21.03.1972
Sameinað þing: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í D-deild Alþingistíðinda. (5044)

926. mál, lausn Laxárdeilunnar

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka svör forsrh. við fsp„ þó að ég hefði kosið, að þau hefðu getað orðið öllu ítarlegri. Ég staðhæfi enn og get kvatt til vitni að því, að samkomulag var gert, þó að ekki væri undirskrifað plagg það, sem ég las upp úr áðan, milli iðnrh. og stjórnar Landeigendafélagsins í okt. í haust um grundvöll að samkomulagi, sem iðnrh. kvaðst hafa borið undir forsrh. og kvaðst mundu fylgja fram, eftir því sem hann gæti, til sáttanna. Það væri sjálfsagt ósanngjarnt að ætlast til þess, að núv. ríkisstj. leysti á einu augabragði vandamál, sem legið hefur jafnlengi í kös og þetta eða allar götur frá árinu 1967, að fulltrúi Laxárvirkjunar tilkynnti bændum í Laxárdal, að dalnum þeirra yrði sökkt undir vatn samkv. heimild í lögum um Laxárvirkjun nr. 60 frá 1965, þar sem heimilað er í 4, gr. að virkja allt að 12 megawöttum í ánni.

Hér gefst ekki tími til, nema í mjög stuttu máli, að segja söguna um baráttu fólksins við Laxá og Mývatn til varnar lífi sínu og landsins, sem það byggir, alla tíð síðan Gljúfurversáætlunin svonefnda var gefin út í jan. 1969, en þar er kveðið á um 54.6 mw. virkjun í Laxá og verði fyrsti áfangi hennar 6.5 mw.

Röskum tveimur misserum eftir birtingu Gljúfurversáætlunar gaf atvmrn. út leyfi til þess að virkja allt að 7 mw. í Laxá samkv. lögum frá 1965. Í leyfinu er tekið fram sérstaklega, að engin fyrirheit séu gefin um leyfi til stærri virkjunar en lögin heimila og að aukakostnaður vegna grunns að stærri virkjun sé því á áhættu Laxárvirkjunar. Þessi fyrirvari er merkilegur vegna þess, hversu erfitt er að átta sig á því, hvort í honum felst samþykki rn. við fyrirhuguðum lögbrotum eða aðvörun gegn afleiðingum þeirra. Sé fyrirvarinn ekki sprottinn upp úr öðru verra en heilagri einfeldni, sem við skulum vona að sé vegna þeirra, sem sömdu hann, þá minnir hann óneitanlega nokkuð á aths. konunnar fyrir vestan, sem sagði um leið og hún fór út: „Verið þið svo ekki að troða baunum upp í nefið á ykkur krakkar, á meðan ég er í burtu.“ — Og náttúrlega kom í ljós strax við útboð verksins veturinn 1969–1970, að stjórn Laxárvirkjunar túlkaði fyrirvarann sem heimild af hálfu rn. til undirbúnings að virkjun umfram það, sem lög leyfa. Í útboðinu var því reiknað með Gljúfurversvirkjun, 54.6 mw. virkjun, með Suðurárveitu og eyðingu Laxárdals.

Þá um vorið stofnuðu bændur á svæðinu félag til þess að tryggja verndun Laxár og Mývatns í sinni upprunalegu mynd með því m.a., eins og segir í félagssamþykktum, að koma í veg fyrir hvers konar stíflugerð í Laxá og náttúruröskun. Síðan hefst svo tímabil einkennilegrar málsmeðferðar, þar sem unnið hefur verið við Laxárgljúfur að gerð jarðganga til þess að veita saman Laxá og Suðurá að Gljúfurversvirkjun undir því yfirskini, að jarðgöngin geti líka flutt lögheimilað vatn að lögheimilaðri 7 mw. virkjun. Pantaðar voru 54.6 mw. aflvélar til Gljúfurversvirkjunar með þeirri afsökun, að þær geti líka framleitt 6.5 mw. orku. Sem dæmi um það, hvernig lögfræðin sjálf og fall hennar var virkjuð í þágu hinnar verkfræðilegu réttvísi í þessu máli, skal þess getið, að Hæstiréttur hefur orðið að hrinda þremur setudómaraúrskurðum, sem miðuðu að því að hindra bændur í því að ná lögvernd í málinu. Einn dómurinn var á þá lund, að kröfur Landeigendafélagsins um að fá virkjunarframkvæmdir dæmdar ólögmætar skuli ekki teknar til greina, vegna þess að málflutningur landeigenda sé skriflegur, en ekki munnlegur. Tveir dómanna miðuðu að því að koma í veg fyrir, að bændur gætu sett lögbann við breytingum á farvegi Laxár, í seinna skiptið, eftir að Hæstiréttur hafði dæmt bændum lögbannsheimildina, var dæmt á þá lund, að þeir skyldu setja 135 millj. kr. tryggingu, ef lögbannið ætti að ná fram. Þeim úrskurði hratt Hæstiréttur einnig.

Í þessu sambandi er e.t.v. rétt að minna á það, að landeigendur urðu að gripa til þeirra ráða, til þess að ná eyrum landsfeðranna í þann mund, sem þeir þóttust sjá fram á, að verið væri að knésetja þá á bekki réttvísinnar, að kveikja í smá dýnamitsprengju upp við Miðkvísl. (Forseti: Hv. þm. hefur talað í 41/2 mín.) Það helzt svo nokkurn veginn í hendur í fyrravor, að Landeigendafélagið lagði lögbann við vatnstöku úr Laxá og iðnrh., sem þá var, gaf út nýtt leyfi til virkjunar í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu. Frábrigðin frá fyrra leyfinu felast í því, að það, sem áður hét Gljúfurversvirkjun, hét nú Laxá III. Leyfið gaf ráðh. út tveimur dögum eftir alþingiskosningarnar, þar sem stjórn hans missti meiri hluta sinn. Að dómi Sigurðar Gizurarsonar lögfræðings þeirra landeigenda, sem gert hefur Laxármálin að sérgrein sinni, er það leyfi engu siður ólöglegt en hitt frá árinu 1969.

Strax og ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hafði verið mynduð í fyrrasumar, sneri stjórn Landeigendafélagsins sér til iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar, með kröfu um, að ríkisstj. léti stöðva ólöglegar virkjunarframkvæmdir við Laxá. Iðnrh. fór þess aftur á móti á leit, að landeigendur féllust á, að virkjuð yrðu þau 6.5 mw., sem heimild hafði verið veitt til. Á það féllust bændur með því skilyrði, að hætt yrði við gerð jarðganganna miklu, sem miðuð eru við Gljúfurversvirkjun, og til virkjunarinnar yrðu notaðar vélar, sem hentuðu 6.5 mw. virkjuninni. Vöktu þeir m.a. athygli á því, að verksmiðjan, sem framleiddi stóru vélarnar, ábyrgðist gæði þeirra aðeins miðað við 5.6 mw. framleiðslu. (Forseti: Hv. þm. hefur talað í 5 mín., og þingsköp segja, að ræðutími í fsp. skuli vera 5 mín. Ég gef hv. þm. 1/4 úr mín. til að setja skaplegan endi á ræðuna.)

Skaplegan endi á ræðuna skulum við kalla þá aths., að nú eru sem sagt liðnir fjórir mánuðir síðan samþykktin var gerð í ríkisstj. og nær fimm mánuðir síðan samkomulagsgrundvöllurinn náðist milli bænda og iðnrh., sem ég staðhæfi enn, að hafi náðst. Allan þann tíma hefur verið haldið áfram að vinna við stóru jarðgöngin, og stóru vélarnar eru komnar til landsins, án þess að bændur hafi enn fengið upp á skrifað trygginguna góðu fyrir því, að látið verði staðar numið við virkjun í Laxá.