25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í D-deild Alþingistíðinda. (5070)

931. mál, hækkun á verðlagi

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Fsp.-tími gefur nú ekki mikla möguleika til umr., en það er vissulega margt, sem í hugann kemur, þegar þessar upplýsingar eru gefnar, sem hæstv. viðskrh. hefur gefið. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vildi drepa á í því sambandi. Annað atriðið skiptir kjarna málsins eða þann vanda, sem hæstv. ráðh. segir, að hafi verið eftir skilinn af hálfu fráfarandi ríkisstj. Ég vil í því sambandi minna á, að haustið 1970, þegar verðstöðvunin var lögfest, þá var flutt af hálfu þessa hæstv. núv. ráðh. og flokksbræðra hans frv. um það hér á Alþ. og því haldið ákveðið fram, að það hefði verið ástæðulaust og væri ástæðulaust að leyfa verðhækkanir vegna kauphækkana um vorið 1970. Þær kauphækkanir hefðu verið eðlilegar og atvinnuvegirnir og þeir aðilar, sem að þeim launahækkunum hefðu staðið eða samþykkt, gætu tekið þær hækkanir á sig. Það var sem sagt gert ráð fyrir af þeim aðilum þá, þegar aðrir fóru með stjórn landsins, að það væri mögulegt að framkvæma kauphækkunina vorið 1970, án þess að til neinna hækkana ætti að koma af þeim orsökum.

Nú er því hins vegar haldið fram af þessum sama hæstv. ráðh., að þessum hækkunum vegna kauphækkana 1970 hafi verið safnað fyrir og það sé fráfarandi ríkisstj. að kenna og það hafi verið óumflýjanlegt að leyfa þessar hækkanir. Með þessu er ég ekkert að deila á það út af fyrir sig, að þessar hækkanir hafi verið leyfðar. Það hefur vafalaust verið nauðsynlegt og eðlilegt, en þetta er auðvitað allt önnur röksemdafærsla, og hæstv. ráðh. og flokksbræður hans hafa fallið frá þeim rökum, sem þá var haldið fram, að hægt væri að framkvæma verðstöðvun með þeim einfalda hætti að banna algerlega að færa út í verðlagið allar hækkanir, sem leitt höfðu af kauphækkuninni 1970.

Hitt atriðið var mál, sem hv. 7. þm. Reykv. kom inn á, en það er spurningin um þau tæplega 4 vísitölustig, sem kaupið lækkar um að öðru óbreyttu vegna niðurfellingar á nefsköttum, almannatryggingagjöldum og sjúkrasamlagsgjöldum. Um þetta hafa áður orðið umr., og ég átti nokkrar umr. um það í hv. Ed. við núv. hv. forseta Alþýðusambands Íslands, hver væri afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þessa máls, og ef ég man rétt, komst hann svo að orði, að hún mundi ekki una því, að vísitalan yrði skert sem þessu næmi við niðurfellingu þessara gjalda nema að svo miklu leyti, sem skattalækkanir kæmu á móti. Nú held ég, að varla sé nokkur Íslendingur finnanlegur, sem er svo bjartsýnn að halda, að skattar lækki. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er það bjartsýnn enn í dag. En ég skal fúslega fallast á þau rök, að ef slík hlunnindi kæmu á móti, þá væri eðlilegt að taka tillit til þessa. En að öðru leyti hélt hv. forseti Alþýðusambandsins því fram, að verkalýðshreyfingin mundi ekki una öðru en fá þá bætt upp þessi 3.6 eða 4 vísitölustig, sem þar var um að ræða.

Nú finnst mér eitt vera villandi í þessu máli, eða a.m.k. hef ég ástæðu til þess að halda það, þegar sagt er, að beðið sé úrskurðar kauplagsnefndar. Ég efa nefnilega stórkostlega, að kauplagsnefnd hafi nokkra möguleika til að taka þetta til greina. Það er a.m.k. mikið vafamál, vegna þess að beinu skattarnir eru ekki í vísitölugrundvellinum. Hin gjöldin eru aftur á móti í grundvellinum, og það er staðreynd, að þau eru ekki lengur greidd, og þar af leiðandi falla niður útgjöld vísitölufjölskyldunnar vegna þessara nefskatta. Ég held því, að það sé a.m.k. mikið vafamál. að hægt sé að segja, að menn bíði bara úrskurðar kauplagsnefndar, vegna þess að það sé efasamt, að hún geti eða muni telja sér fært að taka tillit til þessara breytinga, sem hér verða.

Nú vildi ég þess vegna leyfa mér að varpa fram þeirri fsp. til hæstv. viðskrh„ hvort það sé ætlun ríkisstj., ef kauplagsnefnd tekur þetta ekki til greina, þetta tap, sem launþegar hafa þarna orðið fyrir, að beita sér fyrir því, að vísitalan verði hækkuð sem þessu nemur. Í þessum orðum mínum felst þó ekki ádeila um það eða kröfugerð, heldur aðeins spurning um ákveðnar staðreyndir og í tilefni af þeirri ályktun, sem Alþýðusamband Íslands hefur gert varðandi þetta mál.