02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í D-deild Alþingistíðinda. (5083)

933. mál, Félagsmálasáttmáli Evrópu

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera fsp. á þskj. 605 til utanrrh. um Félagsmálasáttmála Evrópu. Það er spurt um:

1. Má vænta þess, að ríkisstj. vinni að því, að Ísland gerist aðili að Félagssáttmála Evrópu (European Social Charter)?

2. Ef svo er, hvenær er stefnt að því að undirrita og fullgilda sáttmálann, svo sem stofnskrá og reglur Evrópuráðsins gera ráð fyrir?

Á s.l. hausti var þess minnzt á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins í Strasbourg, að 10 ár voru liðin síðan Félagsmálasáttmáli Evrópu tók gildi. Þessi sáttmáli, sem er til tryggingar mannréttindum og grundvallarfrelsi á vettvangi efnahags- og félagsmála, var undirritaður 18. okt. 1961. Hann hefur nú verið staðfestur af níu Evrópuráðsríkjum, þ.e. Austurríki, Danmörku, Írlandi, Kýpur, Bretlandi, Ítalíu, Noregi, Svíþjóð og Vestur-Þýzkalandi. Auk þess hefur samningurinn verið undirritaður af fimm öðrum ríkjum, þ.e. Belgíu, Frakklandi, Luxembourg, Hollandi og Tyrklandi. Félagsmálasáttmálinn er einn af þýðingarmestu sáttmálum, sem Evrópuráðið hefur stofnað til. Þar sem mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins fjallar um Mannréttindanefndina og Mannréttindadómstólinn, skilgreinir Félagsmálasáttmálinn félagsleg réttindi einstaklingsins, og með honum er í fyrsta sinn í samvinnu Evrópuríkja leitazt við að framfylgja þessum réttindum undir alþjóðlegu eftirliti.

Félagsmálasáttmálinn hefst á almennri yfirlýsingu. Sérhvert land, sem staðfestir sáttmálann, lýsir yfir vilja sínum til að vinna að því, að fullnægt verði þeim skilyrðum, sem nauðsynleg eru til þess að koma í framkvæmd 19 réttindum og reglum, sem sáttmálinn tilgreinir. Í framhaldi af þessari yfirlýsingu er lýst þeim aðgerðum, sem gera þarf. Sérhvert ríki, sem staðfestir Félagsmálasáttmálann, er þegar í stað bundið af ýmsum köflum hans og greinum. En um nokkurt valfrelsi er að ræða varðandi skuldbindingar þær, sem aðildarríkin taka á sig. Sem dæmi um félagsleg réttindi, sem aðildarríki sáttmálans skuldbinda sig til að halda í heiðri, má nefna rétt til vinnu, réttindi verkalýðsfélaga, samningsfrelsi verkalýðsfélaga, rétt til verkfalla, rétt til félagslegs öryggis og rétt fjölskyldunnar til félagslegrar og efnahagslegrar verndar.

Í lokakafla sáttmálans er fjallað um það skipulag, sem komið er á fót til að tryggja, að staðið sé við þær skuldbindingar, sem aðildarríkin taka á sig. Hvert aðildarríki skal reglulega gefa skýrslu um framkvæmd sína á ákvæðum sáttmálans. Skýrslur þessar eru skoðaðar af sérfræðinganefnd, sem fulltrúi frá Alþjóðavinnumálastofnuninni á sæti í, og ganga síðan til sérstakrar félagsmálanefndar, sem er skipuð einum fulltrúa frá hverri ríkisstjórn aðildarríkja sáttmálans. Fulltrúar frá alþjóðasambandi vinnuveitenda og alþjóðasambandi verkalýðsfélaga hafa rétt til setu í þessari félagsmálanefnd sem áheyrnarfulltrúar með tillögurétti. Niðurstöður af þessum ítarlegu athugunum eru sendar ráðgjafarþingi Evrópuráðsins og síðan ráðherranefnd Evrópuráðsins, sem getur gert tillögur varðandi framkvæmd sáttmálans í hverju einstöku aðildarríki fyrir sig. Með þessu móti er almenningsálitið, ef svo mætti að orði komast, virkjað gegnum ráðgjafarþingið til þátttöku í eftirliti með félagsmálastefnu Evrópuráðsríkjanna, eins og hún er skilgreind í Félagsmálasáttmálanum.

Þessi sáttmáli felur í sér þann aflvaka, sem stuðlar á raunhæfan hátt að efnahags- og félagslegum framförum í aðildarríkjum Evrópuráðsins, en það var á sinni tíð einn megintilgangur með stofnun Evrópuráðsins. Í stofnskrá Evrópuráðsins frá 5. maí 1949 segir, að markmið ráðsins sé að koma á nánari einingu meðal þátttökuríkja þess í því skyni að vernda og koma í framkvæmd þeim hugsjónum og meginreglum, sem eru sameiginleg arfleifð þeirra, og svo til þess að stuðla að framförum á sviði efnahags- og félagsmála.

Síðan Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu, hefur það verið virkur þátttakandi í ýmissi starfsemi ráðsins, svo sem á vettvangi menningarmála, sveitarstjórnarmála og í vissum greinum félagsmála og svo um samstarf á sviði löggjafar. Stundum hefur Ísland verið í forustusveit þeirra ríkja, sem hrundið hafa í framkvæmd þýðingarmiklum málum Evrópuráðsins, svo sem með fullgildingu sinni á Mannréttindasáttmálanum og aðild sinni að viðreisnarsjóðnum. Þess vegna verður að segja, að hlutur okkar liggi eftir, meðan við gerumst ekki aðilar að Félagsmálasáttmála Evrópu. Það er þessi sáttmáli, sem varðar mest grundvallarstefnu og markmið Evrópuráðsins ásamt Mannréttindasáttmálanum. Að vísu er það svo, að ýmis önnur aðildarríki hafa ekki enn fullgilt Félagsmálasáttmálann. En þau ríki, sem standa okkur næst í félagslegum viðhorfum, hafa staðfest þennan sáttmála, og meðal þeirra eru öll hin Norðurlöndin, sem aðild eiga að Evrópuráðinu. Það er því vissulega tímabært, að Ísland taki sér stöðu með þeim ríkjum, sem tryggja þegnum sínum mest félagslegt réttlæti og réttindi. Með tilliti til þessa og með hliðsjón af því, að mér er kunnugt um, að hæstv. utanrrh. hefur bæði áhuga og góðan skilning á þátttöku Íslands í Evrópuráðinu, hef ég leyft mér að orða fsp. mína á þann veg, hvort ekki megi vænta þess, að Ísland gerist aðili að Félagsmálasáttmála Evrópu.