21.03.1972
Sameinað þing: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í D-deild Alþingistíðinda. (5042)

926. mál, lausn Laxárdeilunnar

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram formlega fsp. til hæstv. forsrh. á þskj. 438 á þá lund, hvað líði samningi um lausn Laxárdeilunnar á þeim grundvelli, sem ríkisstj. hefur gert samþykkt um. Grundvöllurinn að samþykkt ríkisstj. um lausn Laxárdeilunnar er skriflegt samkomulag, sem í skjali því heitir uppkast að samningi, sem gert var í okt. í haust á milli stjórnar Landeigendafélags Laxár og Mývatns og iðnrh. En gildi þess skjalfesta samkomulags felst í því, að iðnrh., Magnús Kjartansson, hét því að höfðu samráði við forsrh., Ólaf Jóhannesson, að beita sér fyrir lausn Laxárdeilunnar innan ríkisstj. á grundvelli þess samkomulags. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að lesa ákvæði þessa samkomulags, — þau ákvæði þess, sem eru almenns eðlis, — en í heild er það hvorki meira né minna en röskar þrjár vélritaðar fólíósíður. Ákvæði sem sagt almenns eðlis:

1. gr. Aðilar samnings þessa eru annars vegar íslenzka ríkið og Laxárvirkjun og hins vegar Landeigendafélag Laxár og Mývatns í Suður-Þingeyjarsýslu. Markmið samnings þessa er að binda endi í eitt skipti fyrir öll á alla þætti deilunnar um virkjanir í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu.

3. gr. Samningsaðilar eru sammála um, að þeir þurfi allir að slaka á kröfum sínum í deilunni, til þess að sættir geti orðið. Þeir eru sammála um, að samningur þessi sé gagnkvæmur, forsenda samkomulags sé gagnkvæmar fórnir af beggja hálfu. Samningsaðilar eru einnig sammála um, að samningur þessi hafi bæði siðferðilegt og lagalegt gildi. Að samningnum standa aðilarnir þrír sem fullkomnir lögaðilar (juridiske personer).

4. gr. Megintilslökun Landeigendafélagsins er niðurfelling lögbanns þess, sem félagið fékk hinn 16. júní 1971 lagt við því, að breytt sé rennsli Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, vatnsborði hennar, vatnsmagni eða straumstefnu og jafnframt samþykkir Landeigendafélagið, að starfrækt verði 6.5 megawatta virkjun í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu.

5. gr. Megintilslökun Laxárvirkjunar og íslenzka ríkisins er sú, að þessir aðilar fallast á, að aldrei verði fyrirhugaðar, undirbúnar né stofnað til frekari virkjunarframkvæmda í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu né af hálfu stofnana, sem þessir aðilar eiga þátt í að koma á laggirnar. Í samningi þessum fallast því íslenzka ríkið og Laxárvirkjun á að hverfa endanlega frá virkjunaráætlunum þeim, sem nefndar hafa verið Gljúfurversáætlun og áætlun um Laxá III.

Þetta eru aðalákvæðin almenns efnis í því samkomulagi, sem náðist á milli landeigenda og iðnrh. í okt. í haust. Á grundvelli þessa samkomulags gerði ríkisstj. eftirfarandi samþykkt á fundi 16. nóv. í vetur, með leyfi forseta:

Ríkisstj. samþykkir, að haldið skuli áfram sáttatilraunum í Laxárdeilu. Við sáttatilraunir skal byggt á eftirfarandi meginatriðum:

að ekki verði stofnað til frekari virkjunarframkvæmda í Laxá en nú hafa verið leyfðar nema til komi samþykki fyrirsvarsmanna landeigenda og Náttúruverndarráðs:

að niður verði felld málaferli þau, sem risið hafa í sambandi við virkjunarframkvæmdir:

að ríkið greiði deiluaðilum hæfilega fjárhæð vegna þess kosmaðar, sem þeir hafa haft af málaferlum í sambandi við þetta deilumál;

að gerður skuli fiskvegur fram hjá virkjununum við Brúar í Aðaldal upp í Laxárgljúfur, og verði stuðzt við álit vísindamanna um þá framkvæmd;

að settar verði reglur um verndun Laxár- og Mývatnssvæðisins.

Jafnframt hefur iðnrn. ákveðið að láta nú þegar kanna skipulega virkjunaraðstæður norðanlands.

Verður lögð sérstök áherzla á að vinna að undirbúningi fullnaðaráætlunar um virkjun við Dettifoss, en forsenda slíkrar virkjunar er samtenging orkuveitusvæða.“

Síðan þessi ríkisstjórnarsamþykkt var gerð, eru liðnir fjórir mánuðir. Allan þann tíma hefur verið haldið áfram framkvæmdum við Laxárgljúfur, sem miða raunverulega að þess háttar virkjun, sem iðnrh. hefur heitið að beita sér gegn og sjálf ríkisstj. hefur samþykkt, að ekki skuli rísa. Þess vegna inni ég nú hæstv. forsrh. eftir því, hversu miðað hafi áfram viðleitni ríkisstj. til þess að koma af höndum sér þeim mikla vanda, sem hún erfði frá fyrrv. ríkisstj. í mynd Laxárdeilunnar.