22.11.1971
Efri deild: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

71. mál, innlent lán

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Efnislega hef ég ekkert að athuga við það, að ríkisstj. leiti eftir að fjármagna framkvæmdaáætlun ríkisins á þann hátt, sem hér er lagt til. Ég hef sem fjmrh. undanfarin 6 ár lagt árlega fram frv. í þessu skyni og með mjög svipuðum hætti og hér er gert, þ.e.a.s. kjörin á bréfunum eru mjög svipuð, og sú eina breyting gerð þar á, að gert er ráð fyrir, að bréfin verði nafnskráð, sem ekki hefur áður verið, en það tel ég ekki skipta neinu meginmáli varðandi afstöðu til málsins að þessu leyti. Ég efa ekki heldur, að það sé þörf fyrir það í sambandi við framkvæmdaáætlun ársins 1972 að leita eftir fjármagni eftir svipuðum leiðum og gert hefur verið undanfarin ár, þó að ég hafi verið í nokkrum vafa um það, miðað við það sem hæstv. fjmrh. hefur haldið fram undanfarin ár, að það mundu verða neinar verulegar upphæðir í þessu sambandi, vegna þess að hann hefur gagnrýnt það töluvert mikið, að það væri verið að taka lán til framkvæmda, sem eðlilegra væri að fjármagna með beinum ríkisframlögum, því að með þessum hætti væri aðeins verið, eins og ég held að hann hafi orðað það, að binda framtíðinni bagga á herðar. Ég skal ekki deila á hann um það, hvað kemur út úr því dæmi. Það liggur ekki hér fyrir, og það er ekki heldur hægt að ætlast til þess í rauninni, að það liggi fyrir. Eins og hann sagði, kom ríkisstj. ekki það snemma til valda, að þess væri að vænta, að hægt væri að láta drög að framkvæmdaáætlun fylgja fjárlagafrv., eins og verið hefur nú síðustu árin, þótt ég hins vegar telji, að það sé mjög bagalegt, ef ekki er hægt að gera Alþ. grein fyrir því, áður en fjárlagaafgreiðslu lýkur, hvaða framkvæmdir það eru, sem ætlunin er að fjármagna með lánum. Jafnvel þó að svo verði, tel ég ekki ástæðu til að vera á móti þessu máli þess vegna.

Það eru hins vegar aðrar hugleiðingar, sem vakna þegar þetta frv. er rætt. Það er í fyrsta lagi, hvaða nauðsyn beri til þess að afla þessa fjár nú. Hæstv. ráðh. segir, að horfur séu á, að nú sé góður markaður fyrir þessi bréf. Það hefur síðustu árin aldrei vantað markað fyrir þessi bréf. Það hefur verið biðlisti. í bönkum af fólki, sem hefur viljað eignast þessi bréf, því að hér er um slíka verðtryggingu að ræða, að sparifjáreigendur leita að sjálfsögðu mjög eftir því að tryggja fé sitt með þessum hætti. Ég held, að ef nokkuð sé, þá séu minni líkur til, ef ætlunin er að ná til hins almenna sparifjáreiganda, að selja bréfin nú, einmitt nú þegar útgjöld fólks fara sérstaklega vaxandi vegna jólahátíðar, sem er nú á næsta leiti, og allir þekkja, að hinn almenni borgari eyðir þá mun meira fé en ella.

Ég sé ekki heldur, hvaða nauðsyn er á að bjóða þetta lán út nú. Ég þykist að vísu vita, að það sé efnislega eitt atriði hjá eftirmanni mínum, hæstv. fjmrh., sem veldur því, að hann hefur áhuga á að fá fé í sjóð sinn nú, og það er staða ríkissjóðs við Seðlabankann, sem ef til vill er ekki sem allra bezt. Ég ætlast ekki til, að verði farið að taka upp umr. um það hér, það er hægt að fá upplýsingar um það væntanlega í n., hvernig sú staða er, en ég skil hann mætavel og hefði vafalaust hugsað það sama og hann, að maður hefði gjarnan viljað sýna þá stöðu nokkru skárri. Þetta eru einu rökin, sem geta verið fyrir því að bjóða lánin út nú, því séu það rök, að með þessu sé verið að vinna gegn þenslu í þjóðfélaginu, þá hefur það nú vissulega verið gert í mjög ríkum mæli að dreifa út fé, sem jafnvel hefur ekki allt verið til í kassa, á undanförnum mánuðum. Með þessu er ég ekki að segja, að það hafi ekki verið gert til mjög þarfra hluta, eins og ég þykist líka vita að eigi að nota þetta fé, en alla vega verður ekki hjá því komizt að gera sér grein fyrir því, hvaða áhrif það hefur á þensluna í þjóðfélaginu.

Það, sem veldur því aðallega, að ég er andvígur því, að þessi heimild sé notuð nú, þótt efnislega sé ég sammála málinu að öðru leyti, og ég tel sjálfsagt á næsta ári að nota að vissu marki þessa heimild, er það, að þetta er gert á þessum tíma og algjörlega komið aftan að bankakerfinu. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að undanfarin ár hefur verið samið við viðskiptabankana um fjármögnun í þessu efni, og það hefur alltaf verið lögð á það hin ríkasta áherzla hjá bönkunum, þegar þeir hafa samið, að leggja fram 10% og eitt ár 15% af sparifjáraukningunni til framkvæmdaáætlunar ríkisins, að þá væri hafður verulegur hemill á útgáfu spariskírteina og haft samræmi þar á milli. Þeir hafa jafnan óskað upplýsinga um það, áður en þeir hafa fallizt á þetta samkomulag, hvað ætlunin væri að gefa út í spariskírteinum. Þetta, sem hér er ætlunin að gera, ef það er ætlun hæstv. ráðh. í alvöru að nota þessa heimild fyrir áramót, er að gefa út á þessu ári spariskírteini, sem nema rúmum 300 millj. kr., en áður hefur hæst verið gefið út af nýjum spariskírteinum 132 millj. Það hefur því valdið stórfelldum ugg í bankakerfinu, að þessi ákvörðun skuli hafa verið tekin af hæstv. ríkisstj., og ber að þessu leyti að harma hana, því að það er augljóst mál, að þetta gerist á versta tíma fyrir bankana, þegar þeir eiga í langmestum erfiðleikum varðandi lánsfé, og er í rauninni að meira eða minna leyti verið að þrengja í stórum stíl að atvinnuvegunum, hvað þá borgurunum almennt, sem verður yfirleitt að neita um lán síðustu mánuði ársins. Þessi vitneskja, sem hér er fengin um 200 millj. kr. nýtt lánsútboð, sem ég efast ekkert um, ef notuð verður, að þá selst það að fullu fyrir áramót, hlýtur að hafa hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir bankakerfið, þó að það kunni eitthvað að rétta stöðu ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum, þá hefur það þau áhrif aftur á móti að gera stöðu viðskiptabankanna þeim mun verri og þrengja að atvinnuvegunum og borgurunum almennt um möguleika til þess að fá lán nú næstu mánuði, a.m.k. næsta mánuð.

Þetta tel ég hið eina, sem er alvarlegt við þetta mál, og þó að ég telji vel geta komið til mála að fjármagna meira en verið hefur, eins og hæstv. ráðh. sagói, framkvæmdir með innlendu lánsfé, þá verður það auðvitað að byggjast á einhverju samræmi og samvinnu við bankakerfið, samræmi við sparifjáraukninguna á hverjum tíma og samræmi við það, hvað er farið fram á, að látið sé af sparifjáraukningunni til framkvæmdaáætlunarinnar, og auk þess þarfa atvinnurekstrarins fyrir rekstrarfé, sem er stórvaxandi.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að þó að vísu sé verðstöðvun, þá er því ekki að leyna, að vaxandi fer rekstrarfjárþörf atvinnuveganna, m.a. vegna stóraukinnar veltu í mörgum atvinnugreinum og aukinna umsvifa í mörgum greinum þjóðfélagsins, sem má vera að sé of mikil, en hefur þó átt sinn þátt í því, að atvinnuleysi er horfið. Því er lánsfjárhungur í mörgum greinum.

Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi hér fram í sambandi við þetta mál, ekki af neinum fjandskap við þá hugsun, sem liggur á bak við það hjá hæstv. ráðh., heldur til upplýsinga fyrir hv. dm. um það, að ég tel uggvænlegt að bjóða þetta lán út nú fyrir áramótin. Og ég minni enn á það, að hæstv. ríkisstj. hefur í málefnasamningi sínum farið mörgum orðum um nauðsyn þess að hlynna að atvinnuvegunum, bæði varðandi stofnlán og rekstrarlán. Hér liggur t.d. fyrir Alþ. till., flutt af stjórnarsinnum sjálfum, um að stórbæta aðstöðu iðnaðarins til lánsfjáröflunar. Varðandi þann banka, sem ég þekki til, þá lendir það á mjög óhagkvæmum tíma, vegna þess að við horfumst nú í augu við vandamál, sérstaklega afurðalán landbúnaðarins, sem er mjög þungur baggi, og á næstu mánuðum verður sjávarútvegurinn að sjálfsögðu vandamál annarra víðskiptabanka.

Herra forseti. Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum. Þessu máli hefur verið hreyft í Nd., án þess að það hefði haft nokkur áhrif á hæstv. ráðh., sem ég harma, og ég vil vænta þess, að hann vilji þó enn íhuga það, jafnvel þó að þessi heimild fáist, að fara með hófsemi í þetta lánsútboð, vegna þess að ég fullyrði, að það er engin nauður, sem rekur til þess að bjóða þetta lán út nú fyrir jól af ótta við það, að þessi bréf seljist ekki eftir á, eins og þau mundu seljast nú. Að svo miklu leyti sem hér er ætlunin að ná til fjár, sem ella færi í eyðslu, þá er því miður því til að svara, að reynslan er sú, að meginþorrinn af þessu fé fer út úr banka- og sparifjárkerfi landsins.