20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

1. mál, fjárlög 1972

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Fjvn. flytur till. um það, að 11 listamenn, sem þar eru taldir í hennar tillögum, skuli njóta heiðurslauna, 175 þús. kr. hver. Er það sundurliðun á þeirri fjárveitingu, 1 millj. 925 þús., sem í fjárlagafrv. er. Ásamt hv. 8. landsk. þm. flyt ég till. um að auka við tölu þessara 11 listamanna einum listamanni, Kristmanni Guðmundssyni rithöfundi. Kristmann Guðmundsson fór ungur út í heim að hætti herskárra forfeðra okkar til að leita sér fjár og frama. Hann lagði leið sína til Noregs, nam á skammri stund til fullnustu norska tungu og hóf að rita skáldsögur á því máli. Hann gaf fyrst út skáldsöguna Brúðarkjólinn, síðan rak hver aðra. Næst kom Ármann og Vildís, næsta ár kom Morgunn lífsins, og var svo komið, þegar þessar sögur höfðu allar birzt, að hann hafði hlotið frægð ekki aðeins um Norðurlönd, heldur víðar. Um það leyti, sem Kristmann náði þrítugsaldri, höfðu skáldsögur hans verið þýddar á um 30 tungumál. Ég býst við, að aðrir Íslendingar hafi ekki komizt svo langt, a.m.k. á þeim aldri og tæplega síðar.

Kristmann Guðmundsson hefur síðan verið mikilvirkur rithöfundur, ritað fjölda skáldsagna, sögulegra skáldsagna, sjálfsævísögu. Hann stendur nú á sjötugu. Ég tel orðið tímabært, að Alþ. Íslendinga sýni þessu mikilvirka og víðfræga skáldi þá sæmd, sem felst í því að taka hann í tölu heiðurslaunamanna samkv. fjárlögum.

Þeir 11 listamenn, sem eru í till. fjvn. og sem notið hafa þeirra launa undanfarin 2 ár, að ég ætla, eru sjötugir eða eldri, allir að einum undanskildum, Nóbelsskáldinu, sem nær þeim aldri á vori komanda. Aldur Kristmanns ætti því ekki að verða hér til fyrirstöðu. Ég treysti því, að þingheimur taki till. þessari með skilningi og veiti þessu kunna og ágæta skáldi þá viðurkenningu, sem till. fer fram á.