16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í D-deild Alþingistíðinda. (5098)

932. mál, leiguhúsnæði á vegum ríkisins eða ríkisstofnana

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og kom fram í framsöguræðu hv. fyrirspyrjanda, 5. þm. Reykn., þá hefur fjárlaga- og hagsýslustofnunin með leiguhúsnæði ríkisins að gera, og heyrir það undir fjmrn. Það svar, sem ég kann að gefa við þessu, er samið af fjárlaga- og hagsýslustofnuninni og er svo hljóðandi, en þó er gerð sú breyting, að hér er miðað við þetta eins og það var í apríl núna, en það er það nýjasta, sem til eru upplýsingar um.

Samkv. þeim gögnum, sem fjmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnunin, hefur undir höndum, er árleg leiga á því húsnæði, sem ríkið hefur á leigu í apríl s.l., samtals 38 millj. 712 þús. 908 kr. Er leigan þá eingöngu talin, en ekki ljós, hiti, ræsting eða annar kostnaður. Ekki er meðtalið, þegar ríkisstofnun leigir annarri húsnæði, en hins vegar meðtalin leiga hjá ríkisbönkum og hjá sveitarfélögum.

Þegar um er að ræða verðtryggingu samninga, er miðað við vísitölu eins og hún var útreiknuð í nóv. 1970, enda hefur ekki verið heimilt að hækka húsaleigu síðan.

Samkv. áðurnefndum gögnum og reiknað af sama grundvelli leigir ríkið samtals 37 623 fermetra. Þessu húsnæði má skipta á eftirfarandi hátt eftir því, til hvers það er notað: Skrifstofuhúsnæði er 19 505 fermetrar, geymsluhúsnæði 2 806, kennsluhúsnæði 7 754 og þjónustuhúsnæði 7 558. Með geymsluhúsnæði er átt við húsnæði, sem sérstaklega er tekið á leigu til þeirra nota, en ekki geymsluhúsnæði, sem fylgir öðru húsnæði. Með þjónustuhúsnæði er átt við húsnæði undir ýmiss konar starfsemi, eins og vínafgreiðslu Afengis- og tóbaksverslunar ríkisins, vöruafgreiðslu Skipaútgerðar ríkisins, framleiðsluhúsnæði Lyfjaverzlunar ríkisins, sjálfvirkar símstöðvar úti á landi o.fl.

Þá er spurt um það í þriðja lagi, hvernig þessi leiga skiptist eftir kjördæmum: Reykjavík 30 millj. 409 þús. 659, Vesturland 475 þús. 200, Vestfirðir 456 þús. 461, Norðurland v. 361 þús. 865, Norðurl. e. 3 millj. 271 þús. 110, Austurland 383 þús. 100, Suðurland 619 þús. 220, Reykjanes 2 millj. 736 þús. 293 kr.

Til viðbótar þessu get ég gefið þær upplýsingar, að leiguhúsnæði stjórnarráðsins er eftirfarandi, þegar fjárlaga- og hagsýslustofnun og heilbr.- og trmrn. hafa flutt í Arnarhvol: Menntmrn. 805 fermetrar, utanrrn., varnarmáladeildin, 185, sjútvrn. 195, fjmrn., ríkisendurskoðun, 755 og Hagstofa Íslands 923. Ársleiga fyrir þessa 2863 fermetra á núv. verðlagi er 3 millj. 621 þús. kr.

Þá tel ég mig hafa svarað því, sem um var spurt af hv. þm.