18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í D-deild Alþingistíðinda. (5034)

929. mál, sandgræðsla á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svar hans. En ég vil leyfa mér að lýsa nokkrum vonbrigðum yfir því að fá ekki svar á þá lund, að það verði gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að vinna að sandgræðslu á Sauðlauksdalssöndum. Það er augljóst mál, að þar er brýnt verkefni, sem ekki má dragast. Þetta er öllum ljóst, eins og fram kemur m.a. í bréfi sýslunefndar Barðastrandarsýslu, sem hæstv. ráðh. las upp. Það kom ekki fram í svari ráðh., að það væru uppi fyrirætlanir um að gera nú þegar sérstakt átak. En ég tel, að það sé full þörf á því að gera nú þegar sérstakt átak, vegna þess að hér stendur sérstaklega á.

Það stendur þannig á, að það eru mikil verðmæti í hættu. Þar á ég við flugvöllinn á Sauðlauksdalssöndum, sem er mikið mannvirki og var þriðji stærsti flugvöllur landsins, þegar honum var lokið 1965, og ein af aðalframkvæmdum Vestfjarðaáætlunarinnar. Þetta mannvirki liggur undir skemmdum. Þjóðvegurinn, aðalþjóðvegurinn í Rauðasandshreppi, liggur undir skemmdum yfir Sauðlauksdalssanda, og það, sem meira er, að þó að gert sé við hann, þá eru það ekki nema stundargrið, því að sandurinn eyðir veginum jafnóðum. Og í þriðja lagi eru tvær bújarðir í yfirvofandi hættu, Kvígindisdalur og Sauðlauksdalur, og Sauðlauksdalur er ríkisjörð. Það eru því miklir hagsmunir í húfi, að hér sé eitthvað gert nú þegar.

Auk þessa má minna á það, að í Sauðlauksdal bjó á sínum tíma einn aðallandbúnaðarfrömuður þessa lands fyrr og síðar, séra Björn Halldórsson. Þá átti hann einnig við sandfok að stríða. En hann hafði framtak og manndóm til þess að snúast til varnar og lét hlaða garð til varnar sandfokinu. Sagan segir, að hann hafi Látið sóknarbörn sín gera það og það lá svo mikið á, að það var gert yfir hásláttinn, en það þótti ranglátt, eftir því sem sagan segir. Þess vegna heitir garður þessi, sem enn sér merki fyrir, Ranglátur.

Á þessum stað fóru einnig fram merkilegar ræktunartilraunir Eggerts Ólafssonar og séra Björns, þannig að það eru sérstakar sögulegar minningar bundnar við staðinn. Og það vill svo til, að það eru núna nær 200 ár síðan séra Björn Halldórsson yfirgaf Sauðlauksdal. Þá var hann búinn að búa svo um, að jörðin fór ekki í eyði og hefur verið í byggð fram til þessa dags. Mér þykir, að það sé full ástæða, auk hinna hagrænu ástæðna, í minningu um þá hluti, sem þarna gerðust fyrrum, að við sjáum metnað okkar í því að skiljast nú ekki verr við Sauðlauksdal en séra Björn Halldórsson gerði á sínum tíma.

Ég legg því áherzlu á, að hæstv. ríkisstj. geri ráðstafanir til þess, að hendur verði látnar standa fram úr ermum þegar á næsta sumri. Ég læt ósagt, að ýmislegt annað, sem hæstv. ríkisstj. aðhefst á næsta sumri, geti ekki orðið talið ranglátt. En ég vil fullvissa hæstv. ríkisstj. um það, að þetta verk verður ekki talið ranglátt. 48. Kjarnfóðurinnflutningur.