21.12.1971
Sameinað þing: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

1. mál, fjárlög 1972

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er aðeins um atkvgr. Áður en 2. umr. fjárlaga hófst hér á Alþ. þann 14. des., kvaddi ég mér hljóðs til þess fyrir hönd þm. Sjálfstfl. að vara við afgreiðslu fjárlagafrv., eins og til var stofnað. Þegar nokkrir dagar voru til þinghlés,.var raunveruleg fjárvöntun í frv. um 3 600 millj. kr. að okkar dómi. Fjmrh. hefur síðan ekki viljað fallast á nema liðlega 3 000 millj. kr. fjárvöntun. Slíkt geysibil útgjalda og tekna er nú m.a. ráðgert að brúa með nýjum tekjum á næsta ári af skattafrv., sem fram hafa verið lögð fyrir viku síðan. Þau eru mjög umdeild og deila fjmrh. og stjórnarandstaðan um það, hvers konar skattahækkanir felast í þeim, og eru þau með öllu óútkljáð og óafgreidd. Stuðningsflokkar ríkisstj. byggja á um þús. millj. kr. nettótekjuauka af skattafrv. til þess að brúa hluta hinnar miklu fjárvöntunar, þótt heildarhækkun tekjuskatta af einstaklingum og félögum nemi nærri tvöföldun eða úr áætluðum í 680 millj. kr. í 3 127 millj. kr. Samhliða er kaupgjaldsvísitalan fölsuð með því að flytja til persónuskatta, sem áður voru í formi nefskatta. Almannatryggingagjald og sjúkrasamlagsgjöld, sem hækkaði framfærsluvísitölu og þar af leiðandi kaup launafólks, eiga nú að innheimtast með auknum tekjuskatti á allan almenning, en sá skattur hefur ekki áhrif á vísitöluna. Loks er aðeins tekjuáætlun á fjárlagafrv. breytt til hækkunar milli 2. og 3. umr. um nálægt 1 600 millj. kr., aðallega áætluð hækkun söluskatts um í 000 millj. kr. og áætlaðar tekjur aðflutningsgjalda um nærri 400 þús. kr. Hér er ekki ráðgerð nein ný löggjöf. Hér er raunar gert ráð fyrir mjög miklum halla á viðskiptum við útlönd á næsta ári. Að byggja á slíku samsvarar því að stefna að sívaxandi verðbólgu í skjóli óeðlilegrar, vaxandi veltu, eins og nú hagar til í viðskiptalífi landsmanna, samhliða uggvænlegum áhrifum fyrir okkur á alþjóðlegum peningamarkaði. Þegar svo horfir, vilja þm. Sjálfstfl. ekki taka þátt í atkvgr. nú við lokaafgreiðslu fjárlaga. Þeir munu því ekki greiða atkv. Hins vegar hafa þeir unnið að fjárlagaafgreiðslu með eðlilegum og hefðbundnum hætti í fjvn. og með öðru móti.