20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

1. mál, fjárlög 1972

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af brtt., sem ég flyt á þskj. 274. Ég flutti hér við 2. umr. tvær brtt., annars vegar hækkaða fjárveitingu til Æskulýðsráðs ríkisins, úr 700 þús. kr. í 3.8 millj., og hins vegar til Umferðarráðs úr 2 millj. í 5.8 millj. Ég tók þessar till. mínar til baka til 3. umr. og gerði mér vonir um það, að fjvn. gæti athugað þessar till. og veitt þeim eitthvert lið, og nú hefur komið í ljós í till. fjvn., að fjárveiting til Umferðarráðs hefur hækkað um 1 millj., þannig að fjárveitingin nemur nú samtals 3 millj. til Umferðarráðs í stað tveggja áður. Mikið skortir að vísu enn á, að þar með sé fullnægt þeim kröfum eða þörfum, sem Umferðarráð gerir samkv. áætlunum, sem ráðið hefur lagt fram, en ég tel þó, að þessi viðleitni fjvn. til þess að mæta þessum óskum og um leið þeirri till., sem ég bar hér fram við 2. umr., ég tel hana þess efnis, að rétt sé að virða þessa viðleitni og hef ég því ekki lagt fram að nýju till. til hækkunar á þessum lið. Ég vil þó undirstrika, að það er mín skoðun, að það sé langt í frá, að þarna sé veitt svo mikið fé til þessara mála sem nauðsyn krefur, og útskýrði ég það reyndar í máli mínu hér við 2. umr. og tel ekki ástæðu til þess að orðlengja það frekar, en lagði þá áherzlu á, hversu alvarlegt vandamál væri í þjóðfélagi okkar þau miklu umferðarslys, sem nú færu ört vaxandi ár frá ári Umferðarráð hefur gert um það áætlanir að leggja aukna áherzlu á auglýsingar og áróður á þessum vettvangi, sérstaklega hvað snertir börn og unglinga, og er held ég öllum ljóst, að ekki er vanþörf á, og til þess þarf Umferðarráð að sjálfsögðu fé og samkv. áætlunum var gert ráð fyrir a.m.k. 5.8 millj., sem þó var mjög skorið við nögl að þeirra mati, en nú eru lagðar fram till. um, að þessar upphæðir til Umferðarráðs á þessu ári verði 3 millj., og eins og sjá má vantar þar nærri því helming upp á, að þörfinni sé mætt. En ég tel þó sem sagt, að viðleitni fjvn. sé þess virði, að hún sé virt, og því hef ég ekki lagt fram að nýju till. mína frá 2. umr.

Þá er það till. varðandi hækkun til Æskulýðsráðs ríkisins. Þar endurflyt ég till. frá 2. umr., sem gerir ráð fyrir 3.8 millj. til þessa nýstofnaða ráðs. Og þetta flyt ég einfaldlega vegna þess, að ég trúi því ekki, ég neita að trúa því, að Alþ. sé sjálfu sér svo ósamkvæmt, að það samþykki lög um ákveðna stofnun og ákveðna starfsemi á einu þingi, en veiti ekki fé til þessarar stofnunar, þessarar starfsemi, á næsta þingi. En það er raunverulega það, sem er að gerast núna. Nú í fyrsta skipti reynir á fjárveitingar til Æskulýðsráðs ríkisins samkv. þeirri löggjöf, sem hér var samþ. á síðasta kjörtímabili, og nýskipað Æskulýðsráð með æskulýðsfulltrúa í broddi fylkingar hefur lagt fram áætlanir, þar sem gert er ráð fyrir því, að nauðsynlegt sé, að Alþ. veiti a.m.k. 3.8 millj. til þessarar starfsemi, sem Æskulýðsráð hyggst beita sér fyrir á næsta ári. En samkv. frv. til fjárlaga og till. fjvn., þá er gert ráð fyrir 700 þús. kr. til þessarar starfsemi. Og þá er þess að geta, að þar var hækkuð fjárveitingin frá 1. umr. um 600 þús. kr. Í upphafi var eingöngu reiknað með 100 þús. kr. Þetta nær að mínu viti ekki nokkurri átt að ætlast til þess, að Æskulýðsráð starfi innan þeirrar löggjafar, sem Alþ. hefur samþ., fyrir ekki meira fé, og ég get ekki séð, hvernig þessi starfsemi, sem allir voru á sínum tíma sammála um, að ætti mjög rétt á sér, hvernig hún raunverulega getur farið fram. Hér er sífellt verið að tala í sölum Alþ. um nauðsyn á heppilegri og eðlilegri æskulýðsstarfsemi og stuðningi okkar til hennar, og mér finnst, að við ættum að vera sjálfum okkur samkvæmir og mæta þeim lágmarkskröfum, sem Æskulýðsráð gerir núna í upphafi síns starfstímabils. Bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar á sínum tíma voru sammála um, að hér væri um mjög merka löggjöf að ræða, sem markaði reyndar tímamót, en á það var lögð áherzla í þeim umr., að löggjöfin væri aðeins fyrsta skrefið, það, sem skipti kannske mestu máli, og það, sem gerði það að verkum, að þessi starfsemi gæti farið fram, væri, að fjárveitingarnar væru það rausnarlegar og það ríflegar, að þessi starfsemi gæti þróazt með eðlilegum hætti. Þess vegna endurflyt ég nú þessa till. um hækkun til Æskulýðsráðs, sem er í samræmi við áætlun frá þessu ráði og heiti nú á þm., hæði í stjórn og stjórnarandstöðu, að styðja þessa sjálfsögðu till.