20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

1. mál, fjárlög 1972

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að ræða almennt um fjárlögin, enda hefur það verið gert nokkuð mikið hér í dag, m.a. af síðasta ræðumanni. En ég vil taka undir það með honum, hv. 3. þm. Norðurl. v., að ég teldi það til bóta, ef það fyrirkomulag væri tekið upp, að almennar umr. gætu orðið í þinginu um fjárlögin við 1. umr., þó að það hafi nú ekki tíðkazt síðan útvarpið kom til sögunnar. Mitt erindi hingað upp í ræðustólinn var nú í fyrsta lagi að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. eða sjútvrh. í brtt. frá fjvn. á þskj. 243 er í 35. tölul. á bls. 3 gert ráð fyrir verðuppbótum á linufisk, 20 millj. kr. Ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvort ekki megi gera ráð fyrir því, að hér sé um að ræða verðuppbætur á línufisk á öllum tímum árs. Fsp. er um það.

Eftir að hafa lesið fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir nú við 2. umr., og eftir að hafa lesið þær brtt., sem fram hafa komið hér í dag frá einstökum þm., aðallega frá þm. úr stjórnarandstöðunni, en einnig frá öðrum þó, þá hef ég ákveðið að flytja tvær brtt. við frv. og eru þær nú reyndar ekki um háar fjárupphæðir. Önnur, þessara brtt. er prentuð á þskj. 274. Það er III. tölul.: Til viðhalds og varðveizlu gamla prestsseturshússins á Sauðanesi á Langanesi, sem byggt var úr íslenzkum steini um 1880. Ég veiti því athygli, að fjvn. hefur að þessu sinni lagt til, að dálitlar fjárupphæðir, að vísu ekki háar, verði veittar til þess að halda við gömlum húsum á ýmsum kirkjustöðum. Það er að sjálfsögðu liður í þeirri víðleitni að varðveita þjóðlegar minjar. Ég tel, að þessi till. sé sama eðlis. Það er ekki farið fram á mikið. Till. er um 50 þús. kr. Þetta prestsseturshús, sem ég nefndi hér, er, eins og í till. stendur, byggt um 1880. Sá, sem lét byggja húsið, var séra Vigfús Sigurðsson, sem þá var prestur á Sauðanesi, mikill framkvæmdamaður. Hann lét einnig byggja kirkju á staðnum, sem enn stendur. Þetta hús var ekki byggt úr venjulegu efni, eins og prestssetur gerðust þá, ekki baðstofa og ekki timburhús og ekki heldur úr múrsteini innfluttum, heldur var húsið byggt úr tilhöggnu grjóti, sem numið var á ýmsum stöðum þar í sveitinni, og m.a. var einhver partur af því tekinn úr huldufólkssteini, en því varð nú að hætta, því að huldufólkið sá um sig. Í þessu húsi hefur verið búið fram á síðasta áratug eða réttara sagt næst síðasta, fram undir 1960, en þá var byggt nýtt hús yfir sóknarprestinn og síðan hefur ekki verið búið í húsinu. Og það er eins og auðvitað er um hús, sem ekki er búið í, að þau liggja undir skemmdum, og þetta hús er nú farið að láta á sjá nokkuð, en er þó reisulegt og það eru margir, sem hafa áhuga fyrir því, að því verði haldið við sem fornminjum. ég hef á sínum tíma ritað þjóðminjaverði um þetta, og einnig rætt um það við hann oftar en einu sinni, en hann hefur borið við fjárskorti. Því er nú þessi brtt. fram lögð. Ég sendi erindi um þetta til fjvn., en það skal játað, að það var sent nokkuð seint. Ég vona, að það verði tekið vínsamlega í þessa litlu till.

Hér er nú farið að ræða um heiðurslaun til ríthöfunda, og í frv. er þegar gert ráð fyrir heiðurslaunum til allmargra og fram eru komnar hér á fundinum a.m.k. tvær till. um slík heiðurslaun til rithöfunda, sem ekki hafa hlotið þau áður. Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að skipta mér af því, þegar þessir bókmenntastyrkir hafa verið hér til meðferðar á Alþ., og ég veit nú ekki, hvaða leiðbeinanda hv. fjvn. hefur á undanförnum árum haft í íslenzkri bókmenntasögu eða bókmenntum við úrval sitt. En þegar ég var nú að lesa þetta yfir, kom mér í hug einn maður, sem mér finnst, að kannske hefði átt áður að vera búinn að fá þessi heiðurslaun ekki síður en aðrir. Sá maður, sem ég þar á við, er nú löngu þjóðkunnur og var þegar orðinn það, þegar ég var ungur að árum. Það er ljóðskáldið og rithöfundurinn Jakob Thorarensen. Jakob Thorarensen varð 85 ára á þessu ári. Fyrsta bók hans, ljóðabókin Snæljós, kom út árið 1914. Síðan komu út nokkrar aðrar ljóðabækur á árunum kringum 1920, sem nú eru þjóðkunnar, eins og Sprettir, Kyljur, Stillur, Fleygar stundir og fleiri. 1906 kom út ritsafnið Svalt og bjart, í tveimur bindum. Annað bindið er ljóð, en hitt eru smásögur, því að hann er líka einn af okkar snjöllustu smásagnahöfundum. Ég hygg, að alls hafi komið frá hans hendi, a.m.k. 17 bækur fyrir utan ritsafnið, sem ég nefndi áðan, og má vera, að þær séu fleiri. Ég minnist þess a.m.k. frá því fyrir 50 árum, að þá var það algengt, að fólk á ljóðelskum heimilum kynni mörg af kvæðum Jakobs Thorarensen og það kann þau enn, sem uppi stendur.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það getur vel verið, að það væri rétt að hafa þetta á þá lund, sem hæstv. menntmrh. hefur stungið upp á. Um þann ágreining, sem ríkir á milli hans og hv. 1. þm. Sunnl. um skilning á till., sem borin var fram, má sjálfsagt deila, en út í það skal ég ekki fara. En till. eru hér uppi um heiðurslaun til einstakra manna og í framhaldi af því vil ég leyfa mér að leggja þessa till. fram skrifl. og bið hæstv. forseta að leita afbrigða.