16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í D-deild Alþingistíðinda. (5104)

272. mál, elli- og örorkulífeyrir

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Það fór sem mig grunaði, að hlutfallslega fáir lífeyrisþegar tækju í raun lífeyri sinn eftir svonefndu tekjutryggingarákvæði. Mér reiknast, að það sé allverulega innan við 10%, sem greitt er af lífeyri með þessum hætti, eftir upplýsingum ráðh. Ég hlýt í fyrsta lagi að harma, að hæstv. núv. ríkisstj. hefur gert ákaflega mikið úr þeim kjarabótum til ellilífeyrisþega, sem þeir hafa fengið með tilkomu hækkunar á þessari tekjutryggingu. Mér er ekki grunlaust um, að margvísleg skerðing á kjörum þessa fólks, sem leiðir af kerfisbreytingu skatta, hafi verið réttlætt með þessari hækkun.

Ég hlýt einnig að harma, að hæstv. ráðh. dró þessi mál inn í umr. á föstudagskvöld með heldur nöturlegum hætti, í útvarpsumr. Hann sagði, að Morgunblaðið hefði ráðizt á aldrað fólk og talið það leggjast í leti og ómennsku vegna þessarar tekjutryggingar. Ég hef skrifað um þetta tvær greinar í Morgunblaðið undir fullu nafni, báðar til þess að vekja athygli á því, að sníða þurfi þá annmarka af þessu ákvæði, sem nú eru á því. Mér þykir leitt að þurfa að benda hæstv. ráðh. á grein, sem birtist um sama efni í Þjóðviljanum, dags. 23. marz s.l., um sama efni. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Leggi gamall maður á sig að fara snemma á fætur að morgni dags og bera út blöð og það að sjálfsögðu hvort sem það er sólskin, stórrigning eða stórhríð, því að blöðin þurfa að komast til kaupendanna, þótt þróttur gamla mannsins leyfi það vart í vondum veðrum. Það, sem hann fær greitt fyrir þetta starf með sinn þrjótandi þrótt, á hann að gefa upp til frádráttar þeirri upphæð, sem hann er að sækja um í lágmarkstekjutryggingu.“

Greinarhöfundur bætir við öðrum dæmum um hliðstætt óréttlæti og rekur einnig, hvernig draga þarf frá greiðslur frá lífeyrissjóðum, sem verkalýðsfélögin hafi barizt fyrir að koma upp mörgum hverjum og verkalýðsfélögin eigi. Síðan segir hann m.a.:

„Ég sé ekki annað en ríkisstj. sé með þessum smásálarskap að hvetja gamla fólkið, sem hefur vilja til smáígripavinnu eftir sínu starfsþreki, að sitja heima, því að ég held, að það séu fáir, sem hafa löngun til að vinna og láta allar atvinnutekjur renna í ríkissjóð óskertar.“

Nú má vera, að hæstv. ráðh. lesi Morgunblaðið betur en Þjóðviljann. Því gæti verið, að sú grein, sem ég vitna hér i, hafi farið fram hjá honum. Mér þykir það þó heldur ósennilegt, og má hver lá mér það, sem vill. Hæstv. ráðh. hefði því gjarnan mátt sleppa þessu nöturlega innleggi í umr. um þessi mál, sem hann óneitanlega gerði í útvarpsumr. Á hitt vil ég leggja áherzlu við hæstv. ráðh., að mér gengur það eitt til með skrifum mínum um umrætt mál að hvetja til, að þetta ákvæði ásamt öðru því, er varðar kjör aldraðra, verði sem fyrst endurskoðað og komið í betra horf. Ég vona, að við getum orðið sammála um nauðsyn þess.