20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

1. mál, fjárlög 1972

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram tvær brtt., sem er að finna á þskj. 267. Fyrri till., sem er undir lið III, er við 4. gr. frv. um það, að undir Landnám ríkisins komi nýr liður: Framlög samkv. 76. gr. 20 millj. kr. Mér er það ljóst, að hér eru sumir, sem ekki hafa kunnugleika á þessu máli, sem ég drep hér á, og þá er það ekki nema eðlilegt, að þetta sé að nokkru skýrt, í hverju þetta framlag er fólgið. En um leið og ég geri það, hlýt ég að rekja lítillega aðdraganda þess, að þessi till. mín er fram komin.

Á síðasta þingi voru lög um Landnám ríkisins endurskoðuð af mþn. Í þeirri mþn. áttu sæti Pálmi Jónsson alþm., Árni Jónsson landnámsstjóri, Bragi Sigurjónsson alþm., Vilhjálmur Hjálmarsson alþm. og Jónas Jónsson ráðunautur. Þessi nefnd starfaði milli þinga og fram á s.l. vetur, nokkuð fram yfir áramót, en skilaði þá sameiginlegu nál. og drögum að frv., sem varð síðan að lögum í marzmánuði 1971. Það var sameiginlegt álit þessara manna, að Landnám ríkisins bæri að efla og veita því aukin fjárráð til þess að stuðla að verulegrí ræktun og uppbyggingu um sveitir landsins. Reglur Landnámsins um þessar greiðslur á framlögum hafa jafnan verið þær, að framlögin hafa verið greidd á sama ári og framkvæmdin hefur verið gerð. Þess vegna var það sett í lögin, þegar þau voru samþ. á s.l. vori, hver framlögin á árinu 1972 skyldu vera. Hins vegar var það öllum ljóst, að fjárveitingar, sem ákveðnar voru í fjárlögum fyrir árið 1971 og miðaðar voru við eldri lög, yrðu of lágar til þess að mæta þörfum ársins 1971. Og fyrir því var sett þessi 76. gr. laganna, sem var ákvæði til bráðabirgða og er svo hljóðandi með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er Landnámi ríkisins að greiða á árinu 1972 framlög samkv. lögum þessum vegna framkvæmda, sem teknar eru út á árinu 1971.“

Þessi till. mín miðar að því, að landnámsstjórn verði gert kleift að verða við þessu, sem henni er heimilað að gera í lögunum, sem sett voru á s.l. ári.

Ég hef fengið í hendur áætlun frá landnámsstjórn um það, hversu miklu þessi fjárhæð næmi, sem líklegt væri, að þyrfti að greiða vegna þessara framkvæmda, og niðurstaðan af þeirri athugun er sú, sem ég hef lýst hér fyrir ykkur, að framlögin gætu numið um 20 millj. kr. Mér þykir ástæða til að leiða það hér sérstaklega fram, að meginhluti eða stærsti hlutinn í þessari áætlun er talinn stafa af grænfóðurræktun, sem gerð er á árinu í ár og sem fyrst og fremst hefur miðað að því að bæta upp gömul sár í landinu eða kölin frá undanförnum árum, til þess að einhver not yrðu af því landi strax á þessu ári. Sá hlutur eða sú upphæð, sem til þeirra hluta þarf, er 12 millj. kr.

Nú geri ég ráð fyrir því, að margur spyrji, hvaða þörf sé á þessum framlögum í ræktuninni, hvort bústofninn í landinu geti ekki orðið nægilega stór, þrátt fyrir það að ekki sé haldið áfram á þessari leið. En ég vil í því sambandi minna á það, að ræktun landsins er kannske einn veigamesti þátturinn í því uppbyggingarstarfi, í því landgræðslustarfi, sem við þurfum að vinna og öll viljum vinna. Og mér hefur verið það sérstök ánægja undanfarna sunnudaga að lesa greinaflokka, sem birzt hafa í daghlaðinu Tímanum um landgræðslumál. Og í gær birtist í Tímanum grein, þar sem rætt var við Jónas Jónsson ráðunaut, einn þeirra manna, sem var í endurskoðunarnefndinni um Landnám ríkisins og nú er aðstoðarmaður landbrh. Hann dregur þar fram æðimarga þætti, sem munu stuðla að því, að landgræðslan gæti orðið sem áhrifaríkust í landinu. En mér skilst á því, sem hann lætur hafa eftir sér hér í þessu blaði, þá sýnist honum, að það hafi mesta þýðinguna að auka ræktunina í byggðum til þess að auka beitarþol landsins, það verði notadrýgst og árangursríkast í þessari baráttu. Og hann segir svo: „að skipulegri nýtingu gróðurlands og nægri ræktun beitilands, þannig að land verði hvergi ofsetið.“ Þetta telur hann eitt af frumskilyrðunum. „Ætlunin er, að þessu áformi [að auka beitarþol landsins] stjórnarinnar, [þar er hann að tala um málefnasamning ríkisstj.] fylgi allsherjar átak þjóðarinnar... Höfuðátakið hlýtur að verða á sviði gróðurverndar og uppgræðslu.“

Hann kemur í þessu spjalli sínu inn á sjónvarpsþátt, sem var um daginn og hann var m.a. þátttakandi í og einnig Sveinn Hallgrímsson sauðfjárræktarráðunautur. Um það segir hann:

„Þarna komum við inn á búskaparhætti í sjónvarpsþætti um þessi mál fyrir skömmu. Þar lagði Sveinn Hallgrímsson áherzlu á, að við ættum að hverfa í vaxandi mæli frá hjarðbúskap með sauðfé og fara út í ræktunarbúskap.“ Og enn segir hann: „Ég vil leggja mikla áherslu á ræktun og beit á ræktað land, sérstaklega haustbeit, og grænfóðurrækt til beitar, sem gefið hefur góða raun.“

En því minni ég á þessi orð þessa manns, sem bæði er sérmenntaður á þessu sviði, vann að endurskoðuninni á þeim lögum, sem um þessi mál fjalla, því minni ég á þessi orð hans, að ég tel eðlilegt, að menn trúi þeim betur heldur en mínum, sem hef ekki fagþekkingu á þessum málum. Og ég vil enda mál mitt um þetta efni með því að taka undir það, sem Jónas Jónsson segir hér í greininni. Hann segir:

„Það nægir ekki til árangurs, að menn samþykki þessi áform í orði, heldur verða þeir að leggja meira af mörkum.“

Og það er það, sem ég ætlast til með því að flytja þessa till. mína hér á hv. Alþ., að við leggjum það af mörkum í verki með samþykkt till., þessar 20 millj., til þess að kippa gróðurverndinni dálítið lengra áfram.

Till. mín önnur eða tölul. 2 varðar fjármagn til hafnarannsókna og mælinga. Ég legg til, að fyrir 2 millj. 42 þús. komi 4 millj. 42 þús. kr. og við liðinn bætist: Þar af 3 millj. kr. vegna rannsókna á hafnarstæði við Dyrhólaey. Það er svo skammt um liðið síðan flutt var hér í Sþ. till. til þál. um rannsóknir á hafnarstæði við Dyrhólaey, og á þann veg fylgt úr hlaði, að ég tel þess naumast þörf að rifja þetta verulega upp. Þó þykir mér rétt að undirstrika það, sem þar kom fram, að undanfarin tvö ár hafa verið lagðir til þess nokkrir fjármunir að gera athugun á skilyrðum til hafnargerðar við Dyrhólaey. Það hefur komið í ljós, að þessi athugun og þessar rannsóknir eru miklu kostnaðarmeiri heldur en við gátum látið okkur detta í hug, þegar á þessu var byrjað. Eigi að síður eru margir þeirrar skoðunar, að þarna sé um stórt mál að ræða, sem geti leitt til þess árangurs, að við megum ekki hika við að rannsaka það til hlítar, hvað það kostar eða hvort það er mögulegt að koma á hafnarmannvirkjum þarna á þessum stað.

Það hefur komið fram, að við fjárlagagerðina að þessu sinni hefur ekki verið fyllilega staðið við þær óskir, sem vita- og hafnamálaskrifstofan hefur sett fram um framlög til hafnarannsókna og mælinga. Og þegar það hefur enn fremur upplýstst, eftir að vita- og hafnamálaskrifstofan hefur sett fram sínar óskir, að rannsóknir við Dyrhólaey eru miklu fjárfrekari en búizt var við, þá hef ég ákveðið að gera tilraun til þess að fá þetta fé aukið að nokkru,svo að þarna verði náð einhverjum áfanga. Ýmsir verkfræðingar telja, að þessar rannsóknir kosti fleiri millj. kr. Þeir hafa verið að tala um 5 millj., aðrir 8 millj. Um það ætla ég ekki að fella neinn dóm, en mér sýnist á þessu, að málið sé það stórt, að nauðsynlega þurfi að fá meira fjármagn til þess að þessu sinni heldur en hægt er að fá með þeirri fjármálatillögu, sem í fjárlagafrv. er. Þess vegna hef ég lagt það til. að þessi fjárlagapóstur verði hækkaður um 2 millj. kr., verði samtals 4 millj. 42 þús. kr. og að af þeirri upphæð megi 3 millj. ganga til rannsókna á hafnarstæðinu við Dyrhólaey. Ég vil mælast til þess við hv. Alþ., að það fallist á þessar till. minar báðar og samþykki þær.