16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða einstaka liði frv. eða hina tæknilegu hlið þess. Það hafa aðrir aðilar gert, sem kynnt hafa sér málið betur en ég. Erindi mitt hingað í ræðustól var aðallega að bera fram eina fsp. til hæstv. fjmrh. Hún er á þá leið, hvort þess sé ekki að vænta, að í sambandi við breytingu á skattalögunum nú verði frekar athugað um meiri frádrátt til handa sjómönnum en verið hefur.

Ég vil benda á, að fyrir hv. Alþ. liggja nú tvö frv., sem hér hafa verið tekin fyrir við 1. umr. og vísað til n. og eru nú í athugun þar. Mér þykir rétt að benda á í þessu sambandi, að eins og aðstaðan er nú, þá mundi ég telja mjög mikilvægt, ef hæstv. ráðh. gæti gefið einhverja vitneskju um það, hvort þarna muni verða einhver leiðrétting á gerð. Fram undan eru, að ég hygg, allerfiðir samningar við sjómannasamtökin um kaup og kjör. Og ég er sannfærður um, að það mundi verða til að greiða fyrir þeim samningum, ef þeir fengju einhverja vitneskju um, að einhver frekari ívilnun ætti sér stað þeim til handa í sambandi við skattamál. Það hefur verið á það hent, að þótt þarna sé farið inn á þá braut að veita einni stétt sérstaklega frádrátt umfram aðra í sambandi við tekjur sínar, hefur það aldrei, svo að ég hafi vitað til, verið talið neitt eftir og ekki talið óeðlilegt, þótt þetta væri gert við sjómannastéttina. Ég hygg, að það yrði ákaflega vel þegið, og mundi, eins og ég sagði, án efa geta orðið til þess að greiða fyrir þeim samningum. sem nú eru fram undan við þessa aðila.

Um málið sjálft í heild vildi ég segja það, að það kom fram hér, sem ég hef átt von á. Á ég þá við þær ábendingar og þá útreikninga, sem hæstv. fjmrh. var með, og þau einstöku dæmi, sem hann gerði grein fyrir hér á Alþ. Það hefur verið vitnað til upplýsinga, sem hann gaf í hljóðvarpinu hinn 13. des. s.l., og komst hann þar að þeirri niðurstöðu, að í þeim þrem tekjuflokkum, sem hann taldi upp þar, þ.e. frá 257 þús. kr. tekjum upp í 470 þús. kr. hjá giftu fólki, væri um lækkun á sameiginlegum sköttum til ríkis og bæjar að ræða. Hins vegar taldi hann, að þegar tekjur sambærilegra aðila væru komnar upp í 1 230 þús. kr., þá færi hækkun fyrst að koma í ljós. Hann taldi, að hún yrði 27 þús. kr. í þessum tekjuflokki, eins og hér hefur verið réttilega bent á. Ef mér hefur tekizt að taka niður rétt þær tölur, sem hæstv. ráðh. las hér yfir okkur í kvöld um skattaútkomu hinna ýmsu tekjuflokka, þá sýnist mér nú, að í ljós komi, að hann teldi, að skattar til ríkis og hæja sameiginlega byrjuðu að hækka af mun lægri tekjum en hann gerði grein fyrir í hljóðvarpinu. Mér skildist, að hann teldi, að þegar frá 400 eða 450 þús. kr. tekjum byrjuðu þeir tekjuflokkar að hækka.

Þetta gefur tilefni til að benda á, að það virðist vera að verða lenzka hjá hv. ráðh., að þeir túlka málið, þegar þeir koma fram á opinberum vettvangi, eftir því, sem þeir halda, að sé bezt fyrir þá, sem á þá hlýða í það og það skiptið. Það er auðvitað ákaflega gott fyrir hæstv. fjmrh. að geta komið fram í hljóðvarpi og tilkynnt þjóðinni, að hún eigi almennt, — ég fullyrði, að almenningur hefur skilið hann þannig, — von á skattalækkun í sambandi við það frv., sem hér er til umr., en ekki skattahækkun, nema þegar komið er upp í hæstu tekjuflokkana, 1 230 þús. kr., sem ég hygg nú, að enn þá séu taldar til undantekninga hér hjá einstaklingum.

Það er einnig önnur hlið á þessu máli, sem hlýtur að liggja ljóst fyrir. Það er fyrir fram vitað, að sameiginleg heildarútgjöld sveitarfélaga og ríkissjóðs koma til með að hækka stórkostlega á árinu 1972 miðað við það, sem áætlað var um útgjöld þessara aðila á árinu 1971. Og ef það reynist svo, eins og þegar er fyrir fram vitað, að heildarútgjöld þessara tveggja aðila, sveitarfélaga og ríkissjóðs, hljóta að stórhækka, — þá gefur auga leið, miðað við allar þær verðhækkanir sem séð er, að fram undan eru, — að það hlýtur að koma að því einnig, að álögur á skattborgarana hækki til samræmis við hækkun útgjalda. Þetta er svo einfalt dæmi, að það hlýtur að liggja ljóst fyrir hverjum einasta aðila í landinu. Það er ekki hægt að hækka aðeins aðra hliðina, útgjaldaliðina hjá þessum aðilum, tekjuhliðin hlýtur einnig að verða að hækka, og það skiptir ekki gjaldendur öllu máli, í hvaða mynd það er tekið. Aðalatriðið er að fá réttar og raunsæjar upplýsingar um málið og að sjálfsögðu að sleppa sem bezt við hækkanirnar.

Það er erfitt og ég hef ekki lagt í það að kynna mér málið að því leyti að fara að ræða einstaka tekjuflokka. Það hefur verið gert hér, en tími vinnst sem betur fer til að gera það í því fríi, sem fram undan er hjá okkur þm., og hygg ég, að flestir þm. muni leggja sig fram um að kynna sér málið sem bezt.

Þetta mál snertir að sjálfsögðu fjárlögin og efnahagsmálin almennt. Einn hv. ræðumanna, hv. 2. landsk. þm., benti réttilega á það hér í ræðu sinni í kvöld, að það er því miður þegar orðið ljóst, að fram undan eru stórfelldari verðlagshækkanir almennt en við höfum nokkurn tíma um nokkur áramót áður getað séð fyrir. Hækkun fjárlaga um kannske 4.5 eða 6 milljarða segir auðvitað sína sögu. Og þegar það er fyrir fram vitað, að kaupgjald muni á næstu tveimur árum hækka um 45–62%, þá segir það einnig sína sögu. Það getur ekki farið fram hjá neinum aðila, að þetta þýðir ekki það, sem við höfum fram að þessu kallað óðaverðbólgu. Þetta þýðir hreina kollsteypu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Aldrei fyrr hefur um áramót verið fyrirsjáanleg slík hækkun og það á ekki lengri tíma en hér er um að ræða. Í kjölfar þessara almennu verðhækkana, sem séðar eru fyrir, hlýtur vísitalan einnig að hækka og kalla á enn meiri hækkanir. Þetta er sama lögmálið og gilt hefur og gildir að sjálfsögðu alltaf, þegar vísitalan er óbundin.

En þegar við lítum á þetta, þá hljótum við einnig að gera okkur grein fyrir, hvernig afkoma atvinnuveganna verður. Ég kom lítillega inn á þetta í sambandi við umr. um fjárlögin, en vil þó aðeins ræða það nánar hér. Mér er ekki ljóst, hvað ríkisstj. hugsar sér, þegar það er orðið að raunveruleika, að kaupgjald hækkar frá 45% upp í um eða yfir 60% hjá hinum ýmsu greinum atvinnuveganna. Hvernig ætlast hún til, að þeir fái undir þessu risið án sérstakra aðgerða?

Það er rétt, að fiskiðnaður stendur vel í dag. Ef við gætum treyst því, að það yrði áfram, þá væri hættan ekki eins mikil. En þó að við gætum treyst því, að ekki yrðu neinar verðlækkanir á sjávarafurðum á erlendum markaði, þá er það fyrir fram vitað, að hann fær ekki undir þessum útgjöldum risið. Auk þess að almenn útgjaldahækkun hlýtur að verða hjá fiskiðnaðinum eins og öðrum, þá kemur það til viðbótar, sem er alveg vitað, að fiskverð hlýtur að hækka bæði um n.k. áramót og eins í ársbyrjun 1973. Auðvitað hljóta sjómenn að krefjast hækkunar til samræmis við þær almennu hækkanir, sem orðið hafa. Þegar hækkanirnar verða í tveimur áföngum, þá hljóta þeir einnig fyrir áramótin 1973 að krefjast síns hluta í hinum almennu hækkunum. Þetta er staðreynd, sem hæstv. ríkisstj. þýðir ekkert að loka augunum fyrir. Þetta hlýtur að koma. Og þegar þetta er allt komið saman, þá er það alveg ljóst, að fiskiðnaðurinn þolir ekki þær hækkanir, sem þegar er fyrir fram vitað, að á hann munu leggjast.

Hæstv. ríkisstj. hefur í hinum fræga sáttmála sínum slegið því föstu sem ófrávíkjanlegu, að hún muni ekki fara út í gengislækkun. Hún hlýtur því að hafa á prjónunum aðrar leiðir til handa þessum aðilum, sem að þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar standa. Hún hlýtur að hafa einhverjar hugsanlegar leiðir, sem hún sér fram á, að nota megi til að mæta þessu. Hverjar þær eru, ætla ég nú ekki að fara að spyrjast fyrir um, en mér þykir ótrúlegt, og það er óleyfilegt að hugsa sér það, að ein ríkisstj. vaði í það að standa að öllum þeim hækkunum, sem komnar eru, síðan hún tók við völdum, án þess að gera sér grein fyrir þeim afleiðingum, sem þetta hlýtur að hafa. Manni dettur auðvitað í hug, hvort taka eigi upp einhvers konar uppbótakerfi, falska gjaldeyrissölu eða gjaldeyrisskatt eða eitthvað annað, sem við höfum áður séð, að stjórnir svipaðar þessari hafa leyft sér að standa að og settu þá allt efnahagskerfi þjóðarinnar á þeim tíma úr skorðum.

Sannarlega væri ástæða til að halda mjög langa og ítarlega ræðu um efnahagsmálin og aðstöðuna, sem þjóðin öll er í í dag. Ef undirstöðuatvinnuvegirnir bresta, þá brestur allt efnahagskerfi þjóðarinnar, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, sem auðvitað byggja allt sitt á því, að undirstöðuatvinnuvegirnir geti gengið. En ég ætla nú ekki á þessum kvöldfundi að fara út í slíkt, en ég vildi þó ekki láta hjá líða að vekja athygli á þessu.

Ég endurtek að lokum fsp. mína til hæstv. ráðh., hvort þess sé að vænta í sambandi við afgreiðslu á þessu frv., sem hér liggur fyrir, að hinn sérstaki frádráttur til sjómanna verði einnig tekinn til endurskoðunar. Ef það stendur til. þá er mjög mikilvægt fyrir alla, að það kæmi fram nú, áður en þm. fara í jólafrí.