20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

1. mál, fjárlög 1972

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki hugsað mér að fara að ræða fjárlögin hér í kvöld, þótt ég kæmi upp í pontuna. Ég kem hér nú aðallega vegna till., sem ég hef flutt um það að bæta við einum manni í þann hóp, sem skipar heiðurslaunaflokkinn. Hæstv. menntmrh. var að enda við að tala fyrir till., sem hann flytur hér, sem er alger breyting frá því, sem verið hefur. Skildist mér á hæstv. ráðh., að hann vildi með þessum tillöguflutningi hafa vít fyrir hv. þm. og forða því, að hér gerðist nokkur skaði, með því að margar till. gætu fram komið frá ýmsum þm. um það að taka rithöfunda og listamenn inn í þennan hóp. Ég fyrir mitt leyti tel nú talsvert í það varið, að hv. þm. haldi því frelsi, sem þeir hafa haft, og ég tel engan skaða skeðan, þótt þm. komi með till. um þetta eins og eitthvað annað. Það verður svo vitanlega meiri hl. þm. hverju sinni, sem ræður og ákvarðar um það, hverjir hafa nægilegt fylgi til þess að komast í þennan hóp. Ég er á móti þeirri till., sem hæstv. ráðh. hefur flutt hér. Hún felur það í sér, að valdið er raunverulega tekið af Alþ. Hæstv. ráðh. talaði um það, að menntmn. ættu að fjalla um málið, aðrir þm. gætu komið sínum skoðunum fram í menntmn. En hvaða vald er það, sem hv. menntmn. er ætlað að hafa, ef þessi till. verður samþ.? Hún hefur ekkert vald. Hún hefur tillögurétt til ráðh., en ráðh. er ekkert bundinn af þessum till. Hann getur skipað mann í þetta sæti nú, 12. sætið, eftir sinu höfði þrátt fyrir tillögu, eins og till. er orðuð. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég vantreysti þessum hæstv. menntmrh. frekar en þeim næsta, sem kann að koma, ég væri á móti þessari till., hver sem væri í menntmrh.-sætinu. Með þessari till. á að ákveða það, að þeir, sem skipa heiðurslaunaflokkinn, skuli vera 12. Menntmn. Alþ. eiga að gera till. til hæstv. ráðh. um það, hverjir skuli skipa þennan hóp, hverjum skuli bæta inn í jafnóðum og einhver fellur úr. Og ég veit, að hv. þm., þegar þeir lesa skýringarnar við þessa till., hljóta að komast að raun um það, hvað í henni felst. Það þarf engan lögfræðing til þess að skýra það. Það er alveg ljóst, að ráðh. á að fengnum till. að velja úr þeim hópi, sem menntmn. gera till. um, en ekki að skipa eftir till. n. Þar er orðamunur mikill, sem skiptir máli. Ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. þm. vilji afsala sér þeim rétti, sem þeir hafa, og eins og ég sagði áðan, skiptir ekki máli, hver er í menntmrh.-sæti í það eða það skiptið.

Ég hef leyft mér ásamt þremur öðrum þm. að flytja till. um það, að Guðmundi Daníelssyni rithöfundi verði bætt í þennan hóp. Guðmundur Daníelsson er rúmlega sextugur maður. Hann hefur verið afkastamikill rithöfundur. Það eru 30—40 bindi, skáldsögur og önnur rit, sem eftir hann liggja. Nú væri það út af fyrir sig ekki beinlínis hrósvert, þó að mikið lægi eftir einhvern rithöfund. En það, sem máli skiptir, er, að það, sem Guðmundur hefur skrifað, er mikið lesið. Þær bækur, sem eru gefnar út eftir hann, eru keyptar og lesnar og þannig er það, að af mörgum þeim bókum, sem hafa verið gefnar út eftir Guðmund, eru komnar tvær útgáfur, vegna þess að allt hefur selzt upp. Síðasta bókin, sem kom út eftir hann í stóru upplagi, Spítalasaga, var uppseld áður en jólaverzlunin byrjaði, og verður vitanlega gefin út aftur í miklu upplagi. Til viðbótar hinum mörgu skáldsögum og ritum, sem eftir Guðmund liggja, má minna á það, að hann hefur bjargað miklum verðmætum frá því að týnast alveg með því að tala við tugi, ef ekki hundruð, manna á efri árum, bæði konur og karla, og festa á blað mikinn fróðleik eftir þessu fólki, sem annars hefði glatazt. Og þegar tímar líða, mun þetta verða mikils metið.

Ég viðurkenni það, að mönnum getur sýnzt sitt hvað í sambandi við rithöfunda og listamenn, og það er eðlilegt, að það séu skiptar skoðanir á meðal þm. um það, hverjir eiga að skipa þennan sess. Og þannig á það að vera, að menn hafi leyfi til að hafa skoðanir. Og það á að vera þannig, að meiri hl. geti ráðið. Alþ. Íslendinga er ekki tilbúið til þess að afsala sér þeim rétti, sem það hefur, til eins manns, til ráðh., og jafnvel þótt hann vildi gera allt sitt bezta, þá á Alþ. ekki að afsala sér valdinu til eins manns. Og mér finnst það nú dálítið skrýtið, ég segi það, þótt það hafi verið flutt frv. í fyrra í þessum dúr, sem ekki varð nú fullkomið samkomulag um, að Alþ. ákveði það með lögum, að í þessum hópi skuli aldrei vera fleiri heldur en 12. Er nokkurt vit í því að ákveða það fyrir fram, að það skuli aldrei vera fleiri en 12, sem séu þess virði að komast í þennan hóp? Ég held, að það sé miklu eðlilegra, að Alþ. meti það og ákvarði á hverjum tíma, hversu margir menn skulu skipa þennan flokk. Við skulum vona, að þannig verði það alltaf á Íslandi, að það verði fleiri en 12 listamenn og rithöfundar, sem séu þess virði að skipa þennan hóp manna. Og ég held, að miðað við önnur útgjöld á fjárlögum landsins sé þetta, sem hér er um að ræða, heiðurslaun, eins og þau eru nú á fjárlögum, það sé ekki sú upphæð, að hún sé út af fyrir sig umtalsverð, og ég gæti vel hugsað mér það, að það væru mun fleiri menn, sem væru teknir inn í þennan heiðurslaunaflokk.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. En ég er alveg sannfærður um, að það eru fleiri hv. þm. á sama máli og ég, að vilja halda þeim rétti, sem þeir nú hafa til tillöguflutnings og ákvörðunar um þetta mál eins og önnur hér í Alþingi.