25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í D-deild Alþingistíðinda. (5079)

254. mál, vátrygging fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör, sem hann hefur gefið við fsp. minni, og ég vænti þess mjög, að á þessu þingi verði þessum málum komið í það horf, sem hann telur, að þurfi að gera með breyttri löggjöf, að svo miklu leyti sem það verður ekki gert með reglugerðarákvæðum.

Eftir því sem ég hef getað gert mér grein fyrir tryggingamálum fiskiskipaflotans, þá tel ég, að þau hafi nokkuð farið úr skorðum hin síðari ár og fiskiskipaflotinn búi kannske í dag við óhagstæðari kjör, vátryggingarkjör, en ef um væri að ræða tryggingar á frjálsum markaði, eins og áður var, og skipaeigendur hefðu sjálfir með sínar tryggingar að gera. En ég endurtek, að ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sjái svo um, að nauðsynlegri löggjöf verði þegar á þessu þingi komið fram, ef þess þarf með, til úrbóta og til lækkunar á iðgjöldum fiskiskipaflotans, eins og segir í málefnasamningi stjórnarinnar.