20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

1. mál, fjárlög 1972

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. til fjárlaga á þskj. 249. Auk þess er ég meðflm. að tveim öðrum till., sem ég mun nánar koma að, en ég skal gera mál mitt stutt og bendi aðeins á þann lið, er fjallar um elliheimili, þ.e. rekstrarstyrkir. Ég legg til, að það verði skýrt markað í fjárlögum, að sú upphæð, sem fari til elliheimila, séu rekstrarstyrkir. Ég legg til, að þessi liður hækki í 5 millj. kr. Á s.l. ári nam þessi styrkur, að mér er bezt kunnugt, um það bil 6–7 kr. á dag fyrir einstakling, sem á elliheimili dvelur. Þegar haft er í huga, að þessi greiðsluupphæð á dag fyrir slíka einstaklinga er á elliheimilinu Grund 350 kr., þá sjá allir, að þetta er auðvitað út í bláinn og enginn verulegur styrkur. Ég vil með þessari till. freista þess að koma nokkuð til móts ekki aðeins við þá einstaklinga, sem þar dvelja, heldur og þessi heimili með því, að þessi upphæð hækki nú. Það hefur verið mikið rætt um það, að það sé komið á móti hinum öldruðu, sem rétt er og ég skal fúslega viðurkenna, að hefur verið gert með þeirri till., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram, en við skulum heldur ekki gleyma þessum aðilum, sem þarna dvelja. Þótt sumir þessara aðila fái greitt sitt, annaðhvort frá sveitarfélögum eða frá Tryggingastofnun ríkisins, þá er þarna margt fólk, sem borgar af sínu sparifé, sparifé, sem það hefur safnað saman í gegnum árin, gegnum sín vinnuár, og er að étast upp vegna aukinnar verðbólgu á undanförnum árum í okkar landi og sem fyrirsjáanleg er í framtíðinni. Ég þykist ekki þurfa að hafa fleiri orð um þessa till.

Ég flyt jafnframt brtt. við ákvæði um Lánasjóð íslenzkra námsmanna. Þetta er að nokkru leyti shlj. till., sem ég flutti á síðasta þingi þess efnis, að það séu ekki eingöngu stúdentar frá Háskóla Íslands, sem hljóti þau hlunnindi að fá lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna, heldur komi fleiri aðilar til. Ég geri enga hækkunartill., heldur legg til, að af þessari upphæð, 190 millj. kr., sem varið er að sjálfsögðu til nauðsynlegs náms nemenda, sem fara utan, og einnig þeirra, sem fara til að læra frönsku í Frakklandi og píanóleik í Kaupmannahöfn, þá komi inn aðilar, sem eru nemendur í stýrimannaskólum, Vélskóla Íslands, framhaldsdeildum búnaðarskóla, og til framhaldsnáms iðnaðarmanna og kennara, sem ekki eru stúdentar, og ætla með minni till., að af þessum 190 millj. verði teknar 20 millj. kr. til þessa.

Þá legg ég enn fremur til, að við 6. gr. frv. komi nýr liður, þ.e. í heimildarákvæðum, um það, að ríkisstj. sé heimilt að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af búnaði í eldhús og matsali sjúkrahúsa, elliheimila og skyldra stofnana. Þessi liður þarfnast máske nokkurra skýringa, sem að vísu þarf ekki mörg orð um, en hafa ber í huga, að ríkisstofnanir, ríkisspítalarnir virðast ekki annað þurfa heldur en panta sína hluti, sem þeir þurfa til síns rekstrar, og jafnvel þótt þeir séu gjaldfærðir með öllum þeim sköttum, söluskatti, aðflutningsgjaldi og öðru slíku, sem eiga á þá að falla samkv. gildandi lögum, þá hafa þessar stofnanir ekki annað fram undan en vísa þessu til ríkissjóðs og þá er þetta greitt þaðan. En hafa ber í huga, að margar slíkar stofnanir eru reknar ekki aðeins af bæjar- og sveitarfélögum, heldur og af stofnunum og félagasamtökum, og á ég þá kannske sérstaklega þar við ekki aðeins spítala í borgar- og sveitarfélagarekstri, heldur og elliheimilin. Það er auðvitað mjög óréttlátt, þegar þessar stofnanir þurfa að leita til sinna sveitarfélaga eða aðildarfélaga og styrktarmeðlima til þess að standa undir rekstri sínum, að þessi lög, sem fela í sér þessi gjöld, séu til staðar. Ég hef ekki kosið það að þessu sinni að flytja frv. til l. um breyt. á tollskrá, heldur vænti þess, að í núv. hæstv. ríkisstj. sé sá skilningur fyrir hendi, að þetta verði leiðrétt, og þess vegna hef ég kosið að þessu sinni að flytja þessa till., sem felur í sér heimild til ríkisstj. um þetta efni.

Jafnframt er ég meðflm. að tveim till. um fjárframlög í Byggingarsjóð aldraðra. Ég mun að sjálfsögðu styðja þá till., sem lengra gengur, sem jafnframt gerir ráð fyrir því, að skipti fari fram á því fé, sem lagt er til, að fram verði lagt, en það er til þeirra aðila, sem bæði eru lengst komnir á þessu sviði eða eru það langt komnir, að þeir eru að hefjast handa. Ég hef áður hér í Sþ. lýst mínum skoðunum á þeirri þörf, sem er á þessu sviði hér á landi okkar, og ég tel með hliðsjón af því, að það eru ekki aðeins þm. núv. stjórnarandstöðu, heldur og þm. núv. stjórnarflokka, sem hafa sýnt þessu mikla þurftarmáli mikinn áhuga, að nú eigi að brjóta í hlað og hefja þarna nokkra sókn gegn þeim vágesti, sem að gamla fólkinu sækir. Ég hef líka lýst þeirri skoðun minni hér í Sþ., að auðvitað ber okkur að halda okkur að þeirri stefnu og þeirri skoðun, að aldraða fólkið geti dvalið sem lengst á sínum heimilum og með sínu skyldfólki, en sú staðreynd liggur þó fyrir, að sá stóri hópur, sem á hvergi höfði sínu að að halla, getur hvergi að komizt, er orðinn svo gífurlega stór, að þjóðfélaginu ber að koma þarna á móti, og því mun ég fyrst og fremst styðja þá till., sem lengra gengur, og svo að sjálfsögðu þá, sem skemmra gengur, og þó sérstaklega vegna þeirrar brtt. í sambandi við orðalag þeirrar till., er ég flutti við 2. till. þess máls.

Ég hef, herra forseti, í þessum fáu orðum mínum gert grein fyrir þeim till., sem bæði ég flyt og er meðflm. að. Ég vil hins vegar taka það líka fram vegna till., sem fram hefur komið um breytingar á þeim lið, er Alþ. ákvarðar um heiðurslaun listamanna, að þegar ég sá hér í dag útbýtt tveim till. um tvo mæta rithöfunda til viðbótar þeim, sem fyrir eru, þá skoðaði ég nokkuð hug minn og sá, þegar ég leit á þskj. 276, að þar er um að ræða 11 valinkunna listamenn, alla karlkyns. Hafandi í huga þær umr., sem orðið hafa hér á þingi að undanförnu og kannske sérstaklega s.l. laugardag, þá finnst mér eiginlega, að núv. hv. þingheimur megi ekki láta hjá líða að hugsa aðeins til íslenzkra kvenna í listamannastétt. Ég leitaði fyrir mér í dag um það meðal þm. frá stjórnarflokkunum, hvort þeir mundu fylgja brtt. frá mér um það, að við þá seinni brtt., sem fyrir liggur undir þessum lið, bættust tveir kvenrithöfundar, Guðrún frá Lundi og Svava Jakobsdóttir. Ég fékk því miður ekki undirtektir við þessa till., þannig að ég hef ákveðið að svo stöddu að sitja hjá við atkvgr. um þessa liði.