16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í D-deild Alþingistíðinda. (5102)

272. mál, elli- og örorkulífeyrir

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. á þskj. 662, sem hljóðar svo:

1. Hversu margir (hjón og einstaklingar) hafa hlotið elli- og örorkulífeyri á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs? Hve háum fjárhæðum í heild hafa umræddar lífeyrisgreiðslur numið?

2. Hve margir þessara aðila hafa á sama tímabili fengið álag á lífeyri sinn vegna verulega skertrar starfsgetu og bágra aðstæðna, og hve mikil er sú álagsupphæð í heild?

3. Hversu margir framangreindir lífeyrisþegar hafa hlotið á sama tímabili umframlífeyri samkv. ákvæði almannatryggingalaga um lágmarkstekjutryggingu, og hversu mikil er sú umframupphæð í heild?

4. Hvernig er framkvæmd bótagreiðslna samkv. framangreindu tekjutryggingarákvæði háttað í einstökum atriðum?

Ástæðan fyrir því, að ég ber fram þessa fsp., er sú, að mér finnst rík ástæða til þess, að hv. alþm. fylgist vel með framkvæmd laga um almannatryggingar, einkum þeirri nýjung, sem felst í svonefndu tekjutryggingarákvæði. Ég tel þá meginhugsun, sem að baki þessu ákvæði býr, vera sjálfsagða í velferðarþjóðfélagi, þ.e. að öllum þegnum þjóðfélagsins séu tryggðar lágmarkstekjur. Á hinn bóginn hef ég ekki leynt þeirri skoðun minni, að framkvæmd ákvæðisins samkv. núgildandi lögum hljóti að vera erfið og óréttlát gagnvart lífeyrisþegum, sem annað tveggja afla sér smávægilegra tekna eða eiga rétt á lífeyrissjóðsgreiðslum. Eins og kunnugt er, reiknast slíkar greiðslur til tekna, og skerðist þá tekjutryggingarupphæð að nokkru eða öllu leyti. Þess hefur þegar orðið vart, að einstakir sjóðfélagar lífeyrissjóða hafi af þessum sökum óskað endurgreiðslu iðgjalda sinna í viðkomandi sjóði og afsals réttinda vegna þessarar skerðingar. Það er einnig svo, að vinni eiginmaður, sem er lífeyrisþegi, ásamt konu sinni fyrir rúmlega 6 þús. kr. á mánuði, skerðist lífeyrisupphæð tekjutryggingar að sama skapi fyrir bæði hjónin. Hliðstætt gildir um einstakling.

Nú er það svo, að mig grunar, að það séu ekki hlutfallslega margir lífeyrisþegar, sem hljóta bætur samkv. framangreindu tekjutryggingarákvæði. Ástæðan til þess er sú, að þeir, sem hafa verulega skerta starfsgetu og bágar ástæður, fá álag á lífeyri sinn, en aðrir hafa yfirleitt einhverjar smávægilegar tekjur. Það er alveg ljóst, að það fólk, sem tekur lífeyri samkv. lágmarkstekjutryggingarákvæði almannatryggingalaga þarf að hafa rétt til hliðstæðra greiðslna. Hitt er meiri spurning, þar sem sennilega er ekki um marga aðila að ræða, hvort ekki er rétt að gera þetta á þann hátt, sem betur samrýmist lífeyrissjóðakerfinu og réttlætiskennd þess fólks, sem vinnur sér fyrir smáupphæðum umfram sinn lífeyri.