. er það, að það er svo á Vestfjörðum sem víða annars staðar, að það þarf að vinna viss verk í sambandi við landgræðslu eða sandgræðslu. En það hefur orðið svo, að síðan lög um sandgræðslu voru sett árið 1965 hefur lítið verið um framkvæmdir eða ekkert á Vestfjörðum. Hins vegar eru þar brýn verkefni, og á ég þá sérstaklega við sandgræðslu á Sauðlauksdalssöndum.