20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

1. mál, fjárlög 1972

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér tvær brtt. Fyrri brtt. er flutt af mér og fimm öðrum þm. Sjálfstfl. þess efnis, að nýr liður komi inn til Byggingarsjóðs aldraðra, 18 millj., og sundurliðun verði á þá leið, að til nýbygginga við elliheimili á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Egilsstöðum komi 4 millj. á hvern stað og til Sauðárkróks, Borgarness og Fellsenda í Dalasýslu 2 millj. á hvern stað. Á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. 10. þm. Reykv. frv. til l. um breytingu á lögum um Byggingarsjóð aldraðra, á þá leið, að heimilt er að veita allt að helming af árstekjum Byggingarsjóðs aldraðra sem styrk til byggingar elliheimila. Jafnframt boðuðum við það í sambandi við umr., sem urðu um meðferð þessa máls á þingi, að við hygðumst flytja frv. um það, að tekjur þessa byggingarsjóðs yrðu auknar frá því, sem verið hefur, fyrst og fremst vegna þess, að nú er að fara af stað bygging elliheimila, og tvö elliheimili hafa verið reist á síðustu árum, sem hafa sáralítinn styrk fengið eða engan frá opinberum sjóðum, en hitt er rétt, að á fjárlögum hefur ekki verið veitt til byggingar elliheimila, aðeins lítilfjörlegur rekstrarstyrkur til þessarar starfsemi, en ég hygg, að það muni ekki verða beint aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, þó að það verði tekið upp að veita fjármagn til Byggingarsjóðs aldraðra og á þann hátt að stuðla að því, að elliheimili rísi, bæði fyrir forgöngu sveitarfélaga og ýmissa annarra góðgerðarfélaga eða félaga, sem hafa látið þessi mál til sín taka, því að það mun létta mjög á sjúkrahúsum, að elliheimili rísi, og dvalarkostnaður í þeim stofnunum er auðvitað ólikt lægri en í sjúkrahúsum, þannig að hér á ekki að vera um ný eða mikil útgjöld að ræða fyrir ríkissjóð.

Það kom fram einnig á þessu síðasta þingi í sambandi við umr. um þessi mál og m.a. frá núv. hæstv. fjmrh., að hann hefði mikinn hug á því að auka tekjur Byggingarsjóðs aldraðra, og einnig kom fram, þegar frv. var til meðferðar í Ed., till. um, að ríkið greiddi ákveðna upphæð, sem er mjög áþekk þeirri upphæð, sem við leggjum nú hér til, till. frá hv. 1. þm. Vesturl. um þessi efni. Það var mjög eðlilegt, að áhugi væri fyrir þessu máli hjá þessum tveimur hv. þm., vegna þess að í því kjördæmi, sem þeir eru þm. fyrir, hafa verið á undanförnum árum í byggingu tvö elliheimili, svo að þeir hafa vafalaust betur en margir aðrir kynnzt því, hvað það hefur verið stórt og erfitt verkefni fyrir heimamenn að standa undir þessum byggingarkostnaði.

Ég vænti þess með tilliti til þeirra undirtekta, sem þetta mál fékk á síðasta þingi, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihluti taki tillit til þessa máls, áður en gengið verður hér endanlega til afgreiðslu fjárlaga á morgun.

Hinni till., sem ég hef leyft mér að flytja, er ég einn flm. að, en það er, að gjaldfærður stofnkostnaður til Íþróttakennaraskóla Íslands hækki úr í millj. kr. í 5 millj. kr. Á undanförnum árum hefur verið veitt töluvert fé til byggingar heimavistarhúsnæðis við Íþróttakennaraskóla Íslands, og nú er þessari byggingu lokið að verulegu leyti, en þó mun þurfa um í 250 þús. kr. til þess að ganga endanlega frá byggingunni. Inni í fjárlagafrv. er 1 millj. kr., en það mun vanta upp á, að því er skólastjóri íþróttakennaraskólans hefur tjáð fjvn., um 250 þús. kr. Í fjárlagatillögu skólastjóra Íþróttakennaraskóla Íslands lagði hann til, að framlög á fjárlögum ársins 1972 yrðu hækkuð um 4.5 millj. vegna framkvæmda við þennan skóla. Og hann segir í bréfi sínu til fjvn., að það sé knýjandi nauðsyn að byggja skólahús og íbúð fyrir kennara. Enn þá, næstum 30 árum eftir að Íþróttakennaraskóli Íslands varð ríkisskóli, fer öll bókleg kennsla fram í bráðabirgðahúsnæði, og síðasta aldarfjórðunginn hefur öll bókleg kennsla og fyrirlestrar farið fram í búnings- og baðherbergjum, sem byggð voru við íþróttahús skólans. Aðstaða fyrir nemendur og kennara er mjög bágborin, og því gerir hann þessa till. um fjárveitingu að upphæð 4.5 millj. kr.

Eins og ég sagði áðan, hafa verið allmyndarlegar fjárveitingar síðustu 4 árin til Íþróttakennaraskólans að Laugarvatni, þannig að þessum myndarlegu framkvæmdum við heimavistarhúsnæðið er nú að ljúka, og þeim er að verulegu leyti lokið. En þá má heldur ekki hætta fjárveitingum til uppbyggingar þessum eina íþróttakennaraskóla á landinu, eins og gert er með fjárlagafrv. og till. meiri hl. fjvn., sem vildu á engan hátt taka þetta erindi til greina. Ég hef ekki haft mikla löngun til að flytja margar brtt. við fjárlagafrv., þó að það sé margt svo sem, sem maður vill hafa á annan hátt, en ég verð að segja það, að ég gat ekki stillt mig um að flytja þessar tvær brtt., vera meðflm. að brtt. um framlag til Byggingarsjóðs aldraðra og svo aftur að þessari brtt. um aukið framlag til framkvæmda við Íþróttakennaraskóla Íslands. Ég tel það mjög lofsvert hjá hæstv. fjmrh., að hann hefur stuðlað að því að hækka framlög til íþróttastarfsemi, bæði til Íþróttasambandsins og Íþróttasjóðs og met það mjög við hann. En það má ekki bitna á uppbyggingu þeirri, sem er við eina íþróttakennaraskólann í landinu. Þá er verið að fara eitt skref áfram og eitt skref aftur á bak. En ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. í því, sem hann hefur lagt til á öðrum sviðum í þessum málaflokki, og það hefur hann að mínum dómi gert vel.

Ég vil svo ekki hafa þessi orð fleiri, en út af því, sem minn ágæti vinur sagði hér áðan, hv. 2. þm. Norðurl. v., þegar hann mælti fyrir þeim brtt., sem hann flytur við fjárlögin, þá sagði hann, að þegar hann hefði verið í fjvn., þá hefði hugarfarið til kvenna verið ólíkt betra en nú, eða eitthvað í þessa áttina, og þá átti hann við þær till., sem fjvn. hefur gert í sambandi við framlög til húsmæðraskóla almennt. Ég skal játa það, að þegar þessu fé, framlögum til framkvæmda við húsmæðraskólana, var skipt, þá vantaði mjög upplýsingar fyrir fjvn., og því lækkaði þessi liður verulega. Um hitt er ég sammála meiri hl. fjvn. og þá menntmrn., að við getum ekki lagt til að leggja í stórar og nýjar framkvæmdir við húsmæðraskóla í landinu, vegna þess að sumir þessir skólar eru alls ekki fullsetnir nú á síðustu árum. En það breytir því ekki, að þær till., sem hv. þm. hefur hér flutt, eru mjög sanngjarnar, og það eru að mínum dómi alger mistök að hafa ekki tekið þessa upphæð til Húsmæðraskólans á Blönduósi og sömuleiðis til Húsmæðraskólans á Löngumýri, ef ekki sem stofnkostnaðarframlag, þá auðvitað hefði þurft að hækka viðhaldskostnað í húsmæðraskólum, en hann var í fjárlögum yfirstandandi árs 3.7 millj. kr., en samkv. fjárlagafrv. hækkar hann ekki um nema 307 þús. kr., sem auðvitað er engan veginn til þess að fylgja eftir þeim verðlagsbreytingum, sem orðið hafa frá því að fjárlagafrv. fyrir 1971 var til afgreiðslu hér á hv. Alþ. Ég fyrir mitt leyti get alveg tekið undir þessar till., og ég vildi það í hv. fjvn., því að þessi hv. þm. flutti ekki þessar till. við 2. umr., heldur sendi þær beint til n. með ósk um það, að hún athugaði þessar till. fyrir 3. umr. og gerði þær að sínum. En þetta varð nú niðurstaðan í n., og ég tel fyrir mitt leyti, að hún hafi verið mjög ósanngjörn. Sömuleiðis vil ég nefna þá till. hv. þm. að veita 430 þús. kr. til Sjúkrahússins á Sauðárkróki, ég tel það líka hafa verið hrein mistök, að sú till. var ekki tekin upp af fjvn. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta.

Ég verð nú að segja, að ég vissi, að hæstv. núv. fjmrh. er hraustur maður og skeleggur, en ég hélt ekki, að hann væri eins hraustur og ræða hans hér gaf tilefni til að ætla, því að það var ekki að sjá, að það væri neinn bilbugur á karli, þegar hann ræddi um fjárlagafrv., sem hér er nú til 3. umr. Hann talaði mikið um það ófremdarástand, sem hefði verið á undanförnum árum hjá fyrrv. ríkisstj., og þá auðvitað sérstaklega og um leið hjá fyrrv. hæstv. fjmrh., hvað margír útgjaldaliðir hefðu verið vanáætlaðir og hve mikil óvissa hefði verið ríkjandi á svo mörgum sviðum. Dettur nokkrum þm. í hug, stjórnarsinna, stjórnarandstæðingi eða hæstv. fjmrh., að þetta fjárlagafrv. nái yfir öll væntanleg útgjöld, sem verða á árinu 1972? Nei, ég er viss um, að ekki einum einasta þm. dettur það í hug. Við vitum, að það eru svo miklar breytingar á verðlagi fram undan, að það eru meira en milljónatugir, sem á vantar til að mæta þeim breytingum, frekar milljónahundruð. Þessu veit ég, að hæstv. fjmrh. hefur gert sér fulla grein fyrir, þó að hann nefndi það ekki í sinni ræðu, sem hann hélt hér áðan.

Hæstv. fjmrh. spurði, hvort við sjálfstæðismenn og fyrrv. stjórnarsinnar hefðum mestan áhuga á því að halda áfram niðurgreiðslum á vöruverði, þegar við værum að fjargviðrast yfir því, að í till. meiri hl. fjvn., auðvitað samkv. boði ríkisstj., eru lækkaðar niðurgreiðslur á vöruverði um 450 millj. kr. Ég segi fyrir mitt leyti og ég hygg, að ég megi segja það fyrir hönd Sjálfstfl., að Sjálfstfl. hefur engan sérstakan áhuga á því að viðhalda alveg endalaust niðurgreiðslum á vöruverði, eins og verið hafa. Hins vegar höfum við, og þá sennilega stjórnarsinnar líka, töluverðar áhyggjur af því, hvað fylgir í kjölfar þessarar lækkunar á niðurgreiðslum. Verður ekki stórfelld hækkun á vörum að sama skapi? Verður ekki stórfelld hækkun og aukin dýrtíð í landinu? Það er það, sem við höfum mestar áhyggjur af, ekki það, að við þolum ekki, að dýrtíð vaxi, eins og hún vex í kringum okkur, vex með öðrum þjóðum, sérstaklega viðskiptaþjóðum okkar. Það er ósköp eðlilegt, að við, lítil þjóð, sem erum ekki sterkari en við erum í raun og veru, við verðum að fylgja þar straumnum. En það, sem skiptir auðvitað mestu máli, er það, að dýrtíðin hér á landi verði ekki margfalt meiri og ofsafengnari en hún er hjá þeim þjóðum, sem við erum helzt að miða við og eigum viðskipti við. Það er þetta, sem við sjálfstæðismenn höfum mestar áhyggjur af, hæstv. fjmrh. Í sannleika sagt furða ég mig ekkert á því, að fjárlög hækki frá ári til árs. Við vitum það, að verðgildi peninga er alltaf að minnka, ekki eingöngu á Íslandi, heldur í öllum löndum heims, meira að segja, þar sem ríkisvaldið er sterkt, eins og í Austur-Evrópuríkjunum, þar er verðgildi peninga að minnka. Þar er einnig vaxandi dýrtíð, þó að hún sé ekki eins mikil og hún er hjá þjóðum, sem búa við frjálsræði, eins og við gerum og aðrar vestrænar þjóðir.

Það, sem mér finnst á skorta hjá hæstv. fjmrh., þegar hann talar um hækkun útgjalda, er, að það sé eins og þetta hafi allt saman gerzt áður og því eigi þetta að gerast, og þetta sé ekkert í raun og veru meiri hækkun en áður hefur verið. Ég skal vera fyllilega sanngjarn við hann. Ég veit, að það er erfitt að stjórna fjármálum, það er enn erfiðara að gera það í ríkisstj. þriggja flokka heldur en tveggja. Bezt væri, að það væri ríkisstj. eins flokks, því að auðveldast er að stjórna á þann veg, því að það þarf auðvitað að láta eftir svo mörgum til þess að ná samkomulagi um hlutina og afgreiðslu mála, og því er það ekki óeðlilegt í þjóðfélagi, sem alltaf er að færast meira og meira í fang, fá nýja útgjaldaliði, að fjárlög hækki. En ég held, að það verði ekki sagt, og þá á hæstv. fjmrh. þar ekki nema kannske mjög litla sök á, að núv. hv. stjórnarflokkar hafi sýnt hógværð og lítillæti í sambandi við útgjöld fjárlaga. Ég held, að þar hafi allir verið á fleygiferð að bjóða upp hver fyrir öðrum, og ef þessi hefði boðið þetta, þá hefði bara verið lýst eftir næsta boði, og það hefði aldrei staðið á því. Og það er ekki enn þá búið að segja „fyrsta, annað og þriðja“, darraðardansinn heldur áfram. Þess vegna er allt að fara úr skorðunum, eins og raun ber vitni. Þetta er ekki sök eins manns. Þetta er ekki sök þess manns, sem situr í stól fjmrh. Hann ræður engan veginn við þetta hugarfar, sem er ríkjandi í þessum herbúðum.

Hitt finnst mér öllu lakara með jafnágætan mann og hæstv. fjmrh. er, þegar hann ræðir um skattamálin almennt og þær geigvænlegu breytingar, sem eru að verða á sköttum fólksins, sem byggir þetta land, hvað hann gerir lítið úr því, hvað skattarnir eru að hækka. Í raun og veru héldi almenningur, ef hann hefði aðeins hlýtt á talsmenn ríkisstj., að það væri eiginlega ekki um nokkrar skattahækkanir að ræða, heldur öllu frekar stórfellda skattalækkun, nema hjá einhverjum, sem hafa mjög háar tekjur, að þar verði einhver hækkun. Ég held, að það væri nú rétt að nefna þessu til stuðnings, að í fjárlögum yfirstandandi árs, 1971, er áætlaður tekjuskattur einstaklinga 961 millj. 600 þús. kr. Í fjárlagafrv., sem núv. hæstv. ríkisstj. lagði fram hér á fyrsta degi þingsins í haust, eru tekjuskattar einstaklinga áætlaðir Í milljarður 468 millj. 120 þús. kr. og núna, eftir að margir eiga að fá lækkun skatta og nokkrir, bara fáir, nokkra hækkun skatta, þá er áætlað, að tekjuskattur einstaklinga verði 2 milljarðar 677 þús. kr. Nú held ég, að það fari ekki á milli mála, hver hækkunin er frá fjárlagafrv. á þessum eina tekjulið fjárlaga, úr 961 millj. upp í 2 677 millj., og þá held ég, að hver og einn geti spurt sjálfan sig, hvort hann eigi ekki von á því að fá töluvert til viðbótar, þegar skattseðillinn kemur út í vor, og skal ég svo hvorki þreyta hæstv. fjmrh. eða aðra frekar á þessum eina lið.

Það er staðreynd, að nú eru fram undan allmiklar hækkanir og þá alveg sérstaklega í atvinnulífinu. Og það er líka fram undan mjög alvarleg ákvörðun fyrir ríkisstj. að taka í sambandi við lækkun Bandaríkjadals. Við vitum að við Íslendingar erum með í útflutningi okkar sennilega nálægt 60%, sem við fáum greidd í Bandaríkjadölum. En við erum aftur með tiltölulega mjög mikinn innflutning, sem við greiðum í Evrópumynt og þá í þeirri mynt, sem núna hækkar í gengí, en það eru sterlingspundið, vestur-þýzka markið og japanska jenið, og við horfum auðvitað með allmiklum kvíða á hverjar þær breytingar, sem af þessu kann að leiða. Ég er ekki að ásaka hæstv. ríkisstj., þó að hún þurfi 2–3 daga til stefnu til þess að gera sér grein fyrir þessum mikla vanda, en ég hygg, að úrslit þeirrar athugunar muni sýna það, að það sé óvarlegt að koma saman og hnoða saman óskalista og birta með miklum fjálgleik yfirlýsingar eins og þá, að þessi ríkisstj. ætli alls ekki að breyta skráðu gengi krónunnar. Fyrir því var enginn varnagli eða er í þeim yfirlýsingum, sem þá voru gefnar. Þetta vitum við, að er vandamál, sem áður hefur komið á daginn og þurft hefur að leysa, og hefur þá verið sagt af þeim mörgum hverjum, sem nú sitja í ráðherrastólum, að það hafi verið algerlega ástæðulaust að gera á þann hátt, eins og þegar sterlingspundið féll í verði á sínum tíma eða árið 1967.

Mig langar líka til þess að víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. fjmrh. sagði í sambandi við söluskattinn. Þar verður að mínum dómi geigvænleg breyting frá því, sem er í gildandi fjárlögum, en söluskatturinn mun hækka samkv. till. meiri hl. fjvn. um tæpar 900 millj. kr. Hæstv. fjmrh. boðaði það, að breytt mundi verða á næsta ári um innheimtu- og álagningarfyrirkomulag á söluskatti til þess að ná meira inn af söluskatti á árinu 1972 en gert er nú. Og breytingin mun verða fólgin í því, að í staðinn fyrir að leggja söluskattinn á á tveggja mánaða fresti og framtalsfrestur er svo einn mánuður þar á eftir, en söluskattur fellur ekki í eindaga fyrr en 15 dögum síðar eða 45 dögum frá því að söluskattstímabili lýkur með því fyrirkomulagi, sem núna er, þá nást tekjur í ríkissjóð af söluskatti ekki nema til októberloka. Fyrir nóvemberlok, eins og ákvæðin eru nú, ber söluskattsframteljendum að telja fram til söluskatts, og þeir verða að hafa lokið greiðslum fyrir 15. næsta mánaðar á eftir. M.ö.o., frá því að söluskattur er innheimtur og til þess að hann feilur í eindaga eru 45 dagar. Með því að breyta þessu innheimtufyrirkomulagi á þann veg að taka upp frá 1. júli 1972 þá skyldu á söluskattsframteljendur, að þeir telji fram til söluskatts mánaðarlega, þá þarf einnig að breyta innheimtufyrirkomulaginu, ef það á að ná nóvembertekjum af söluskatti fyrir árslok 1972, í staðinn fyrir 45 daga nú þyrfti að fara niður fyrir 30 daga, til þess að fá nóvemberskattinn inn fyrir áramót. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það frá hæstv. fjmrh., hvernig hann hygðist breyta þessari reglugerð.

Svo kem ég að hinu atriði málsins, að í söluskattshækkuninni, sem áætluð er, er reiknað með, að 380 millj. kr. fáist með því að breyta þessu innheimtufyrirkomulagi, vegna þess að þá fæst nóvembermánuður með í árið 1972. Það þýðir auðvitað, að hæstv. fjmrh. tekst á þann hátt að lengja árið um einn mánuð enn, og það út af fyrir sig er töluvert afrek, eins og menn sjá. En það kemur aftur niður á árinu 1973 í staðinn, því að þá er búið að éta upp þennan eina mánuð, sem búið er að lengja árið um í þessu tilviki. Enn fremur er ætlunin, eins og hæstv. fjmrh. gat um hér áðan, að leggja sérstakan söluskatt á Póst og síma. Og hann sagði líka, blessaður, það má hann eiga, að það væri ekki ætlunin að leggja þetta á fólkið í landinu, það yrði gert með öðrum hætti. En þá sagði hann bara „punktur“. Það kom ekki meira. Og nú vil ég endilega fá nýja setningu til viðbótar við síðustu ræðu hjá hæstv. ráðh. og spyrja, hvernig þetta megi verða, að leggja 90 millj. kr. söluskatt á Póst og síma. Einu sinni kom þetta eitthvað til orða, minnir mig, hjá fyrrv. ríkisstj., og þá var málinu illa tekið af hv. stjórnarandstæðingum, sem nú sitja flestir í ráðherrastólum.

En hvernig má þetta verða? Á að leggja þetta á Póst og síma? Á þetta ekki að bætast við símgjöldin? Hvað á þá Póstur og sími að gera? Hvernig á hann að mæta þessari 90 millj. kr. aukningu útgjalda á árinu 1972? Það er spurningin. Er svarið við þeirri spurningu e.t.v. á þann veg, ef það á ekki að bæta því á viðskiptamennina, að þá eigi að draga úr framkvæmdum Pósts og síma á næsta ári? Ja, ég segi fyrir mitt leyti, að hefðum við Vestfirðingar beðið eftir sjálfvirku símkerfi, þá hefði ég orðið ókvæða við, ef fyrrv. ríkisstj. hefði ætlað að draga úr framkvæmdum, þegar hefði verið beðið í mörg ár eftir slíkum framkvæmdum. Nú spyr ég hv. þm. Austf. og hæstv. viðskmrh. sem einn skeleggasta baráttumann Austfirðinga í áratugi: Sættir hann sig við þessa lausn á málínu? Mér finnst, að Alþ. eigi að fá skýr svör við því, en ekki hálfkveðna vísu, hvernig eigi að halda áfram í þessum dúr. Mér þykir leitt, að hæstv. fjmrh. er farinn úr sæti sínu, en ég vil mjög eindregið mælast til þess, að þessum spurningum verði til hans komið. Ég var að spyrja hæstv. fjmrh. að þessu, af því að þegar kom að því að segja, að lagður yrði 90 millj. kr. söluskattur á Póst og síma á næsta árí og það yrði ekki lagt á viðskiptamenn Pósts og síma, a.m.k. ekki fyrst um sinn, þá kom punktur hjá fjmrh. Nú finnst mér, að hæstv. fjmrh. þurfi að bæta við nokkrum setningum til viðbótar, til þess að við fáum að skilja þetta dæmi, hann setji ekki punkt þarna og bindi ekki enda á málið, heldur segi okkur frá því, hvort það er þá ætlunin, að söluskattur verði ekki lagður á símnotendur í landinu. Er það ætlunin þá að draga úr framkvæmdum símans á árinu 1972 sem nemur 90 millj. kr., eftir að búið er við gerð fjárlaga að skera mjög mikið niður framkvæmdir Pósts og sima á árinu 1972? Eða er uppi ráðagerð, sem er þá ábyggilega grandskoðuð, áður en þessi ákvörðun er tekin, um það að draga úr kostnaði Pósts og síma með öðrum hætti? Þetta er hlutur, sem ég og sennilega þm. almennt vilja fá svar við. Ég benti hér á, að mestu framkvæmdirnar, sem fram undan væru nú hjá Pósti og síma, væru í Austfjarðakjördæmi, sem hefði beðið lengur eftir sjálfvirkri símaþjónustu en önnur kjördæmi á landinu, og ég tel þar óréttlæti mikið framið gagnvart því kjördæmi, ef það á að skera að verulegu leyti niður þær framkvæmdir, sem hafa verið ákveðnat af þessari stóru og miklu stofnun, Pósti og síma. Enn fremur spurði ég hæstv. fjmrh. um, hvernig ætti að breyta reglugerð um innheimtu á söluskatti. Mér er ljóst, að það á að breyta reglugerðinni á þann veg frá 1. júli 1972, að söluskattsframteljendur eiga að telja fram mánaðarlega. Hitt liggur ekki ljóst fyrir, hvernig á að breyta innheimtuaðgerðum, þannig að framtalsfrestur verði þá styttur töluvert frá því, sem nú er, en hann er ásamt greiðslufresti 45 dagar. En hvað það snertir að ná nóvembertekjunum, ná 13. mánuðinum, þar sem hæstv. fjmrh. og ríkisstj. eru nú búin með þessu að ákveða að næsta fjárlagaár verði 13 mánuðir, þá langar mig að fá upplýsingar um það, á hvern hátt þessi breyting er hugsuð.

Ég sagði hér áðan, að ég ætlaði ekki að tala mjög langt mál um þetta, og ætlaði nú að sleppa þessu alveg. En mér fannst fjmrh. vera það hressilegur í sinni ræðu hér áðan og lita eiginlega það stórum augum á þetta fjárlagafrv., að áður en ég fer héðan úr ræðustól. vil ég þó segja það, að þegar hæstv. ríkisstj. hækkaði brennivínið fyrir nokkru síðan þá var það gert vegna þess, að innkaupsverðið hækkaði á þeirri ágætu vöru, sem seld er í þeim verzlunum, og svo líka vegna þess, að það þurfti mjög verulega að draga úr drykkjuskapnum á íslendingum, og það er sennilega full þörf á því. En nú kom hæstv. fjmrh. og sagði, að þessar ráðstafanir til að draga úr drykkjuskap þjóðarinnar ættu að gefa ríkissjóði 240 millj. kr. í aukinn hagnað á árinu 1972. Nú langar mig enn að spyrja, af því að ég er svo seinn að skilja hlutina, hvernig þetta fari saman. Hvernig á að gera ráðstafanir til að draga úr drykkjuskap, sem eiga að gefa af sér 240 millj. kr. meiri hagnað af rekstri þessara fyrirtækja á næsta ári, samhliða því, að innkaupsverð vörunnar fer stórhækkandi erlendis? Og þetta er svar, sem mig langar mikið til að fá. Ég held, að mér líði betur á jólunum, ef ég fæ glögg svör við þessu.

Í sambandi við endanlega afgreiðslu fjárlaga verð ég nú að segja það, að það hefur oft verið galli á, hvað skýring á tekjuliðnum hefur komið seint til fjvn. Ég skal ekki á neinn hátt dylja þess, að meðan ég tilheyrði flokki, sem var í ríkisstj., var í stjórnaraðstöðu, þá setti ég mjög oft út á það, hvað þessar skýringar kæmu seint til þingsins eða fjvn. Við afgreiðslu þessara fjárlaga komu efnahagssérfræðingarnir með þessa skýrslu s.l. fimmtudag kl. korter yfir eitt, Og það byrjaði þingfundur kl. tvö, en hins vegar gerðumst við svo ósvífnir að mæta ekki á þingfundi, fyrr en efnahagssérfræðingarnir höfðu skýrt okkur frá þessum áætlunum. Ég verð nú að segja það, að oft hefur verið þörf á því að fá skýrslu og yfirlit yfir breytingar, sem verða á tekjustofnum ríkissjóðs, en ég held aldrei eins og nú við þær geigvænlegu breytingar, sem eru nú gerðar á skattkerfi, og ný útgjöld eru tekin inn. En þetta er nú gert með þessum hætti. Við sjálfstæðismenn töldum, að undir flestum kringumstæðum hefði verið rétt að fresta endanlegri afgreiðslu fjárlaga fram á þann tíma, að þing kemur saman aftur í jan., vegna margvíslegrar óvissu. Við fluttum enga till. um þetta atriði, en formaður okkar bar þessi tilmæli fram við hæstv. ríkisstj. Það bar ekki að líta á það sem neitt vantraust eða nein hnýfilyrði eða ásakanir á ríkisstj. að þessi tilmæli voru borin fram, og ég verð að segja það eins og er, að þó að orðið hefði verið við þessum tilmælum, þá hefði það gerzt, að bæði stjórn og stjórnarandstaða hefðu betur getað íhugað þessi mál. Þessi ríkisstj., sem nú situr, hefur ekki setið nema fimm mánuði, og ég tel, að það hefði ekki verið henni neitt til vansæmdar, þó að hún hefði tekið þessa stefnu að fresta 3. umr. fjárlaga fram í janúar. Það er búið að afgreiða mörg mál, en ríkisstj. hefur nú ákveðið að láta fjárlagafrv. fara í gegn fyrir jól, halda áfram þeirri venju, sem skapazt hefur um langt árabil. þrátt fyrir þær miklu breytingar, sem nú er verið að gera.

Það eina, sem ég get hætt svo að lokum við þetta, er það, að ég tel, að margt sé í mikilli óvissu við afgreiðslu þessara fjárlaga, en við það, að ríkisstj. hefur tekið þessa ákvörðun, þá auðvitað ber hún fyrst og fremst ein ábyrgðina á því, sem aflaga fer í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna.