20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

1. mál, fjárlög 1972

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég tel mig eiga fullkomið erindi í ræðustól á ný, sökum þess að í ræðu hv. 1. þm. Sunnl. kom fram svo hrapallegur misskilningur á máli mínu, að ég fæ með engu móti skilið, hvernig þingskörungur, sem gránað hefur á hár hér í sölum Alþ., getur misskilíð mál mitt svo gersamlega. Hv. 1. þm. Sunnl. margendurtók, að í till. minni fælist, að færður væri réttur frá Alþ. til ráðh., till. mín fjalli um það, að Alþ. afsali sér réttinum til að velja menn á heiðurslaunalistann til menntmrh. Um það stendur ekki stafkrókur í minni till. Hún hljóðar svo:

„Heiðurslaun má veita allt að 12 listamönnum, og skulu menntmn. beggja d. Alþ. gera í sameiningu till. um, hverjir í þann flokk bætist hverju sinni.“

Ég spyr hv. þm. Til hverra gera þn. tillögur sínar? Gera þær það yfirleitt til ráðh.? Nei, þær gera till. sínar til Alþ. Í þessu tilviki mundu menntmn. gera sínar till. til Sþ. við afgreiðslu fjárlaga. Hvernig þetta getur misskilizt svo, að ég sé að sölsa undir ráðherraembætti vald Alþ., það er algerlega ofvaxið mínum skilningi. Sþ. afgreiðir fjárlög hverju sinni, svo það getur eingöngu verið til Alþ., sem ætlazt er til, að menntmn. geri sínar till. um heiðurslaunalistamenn hverju sinni. Ráðh. kemur þar hvergi nærri, nema sem atkvæðisbær alþm. á við hvern annan.