22.11.1971
Efri deild: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

71. mál, innlent lán

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 78 hefur ríkisstj. leyft sér að flytja frv. til I. um innlent lán. Hér er um að ræða, að leita eftir heimild til handa ríkisstj. til að taka innlent lán, allt að 200 millj. kr. Gert er ráð fyrir, að form það, sem verður notað við lántöku þessa, verði hliðstætt því, sam verið hefur um hliðstæðar lántökur, að spariskírteinaformið verði valið. Reglur um þessar lántökur eru hliðstæðar því, sem áður hefur verið, að öðru leyti en því, að spariskírteinin verði skráð á nafn. Kjörin eru hliðstæð því, sem er á sparifé landsmanna, að bæði skírteinin og vextir af þeim eru undanþegin sköttum og framtalsskyldu.

Ástæðan til þess, að leitað er eftir þessari heimild nú, er sú, að ríkisstj. hefur ákveðið að reyna að koma því fram að selja þessi skírteini þegar á þessu ári vegna framkvæmda þeirra, sem gera á á næsta ári. Eins og kunnugt er, tók þessi ríkisstj. til starfa á miðju ári og hefur því ekki getað tímans vegna og m.a. vegna þess, að hún er að breyta í nokkru þeirri stofnun sem vann að framkvæmdaáætlun, lagt fram framkvæmdaáætlun fyrir næsta ár, en hún verður lögð fram síðar hér á hv. Alþ. Það eru hins vegar taldar líkur fyrir því, að nokkuð góður verðbréfamarkaður ætti að vera nú, og af þeim ástæðum, vill ríkisstj. ekki sleppa þeim möguleika, sem gæti verið til þess að selja slík verðbréf nú vegna framkvæmda á næsta ári, sem ríkisstj. ætlar sér að vinna að.

Það hefur nokkur umr. farið fram um það í hv. Nd., að ekki væri eðlilegt að leggja fram slíkt frv. sem þetta án þess að gera um leið grein fyrir því, hvaða verkefni það væru, sem ætti að nota féð til, ef bréfin seldust. Eins og fram hefur komið þar, eru hliðstæð dæmi þar um, og ástæðan fyrir því er einmitt sú, sem ég gat um áðan, að tímaskortur hefur orðið til þess og formbreyting, sem verður á Efnahagsstofnuninni, gerir það að verkum, að það hefur ekki þótt ástæða til eða hægt að gera drög að framkvæmdaáætlun, sem fylgdi fjárlagafrv., eins og gert hefur verið á síðari árum. En á verkefnum á vegum ríkisins á næsta ári mun ekki verða skortur, og það hefur komið fram hjá ríkisstj., að hún stefnir mjög að því að leita eftir innlendu fjármagni til framkvæmda, þar sem fjármagnað verður af fjárlögum, t.d. til málaflokka eins og vegamála og fleiri hliðstæðra, raforkuframkvæmda og slíks.

Ég minni á það, að þegar ríkisstj. á sínum tíma tók enska framkvæmdalánið, þá var lagt hér fram á hv. Alþ. frv., án þess að ráðstöfun lægi fyrir á því fé, sem þar var verið að leita heimilda til lántöku um, og á 85. löggjafarþinginu, 1964, fékk ríkisstj. einnig heimild til innlendrar lántöku, og í 4. gr. þess frv. sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lánsfé, er aflast með sölu bréfa og spariskírteina skv. 1. gr., er ríkisstj. heimilt í samráði við fjvn. að verja til framkvæmda á vegum ríkisins og til greiðslu á skuldum ríkissjóðs og ríkisábyrgðasjóðs.“

Þess vegna eru fordæmi fyrir því, að ekki hefur legið fyrir ráðstöfun á því fé, sem leitað er lánsheimildar fyrir, en að sjálfsögðu mun þessu fé verða ráðstafað af Alþ. síðar við afgreiðslu í sambandi við framkvæmdaáætlunina.

Ég mun ekki orðlengja þetta frekar og leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að umr. þessari lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.