16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í D-deild Alþingistíðinda. (5103)

272. mál, elli- og örorkulífeyrir

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef vísað þessum fsp. hv. þm. Lárusar Jónssonar til forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, Sigurðar Ingimundarsonar, og eru svör hans svo hljóðandi:

Tryggingastofnuninni hefur borizt bréf hins háa rn., þar sem óskað er umsagnar um fsp. Lárusar Jónssonar alþm. á þskj. 662. Þess er ekki að vænta, að fyrir liggi bókhaldslegar niðurstöður sem hægt sé að byggja á óyggjandi svör við þeim spurningum, sem fram eru lagðar. Það mundi taka lengri tíma en við verður komið að láta fara fram nægilega athugun í tryggingaumboðunum. Verður því að mestu að byggja svörin á upplýsingum, sem fyrir hendi eru í aðalskrifstofunni. Fyrsta liðinn má áætla með allgóðri hlutfallslegri nákvæmni. Annar, en þó einkum þriðji liðurinn eru erfiðari viðfangs, en þó skal reynt eftir beztu getu að gefa nokkra hugmynd um þá miðað við þær upplýsingar, sem fyrir liggja.

Um framkvæmd tekjutryggingarinnar er það að segja, að tryggingarnar hafa af eðlilegum ástæðum verið háðar fyrirgreiðslu skattstofa, þar sem byggja verður úrskurði um bótahækkanir á skattskýrslum umsækjenda. Bótagreiðslur gátu því hvergi hafizt fyrr en í marzmánuði. Í Reykjavík má heita, að búið sé að úrskurða allar umsóknir, sem borizt hafa, en umsóknir eru enn að berast, svo að tölur um fjölda úrskurða og bótaupphæðir fyrir fyrsta ársfjórðung fara hækkandi. Þess skal enn fremur getið í þessu sambandi, að hafinn er undirbúningur að því að dreifa með júnígreiðslum nánari upplýsingum um framkvæmd tekjutryggingarákvæðanna til þeirra elli- og örorkulífeyrisþega, sem enn hafa ekki látið kanna rétt sinn til þessara bóta. Má því segja, að þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir um framkvæmd tekjutryggingarákvæðanna, séu nánast bráðabirgðaupplýsingar og verði að taka þær með fyrirvara um aðstæður til fullnægjandi eða endanlegra upplýsinga.

Fyrsta fsp. hv. þm. var svo hljóðandi: Hversu margir (hjón og einstaklingar) hafa hlotið elli- og örorkulífeyri á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs? Hve háum fjárhæðum í heild hafa umræddar lífeyrisgreiðslur numið?

Svarið við þessari spurningu er það, að hjón, sem fengið hafa elli- og örorkulífeyrisgreiðslur, eru 2710, en bótaupphæðir til þessara hjóna í jan.-marz eru 124.5 millj. kr. Einstaklingar, sem fengið hafa elli- og örorkulífeyri, eru 13 080 talsins, en bótaupphæðin til þeirra á tímabilinu jan.–marz er 315 millj. Samtals nema þessar greiðslur þessa fyrstu þrjá mánuði ársins 439.5 millj. kr. Eins og áður er vikið að, má þetta teljast hlutfallslega rétt áætlun, þar sem fjöldi bótaþega er svo til þekkt tala og töluleg þyngd bótagreiðslna að miklu leyti föst og lögákveðin. Þó nokkurrar ónákvæmni gætti í svörum við 2. og 3. lið hér á eftir, en niðurstöður þeirra eru hér innifaldar, mundi það ekki vega þungt í þessu sambandi. Auk þessara bótagreiðslna er áætlað, að 1590 einstaklingum hafi verið greiddar um 16 millj. kr. í örorkustyrk á fyrsta ársfjórðungi, en örorkustyrkur er eins og kunnugt er heimildargreiðslur til þeirra, sem hafa milli 50 og 75% örorkumat.

Önnur fsp. var svo hljóðandi: Hve margir þessara aðila hafa á sama tímabili fengið álag á lífeyri sinn vegna verulega skertrar starfsgetu og bágra aðstæðna, og hve mikil er sú álagsupphæð í heild?

Spurningin hefur verið skilin svo, að hér væri átt við, hve margir elli- og örorkulífeyrisþegar nytu heimildarhækkana samkv. núgildandi lögum og reglugerðum og hve háum heildarupphæðum þær nemi. Þetta skal tekið fram, til þess að skýrt sé, hverju er verið að svara. Þeir elli- og örorkulífeyrisþegar, sem njóta heimildarhækkana hér í Reykjavík, eru 1040, og samkv. úrtaki, sem gert var á spjaldskrá stofnunarinnar, nemur bótahækkun þeirra fyrsta ársfjórðung 16.5 millj. kr. Eftir reynslu undanfarinna ára eru um 43% elli- og örorkubótaþega búsettir í Reykjavík, en 57% utan Reykjavíkur. Ef hér mætti beita hlutfallareikningi, yrði svarið við annarri spurningunni: 2420 elli- og örorkulífeyrisþegar hafa notið heimildahækkana, samtals 38.2 millj. kr. á fyrsta ársfjórðungi.

Þriðja spurningin er svo hljóðandi: Hversu margir framangreindir lífeyrisþegar hafa hlotið á sama tímabili umframlífeyri samkv. ákvæðum almannatryggingalaga um lágmarkstekjutryggingu og hversu mikil er sú umframupphæð í heild?

Hér í Reykjavík hafa 1612 bótaþegar fengið hækkanir vegna tekjutryggingarákvæða, og nemur sú hækkun 15.8 millj. kr. fyrir fyrsta ársfjórðung. Ef hér mætti beita hlutfallareikningi með sömu hundraðshlutum og í 2. lið, yrði svarið við þriðju spurningunni: 3160 bótaþegar njóta hækkunar vegna tekjutryggingarákvæða, samtals 36.8 millj. kr. fyrir fyrsta ársfjórðung. Eins og áður er að vikið, munu þessar tölur fara hækkandi, en rétt er að taka fram, að greiðslur þessara bóta eru víðast hvar skemmra á veg komnar en í Reykjavík, m.a. vegna seinni fyrirgreiðslu skattstofa. Hins vegar er ekki ástæða til að ætla annað en niðurstöður utan Reykjavíkur verði nokkurn veginn hlutfallslegar, og er áætlunin byggð á þeirri forsendu. Og þó að greiðslur hafi tafizt sums staðar, þá eru þær að sjálfsögðu miðaðar við ársbyrjun alls staðar.

Fjórða spurning hv. þm. er svo þessi: Hvernig er framkvæmd bótagreiðslna samkv. framangreindu tekjutryggingarákvæði háttað í einstökum atriðum?

Um það atriði undirritaði ég reglugerð 25. jan. s.l., og hefur hún verið birt í Stjórnartíðindum og er að sjálfsögðu tiltæk þessum hv. þm. sem öðrum, en fyrst um þetta er spurt beint, þá þykir mér rétt að lesa upp meginatriði þessarar reglugerðar. 1. gr. er svo hljóðandi:

„Við ákvörðun tekna elli- og örorkulífeyrisþega skal miðað við bætur almannatrygginga til viðkomandi umsækjanda sjálfs, eins og þær eru á hverjum tíma, þegar hækkun kemur til álita, en aðrar tekjur skulu ákveðnar samkv. nýjustu upplýsingum, sem skattyfirvöld geta látið í té, enda geti umsækjandi eða Tryggingastofnunin ekki fært sönnur á nýrri upplýsingar. Til annarra tekna samkv. 1. mgr. teljast allar tekjur samkv. tekjudálki skattskýrslu aðrar en bætur samkv. lögum um almannatryggingar, eigin húsaleiga og tekjur barna, þ.e. þessar tekjur eru ekki meðtaldar. Hækka skal lífeyri einstaklings samkv. I. mgr. um það, sem á vantar, að hann ásamt öðrum tekjum samkv. 2. mgr. nemi 120 þús. á ári.“

2. gr. er svo hljóðandi: „Á sama hátt og um getur í 1. gr., skal tryggja hjónum, sem bæði njóta elli- og örorkulífeyris, 216 þús. kr. tekjur. Hækka skal bætur hjónanna um það, sem á vantar, að samanlagðar tryggingabætur þeirra og aðrar tekjur nemi samtals 216 þús. kr. á ári.“

3. gr. er svo hljóðandi: „Nú nýtur annað hjóna örorku- eða ellilífeyris, en hitt ekki, og skal þá miðað við samanlagðar tekjur þeirra og tryggingabætur og hækka bætur lífeyrisþega í 120 þús. kr., ef sú hækkun leiðir ekki til þess, að samanlagðar tekjur hjónanna fari yfir 216 þús. kr.“

4. gr. „Nú hættir elli- og örorkulífeyrisþegi vinnu eða missir á annan hátt tekjur, sem komið hafa í veg fyrir, að hann fengi hækkun bóta samkv. 1.–3. gr., og skal hann þá, eftir því sem við verður komið, færa sönnur á tekjulækkunina og gefa skriflega yfirlýsingu um hana.

Er þá heimilt að taka tillit til tekjulækkunarinnar, en komi síðar í ljós, að úrskurður bóta hafi verið byggður á röngum upplýsingum, ákveður tryggingaráð, hvernig með skuli fara.“

Þessi grein hefur þann tilgang, að hægt sé að afgreiða slíkar umsóknir eins fljótt og við verður komið.

5. gr. „Þeir, sem eiga rétt til hækkunar á ellilífeyri vegna frestunar á töku hans fram yfir 67 ára aldur samkv. 11. gr. laganna, skulu njóta þeirrar sérstöku hækkunar umfram þær hækkanir, sem getið er í 1.–3. gr. hérna að framan.

6. gr. Við ákvörðun lágmarkstekna samkv. framansögðu, svo og við ákvörðun á heimildarhækkunum, skal, eftir því sem við verður komið, hafa gætur á, hvort umsækjandi um slíkar bætur hefur ráðstafað eignum sínum með þeim hætti, að tekjur falli niður og þannig hafi skapazt tölulegur grundvöllur hækkunar. Þegar svo stendur á, metur tryggingaráð, hvort synja skuli umsókn.

7. gr. Heimilt er að greiða frekari uppbót á elli- og örorkulífeyri, ef sýnt þykir, að lífeyrisþegi geti ekki komizt af án þess. Á þetta t.d. við um kostnað vegna vistunar á elliheimili. Skal tryggingaráð í samráði við rn. ákveða nánar hámarksgreiðslu vegna elliheimilisdvalar. Enn fremur er heimilt að greiða uppbót vegna mikils kostnaðar, þó að umsækjandi dvelji í heimahúsum, t.d. vegna heimilishjálpar eða hjúkrunar á heimili, vegna annars óvenjulegs sjúkrakostnaðar, sem sjúkratryggingar greiða ekki, svo og vegna mikillar húsaleigu eftir nánari fyrirmælum tryggingaráðs. Aldrei skulu þó tryggingabætur samkv. þessari mgr. ákveðnar hærri en hámarksbætur vegna þeirra, er á elliheimilum dvelja.“

Þetta er meginefni þessarar reglugerðar, og ég hef lesið hana sem svar við fjórðu spurningu hv. þm.

Eins og ég gat um í svari hér áðan, þá er talið, að um 3760 bótaþegar njóti nú hækkunar vegna tekjutryggingarákvæðanna, og það er vissulega allverulegur fjöldi. Ég tel, að þessi tekjutrygging sé ákaflega stórfelld félagsleg réttarbót, og eins og menn sjá þarna, nýtur allverulegur hluti aldraðs fólks og öryrkja nú þegar þessara bóta. Ég er hins vegar viss um það, að þessi tala á eftir að hækka allnokkuð, vegna þess að aldrað fólk fylgist ekki allt of vel með, og eins og ég gat um áðan, þá verða gerðar ráðstafanir til þess af hálfu almannatrygginganna að senda út eins greinilegar upplýsingar og kostur er á til allra þeirra, sem hugsanlega geta átt rétt á þessum bótum, til þess að þeir sendi nauðsynlegar umsóknir.

Hv. þm. vék að því hér áðan, að þarna gætu komið upp ýmiss konar markavandamál. Það er alveg rétt. Þegar sett eru lög, sem tryggja þjóðfélagshópum, sem erfitt eiga, félagsleg réttindi, þá hljóta alltaf að koma upp markavandamál í því sambandi. Það verður ekki hjá því komizt. En auðvitað er sjálfsagt að reyna að hafa þau mörk sem allra sveigjanlegust, og ég vil láta þess getið, að ég hef lagt fyrir Tryggingastofnunina og umboðsmenn almannatrygginga hvarvetna, að við mat á álitamálum í þessu sambandi beri að taka sem jákvæðasta afstöðu til viðskiptavina almannatrygginga.

Svo vil ég minna á það í þessu sambandi, að tryggingalöggjöfin í heild er áfram í endurskoðun og að sjálfsögðu verða atriði eins og tekjutryggingin athuguð með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fæst af henni nú í upphafi.