20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

1. mál, fjárlög 1972

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég hef á þskj. 245 leyft mér, ásamt hv. 12. þm. Reykv., að flytja brtt. um, að fjárveiting til Kvenfélagasambands Íslands hækki um 345 þús. kr. Sú hækkun, sem hér er lagt til, að verði á fjárveitingu til Kvenfélagasambandsins, nemur launum forstöðukonu Leiðbeiningarstöðvar húsmæðra, sem Kvenfélagasambandið rekur. Eftir 2. umr. fjárlaga, þegar hv. fjvn. hafði lagt til og verið samþ. að hækka fjárveitingu til Kvenfélagasambandsins úr 800 þús. í 1 millj., skrifaði stjórn Kvenfélagasambandsins öllum hv. þm. og gerði grein fyrir fjárþörf sambandsins og sundurliðun á áætluðum rekstrargjöldum starfseminnar á næsta ári. Þetta bréf og upplýsingar hafa allir hv. þm. undir höndum. Af því má sjá, að öllum rekstrargjöldum sambandsins er mjög í hóf stillt og má reyndar telja, að furðu gegni, hve miklu þjóðnytjastarfi Kvenfélagasambandið hefur haldið uppi á undanförnum árum, þrátt fyrir mjög þröng fjárráð alla tíð. Og sundurliðunin sýnir mönnum enn fremur, að þarna er um býsna margþætta starfsemi að ræða.

Ég skal ekki fara að fjölyrða um þá þjóðhagslegu þýðingu, sem starfsemi Kvenfélagasambandsins hefur með því fræðslustarfi, sem það heldur uppi fyrir íslenzk heimili, og ég veit þó, að fyrir henni gera sér ekki allir grein. Kvenfélagasambandið hefur einn fastráðinn starfsmann í fullu starfi, sem er forstöðukona Leiðbeiningarstöðvar húsmæðra, og á starfi hennar byggjast að ýmsu leyti einnig aðrir þættir í starfsemi sambandsins. Þessi leiðbeiningarstöð hefur unnið mikið og gott starf og það er mikið til hennar leitað, þar eð stöðin svarar bæði munnlega og í síma og með bréfum ýmsum fsp. og gefur út einnig fræðslurit, og það getur verið kannske fróðlegt fyrir hv. þm. að heyra það, að það er fjöldi karlmanna, sem leitar ráðlegginga hjá þessari leiðbeiningarstöð.

Ef leggja þyrfti niður þessa stöð eða sem sé ef ekki væru fjárráð til að ráða til hennar vel hæfa og sérmenntaða konu, — og ég vil taka það fram, að Kvenfélagasambandið hefur verið ákaflega heppið með þann starfskraft, sem það hefur nú við stöðina, — ef til þess kæmi sem sé, að það þyrfti að leggja niður leiðbeiningastöðina, þá yrði það ákaflega mikið áfall fyrir alla starfsemi Kvenfélagasambandsins. Eins og fram kemur í bréfinu, sem Kvenfélagasambandið skrifaði þm., þá skrifaði sambandið í júlí s.l. og fór fram á fjárveitingu að upphæð samtals 1 460 þús., 345 þús. kr., sem eru laun forstöðukonu leiðbeiningarstöðvar og 1 115 þús. til annarrar starfsemi sambandsins. Menntmrn. lagði til í bréfi 29. júlí s.l. til fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar, að beiðni Kvenfélagasambandsins yrði tekin til greina og því ætlað samtals 1 460 kr. í fjárlögum 1972 eða sem sé, að beiðni sambandsins yrði tekin að fullu til greina.

Þá hef ég einnig þær upplýsingar og aðrir af bréfi fjmrn. til fjvn., sem er dags. 8. nóv. og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Rn. sendir hv. fjvn. Alþ. meðfylgjandi ýmis erindi um fjárveitingar árið 1972, sem borizt hafa. Rn. vill vekja sérstaka athygli á erindi Kvenfélagasambands Íslands og mælir með framgangi þess.“

Eins og fram er komið, þá hefur fjvn. ekki tekið þá afstöðu til þessa erindis sambandsins að sinna því að fullu, en mælti hins vegar með eða lagði til 200 þús. kr. hækkun á fjárveitingunni, sem fyrir var í frv., og var það samþ. við 2. umr. fjárlaga. Brtt. okkar hv. 12. þm. Reykv. felur það í sér, eins og áður segir, að við fjárveitingu til Kvenfélagasambandsins, eins og hún er eftir 2. umr., bætist 345 þús. kr. Það nær að vísu ekki að fullu þeirri upphæð, sem sambandið upphaflega fór fram á, en mundi þó verða mikill styrkur fyrir starfsemi sambandsins. Ég vænti því, að hv. þm. sjái sér fært að greiða þessari brtt. atkv., og vil alveg sérstaklega undirstrika tilmæli menntmrn. til fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar og fjmrn. til fjvn. um, að orðið verði við beiðni sambandsins.

Þá hef ég á þskj. 274 undir lið IV flutt brtt. við fjárlagafrv. um, að þar verði tekinn inn nýr liður undir kaflaheitinu dómsmál, ýmis kostnaður, og það er gerð afbrotaskýrslna, 500 þús. kr. fjárveiting. Ég skal nú gera nokkru nánari grein fyrir þessu máli.

Á s.l. vetri var í dómsmrn. unnið að undirbúningi þess, að tekin yrði upp hér á landi gerð afbrotaskýrslna í því formi, sem nú tíðkast með öðrum þjóðum og okkar nágrannaþjóðum. Ég ræddi þetta mál þá ítrekað við prófessor Ármann Snævar, sem átt hefur sæti í íslenzku hegningarlaganefndinni, að ég ætla, frá því að sú nefnd var sett á laggirnar, en nefndin er af Íslands hálfu aðili að samvinnu Norðurlandanna á sviði refsiréttar, og það hefur m.a. háð mjög þátttöku okkar í þessu samstarfi, að ekki skuli vera til héðan samanburðarhæfar afbrotaskýrslur. Ég fór þess á leit við prófessor Ármann, að hann léti mér í té álitsgerð um það, á hvern hátt yrði heppilegast að haga vinnubrögðum í þessum efnum, og ég vil einnig skjóta því hér inn i, að meðan málið var þannig á umræðustigi, kom á fund minn stjórn sagnfræðingafélagsins, — formaður þess er núv. prófessor í refsirétti við lagadeild háskólans, — og lét í ljós eindregnar óskir félagsins um, að hér yrði efnt til slíkrar skýrslugerðar. Prófessor Ármann Snævarr lét mér í té álitsgerð um mánaðamótin maí–júní, álitsgerð, sem hann nefnir „Nokkrar athuganir um vinnubrögð við samningu afbrotaskýrslna hér á landi.“ Hann bendir þar á stofnanir og aðila, sem til greina geti komið, að ynnu verkið, og virtist sú tilhögun heppilegust, að það yrði unnið á vegum Hagstofu Íslands og gæti þá tengzt gerð almennra dómsmálaskýrslna, en auk tölfræðilegrar þekkingar, sem Hagstofan að sjálfsögðu leggur til, þyrfti, þegar verkið er komið í gang, að njóta að einhverju marki aðstoðar sérfræðings um refsirétt og refsiréttarfar. Málið var síðan rætt á fundi í rn. með prófessor Ármanni, hagstofustjóra og starfsmönnum úr rn. Hagstofustjóri taldi, að í hans stofnun ætti verkið ekki að valda kostnaði, sem verulegur gæti talizt. En aðstoð sérfræðings um refsirétt og réttarfar má ætla, að yrði ekki nema hluti af fullu starfi, þegar skýrslugerðin er komin í gang. Sú fjárveiting, sem hér er lagt til, að upp verði tekin, miðast hins vegar við þann kostnað, sem ætla má, að verði við undirbúning þess að hrinda skýrslugerðinni í framkvæmd. En það er afar áríðandi, að sem bezt sé vandað til grundvallar undir afbrotaskýrslurnar og til allra vinnubragða og að gæta þess, að þær séu gerðar með samræmdum hætti, þannig að þær falli að hinni norrænu og alþjóðlegu afbrotatölfræði. Árleg fjárveiting vegna gerðar slíkra skýrslna ætti, þegar undirbúningi er lokið og skýrslugerðin komin í framkvæmd, að verða allmiklu lægri en það, sem hér er lagt til vegna undirbúningsins. Skýrslur um afbrot og meðferð mála út af þeim hafa að vísu verið birtar hér á landi og var það einhvern tíma á árunum 1870–1880, að birting þeirra hófst. Þær birtust í landshagskýrslum og stjórnartíðindum og síðan í hagskýrslum. Á þessari birtingu hefur þó orðið hlé um alllangt árabil, og skýrslurnar hafa verið þannig úr garði gerðar, að það vantar mikið á, að þær séu samanburðarhæfar við nútímaskýrslur annars staðar eða að þær veiti þær upplýsingar, sem nú er talið nauðsynlegt, að slíkar skýrslur veiti. Sú gerð afhrotaskýrslna, sem hér er stefnt að, yrði og með töluvert öðrum hætti en hér hefur tíðkazt og má í því sambandi t.d. nefna ýmsar upplýsingar, sem eru félagslegs eðlis, svo sem um hagi og félagslegan bakgrunn afbrotamanna og ýmislegt fleira. Það er nú almennt talið, að afbrotaskýrslur í þessari mynd séu beinlínis nauðsynleg undirstaða þess, að hægt sé að móta skynsamlega stefnu á sviði refsiréttar og refsinga og við val á úrræðum í baráttu þjóðfélagsins gegn afbrotum.

S.l. vor sendi dómsmrn. fjárveitingartillögu samhljóða þeirri, sem hér liggur fyrir, ásamt öðrum tillögum rn. til fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar, sem þá að venju var farin að undirbúa fjárlög næsta árs. Ég vil í því sambandi láta í ljós alveg sérstaka ánægju mína yfir því, að tvær till. um nýja fjárveitingaliði, sem m.a. voru í tillögum rn., hafa verið teknar inn í fjárlagafrv., þ.e. til námskeiða fyrir fangaverði og til læknis- og sálfræðiþjónustu fyrir fanga. Auk þess hafa verið teknar inn fjárveitingar til aðgerða í fangelsismálum, sem ég vil einnig lýsa mikilli ánægju yfir, að skuli vera komnar inn í fjárlagafrv. Það má að vísu sjálfsagt um það deila, hvort þær hrökkva fyrir því, sem hefði þurft að gera á næsta ári. Ég skal ekki fjölyrða um það, en vil í því sambandi láta þess getið, að það er þá ekki sízt sú fjárveiting, sem ætluð er til Síðumúlafangelsisins til þess að unnt verði að nýta það til bráðabirgða fyrir kvenfanga, en það hefur satt að segja verið ömurlegt ástand í málefnum kvenfanga og afplánunarmálum þeirra og gæzluvistarmálum, og mun þessi úrbót, þegar í gagnið kemur, binda endi á það slæma ástand, sem verið hefur um langa hríð í þessum efnum.

Ég hafði satt að segja staðið í þeirri meiningu, að fjvn. hefði haft þessar tillögur dómsmrn., allar jafnvel og þar með tillöguna um afbrotaskýrslurnar, til meðferðar, en þegar ég varð þess vör, að svo hafði ekki verið við 2. umr. fjárlaga, þá kom ég því á framfæri, að n. tæki milli 2. og 3. umr. til athugunar þetta erindi eða slíka fjárveitingu, en ég sé ekki, að hv. fjvn. hafi talið sig geta orðið við þeirri beiðni. Á s.l. vetri urðu bæði innan þings og utan allmiklar umr. um málefni refsifanga. Og ég býst við, að við getum öll verið sammála um, að í aðgerðum til úrbóta í þeim efnum eigum við margt óunnið. Ég vona því, að hv. þm. sjái sér fært að styðja brtt. mína á þskj. 274 og stuðla þannig að því, að nauðsynlegur grundvöllur fáist til að taka ákvarðanir um raunhæfar og aðkallandi aðgerðir á þessu sviði. Fari hins vegar svo mót vonum mínum, að till. verði felld, þá er þó allavega til nokkurs unnið, sem sé að beina athygli að miklu nauðsynjamáli.