25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í D-deild Alþingistíðinda. (5073)

931. mál, hækkun á verðlagi

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég hef ekki hjá mér nákvæmlega ummæli, sem hæstv. núv. viðskrh. lét falla haustið 1970 um verðhækkanirnar, en ég man það samt, að efnislega kom það margoft fram í sambandi við frv., sem hann og flokksbræður hans fluttu þá hér um verðstöðvun, að þeir teldu, að kauphækkununum, og það er ekki ný kenning hjá þeim, ætti ekki að velta út í verðlagið. Kauphækkanirnar 1970 voru að þeirra mati þá alls ekki óeðlilegar kauphækkanir. En að halda því þá fram nú, að það hafi verið óeðlilegt að leyfa þá verðhækkanir, leyfa þeim þá að fara út í verðlagið, þeim verðhækkunum, sem fyrr. ríkisstj. samþykkti þá, en það sé hins vegar allt í lagi með þær verðhækkanir, sem núv. ríkisstj. hefur samþykkt, það skal ég láta liggja á milli hluta.

Þegar aftur kom að því að svara síðara atriðinu, sem ég gerði að umtalsefni, þá fannst mér hæstv. ráðh. taka nokkuð óljóst til orða og sannast sagt nokkuð villandi, vegna þess að það er auðvitað ekkert sambærilegt að ræða um það, þó að kauplagsnefnd hafi tekið til greina skerðingu á tryggingum bifreiða, vegna þess að þar er um bein útgjöld að ræða á útgjaldalið, sem gert er ráð fyrir í vísitölugrundvellinum. En ég leyfi mér að efast stórlega um varðandi skatta og varðandi nefskattana, að kauplagsnefnd taki það til greina. Það er gott og blessað, ef hún gerir það. En ég sé ekki betur og spyr, það upplýsist þá frá hæstv. ráðh., ef ég fer með rangt mál, — hvort ekki sé gert ráð fyrir því í þessum áætlunum um hækkun vísitölunnar nú á næstu mánuðum, að neinar bætur komi launþegum til handa í sambandi víð þessi 4 vísitölustig eða tæplega það, sem af þeim voru tekin. Það virðist vera gengið út frá því í þessum útreikningum, að þau verði ekki bætt, að kauplagsnefnd taki slíkt ekki til greina og ríkisstj. þá ekki fyrir sitt leyti stuðli að því, að þetta verði tekið til greina. Þetta sýnist mér vera staðreynd, sem alveg blasi við, ef við athugum þær tölur, sem gengið er út frá varðandi áætlaða hækkun kaupgjaldsvísitölunnar.